| Heimir Eyvindarson

Enn eitt jafnteflið við Everton


Liverpool heimsótti Everton á Goodison Park í hádeginu í dag. Niðurstaðan varð 0-0 jafntefli í frekar tilþrifalitlum leik.
9. jafntefli liðanna síðan í október 2010 og 17. borgarslagurinn í röð án Everton sigurs.
Það á ekki af Liverpool að ganga í meiðslamálum þessa dagana. Alberto Moreno meiddist í upphituninni, þannig að Ragnar Klavan sem er rétt nýskriðinn upp úr meiðslum var settur í vinstri bakvörðinn á síðustu stundu. Eins og við var að búast var Clyne hinum megin og Lovren og Van Dijk í hjarta varnarinnar, með Karius fyrir aftan sig. Wijnaldum var aftastur á miðjunni og er greinilega ætlað að leysa það hlutverk í fjarveru Henderson og Can á þriðjudaginn. Með honum á miðjunni voru Milner og Henderson. Frammi voru síðan Mané, Solanke og Ings. 
Leikurinn byrjaði af krafti en róaðist fljótt og fyrri hálfleikur var kannski frekar rólegur miðað við derby, en samt ágætlega opinn leikur og auðvitað sást ein og ein hörð tækling inn á milli og eitt og eitt skot. 

Liverpool átti tvö hættuleg skot. Í fyrra skiptið skaut Solanke nokkurnveginn beint á Pickford af markteig og í seinna skiptið átti Milner gott skot utan úr teig sem Pickford varði mjög vel alveg út við fjærstöng.

Hinum megin varði Karius frábærlega gott skot frá Bolasie í horn. 
Van Dijk átti líka ágæta skottilraun úr aukaspyrnu af löngu færi en Pickford sá við honum og í lok hálfleiksins fékk Mané fínt færi, en skaut yfir. 

Í heildina ágætis hálfleikur, Liverpool mun meira með boltann og klárlega betra liðið, en ekki sama brjálæðið í gangi og stundum áður - t.d. gegn City á miðvikudaginn. Enda kannski ekki hægt að ætlast til þess. 0-0 í hálfleik á Goodison. 

Seinni hálfleikur var rólegri en sá fyrsti. Liverpool var betra liðið framan af en það var svosem ekkert að gerast. Oxlade-Chamberlain kom inná fyrir Milner á 68. mín. og strax mínútu síðar átti hann flottan sprett og glæsilegt skot sem fór rétt yfir skeytin hjá Everton. Hefði verið geggjað hjá honum að ná öðru draumamarki í vikunni. Flott innkoma. 

Síðasti korterið komst Everton óþarflega mikið inn í leikinn og pressaði stíft. Calwert-Lewyn, Walcott og Coleman voru allir nálægt því að skora og þegar ágætur dómari leiksins, Michael Oliver, flautaði til leiksloka held ég að Liverpool vörnin og Karius hafi andað léttar. 

Alls ekki afleit úrslit þótt þetta hafi verið frekar dauft derby (t.d. ekki eitt einasta spjald, sem er óvenjulegt) og mest um vert að enginn af okkar aðalmönnum meiddist þannig að liðið ætti þrátt fyrir allt að geta tekið ágætlega á því í seinni leiknum gegn City á þriðjudagskvöldið. Það er í það minnsta jákvætt að við fáum heldur lengri hvíld fyrir þann leik en City, en þeirra leikur við United er seinasti leikur dagsins í dag. 

Ég held að við getum bara verið ánægð með leikinn, manni sýndist á öllu að leikplanið hefði verið þetta, að reyna að halda hraðanum niðri, halda boltanum, passa að leikurinn færi ekki út í einhverja tæklingavitleysu, halda markinu hreinu og vona svo það besta. Okkar tókst ekki að skora, en annað gekk upp og það var ekki annað að sjá á Klopp eftir leikinn en að hann væri ánægður.

Everton: Pickford, Jagielka, Baines, Keane, Coleman, Schneiderlin, Rooney (Gueye á 57. mín.), Davies (Baningime á 79. mín.), Bolasie (Calwert-Lewyn á 61. mín.), Tosun, Walcott. Ónotaðir varamenn: Robles, Martina, Niasse, Funes Mori.

Liverpool: Karius, Clyne, Lovren, Van Dijk, Klavan, Henderson, Wijnaldum, Milner (Ox á 68. mín.), Solanke, Mané (Firmino á 74. mín.), Ings (TAA á 88. mín.),  Ónotaðir varamenn: Mignolet, Camacho, Masterson og Jones.

Maður leiksins: Gini Wijnaldum fær mitt atkvæði í dag. Hann var mjög öflugur á miðjunni, vann mikið af boltum og stjórnaði spilinu vel. Karius var líka mjög góður og sömuleiðis var ánægjulegt að sjá innkomuna hjá Clyne. Svo var Ragnar Klavan vitanlega enn einu sinni með clean sheet, jafnvel þótt hann væri vinstri bakvörður í dag. 

Jurgen Klopp:
,,Það var óþarflega mikil pressa á okkur síðustu 15-20 mínúturnar, en það var kannski eðlilegt. Við spiluðum vel framan af og það var margt jákvætt í okkar leik. Við stjórnuðum leiknum lengst af og áttum 2-3 ágæt færi. Mjög mikilvægt að halda hreinu í dag og ég er mjög ánægður með innkomuna hjá Clyne sem var að spila sinn fyrsta leik í marga mánuði, þvílíkur leikmaður. Karius varði líka frábærlega og Ings hljóp allan leikinn þrátt fyrir enga leikæfingu, ég spurði hann líka eftir leikinn hvort hann gæti talað!! Nú er það bara næsti leikur, sem betur fer er stutt heim og við getum strax farið að undirbúa okkur. Ég er sáttur við daginn."  

Fróðleikur:

-Danny Ings og Nathaniel Clyne voru báðir í byrjunarliði í fyrsta sinn á þessari leiktíð. 

-Þetta var 231. viðureign Liverpool og Everton, en sú fyrsta fór fram árið 1894.

-Með jafnteflinu á Anfield í desember setti Liverpool met, en þar með var komið lengsta tímabil í sögunni án þess að Everton hefði tekist að vinna. Það lengdist enn frekar í dag, sem er gott.

-Síðasti sigur Everton kom á Goodison í október 2010. Þá stjórnaði David Moyes Everton en Roy Hodgson (hver annar) stjórnaði Liverpool. 

-Síðan þá hafa liðin mæst 17 sinnum; 8 Liverpool sigrar og 9 jafntefli.

-Þess má geta að Everton hefur skorað 38 mörk í deildinni í vetur. Það er jafnmikið og Mo Salah hefur skorað í öllum keppnum á leiktíðinni. Í deildinni hefur Salah einmitt átt beinan þátt í 38 mörkum (29 mörk og 9 stoðsendingar). 

-Wayne Rooney var að spila sitt 7. derby fyrir Everton. Hann hefur aldrei verið í sigurliði, en skorað eitt mark. Hann var líka alveg gallsúr á svipinn þegar Big Sam tók hann af velli eftir tæpan klukkutíma. Ágætlega skemmtilegt augnablik. 

-Hér er viðtal við Klopp af Liverpoolfc.com

-Hér eru myndir úr leiknum af sömu síðu

  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan