| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Eftir vonbrigði á Old Trafford um síðustu helgi dugar ekki annað en að koma sér í gang á nýjan leik. Watford kemur í heimsókn á Anfield síðdegis í dag og þrjú stig úr leiknum er krafa en ekki bón!

Liverpool lék ekki vel á móti Manchester United en hefði átt að ná stigi miðað við gang leiksins og ef dómari leiksins hefði dæmt eðlilega. Minnsta kosti eitt víti til handa Liverpool og rautt spjald á einn leikmanna Manchester United var sanngjörn krafa en það tjáir ekki að ræða það meira. 



Leiktíðin hófst á leik á móti Watford sem endaði með 3:3 jafntefli eftir að heimamenn höfðu skorað í blálokin. Reyndar var það mark rangstaða en ekki meira um það. Í þeim leik skoraði Mohamed Salah í sínum fyrsta leik svo lítið bar á. En síðan hefur þessi magnaði Egypti bætt við 31 marki! Þegar hann skoraði á móti Watford hefði ekki nokkrum manni dottið í hug að hann ætti eftir að láta jafn hraustlega til sín taka á sinni fyrstu  leiktíð. Þó svo Liverpool hafi borgað Roma 44 milljónir sterlingspunda fyrir Mohamed þá er ekki annað hægt að segja að Liverpool hafi gert kjarakaup. 





Til að Liverpool eigi að ná viðunandi árangri á leiktíðinni þá verður Mohamed að halda áfram á sömu braut. Það mæðir mikið á honum og hann þarf hjálp annarra leikmanna á borð við Roberto Firmino og Sadio Mané. Þeir hafa reyndar ekki látið sitt eftir liggja og Roberto er kominn með 22 mörk og Sadio 14. Hvorugur hefur áður skorað svo mörg mörk áður fyrir Liverpool. 


Vörnin hefur batnað eftir að Virgil Van Dijk kom inn í hana. Loris Karius hefur farið vaxandi eftir að hann var gerður að aðalmarkmanni og hugsanlega gæti hann orðið ennþá betri. Það virðist búa mikið í honum. Framlínan skiptir vissulega miklu en vörnin þarf að vera traust og það eru veikleikar í henni þrátt fyrir framfarir. Ekki má gleyma miðjunni. Hún hefur verið sterk en þarf að vera enn betri ef Liverpool á að geta balndað sér af alvöru í baráttu um enska meistaratitilinn á komandi árum!

En útlitið er bjart hjá Liverpool. Liðið hefur það í hendi sér að ná einu af efstu fjórum sætum deildarinnar og mögnuð Englandsrimma á móti Manchester City bíður í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Watford er með seigt lið en Liverpool vinnur 3:0 í dag. Mohamed Salah skorar tvívegis og Sadio Mané eitt. 

YNWA!



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan