| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Í kvöld tekur Liverpool á móti Porto á Anfield í kvöld í seinni leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Portúgalska liðið þarf kraftaverk til að komast áfram í 8 liða úrslitin.

Jürgen Klopp sagði á blaðamannafundi í gær að það hvarflaði ekki að honum að fara að stilla upp einhverju varaliði, þrátt fyrir yfirburðastöðu. Hann sagðist kannski þurfa að gera eina, tvær þrjár, breytingar - eins og hann orðaði það - en það væri vegna þess að menn væru að glíma við einhver smávægileg meiðsli eða veikindi. Ekki af vanvirðingu við keppnina. 

Það er alveg morgunljóst að Porto menn mæta af fullum krafti í leikinn, þeir hafa engu að tapa og þeirra eina von er að skora snemma og fá blóð á tennurnar. Ef Liverpool mætir ekki til leiks strax á fyrstu mínútu þá er aldrei að vita hvernig fer. Það verður þó að teljast ólíklegt að Porto takist að landa 6-0 sigri, en það getur auðvitað allt gerst í boltanum. 

Síðan Liverpool kjöldró Porto fyrir 20 dögum hefur portúgalska liðið leikið fjóra leiki og unnið þá alla. Þeir eru á góðu skriði og eru vitanlega með ágætis lið þannig að það má alls ekki vanmeta liðið. 

En nóg um hvað getur gerst, við hljótum að gera kröfu um að vinna þetta lið á Anfield og ekki orð um það meir. 
Liverpool er á fínu skriði þessa dagana. Það eru flestir leikmenn heilir, Wijnaldum og Woodburn eru reyndar með einhvern flensuskít og Robertson var ekki með á æfingu í gær þannig að trúlega verður Moreno í vinstri bakverðinum. 

Menn hafa helst tippað á að Henderson verði hvíldur, enda er standið á honum ekki alltof gott, og mikilvægt að hafa hann stráheilan gegn United um helgina. Firmino, Salah og Mané hafa auðvitað líka verið nefndir, en einhvernveginn finnst mér líklegra að Klopp byrji með a.m.k. tvo þeirra, en skipti þeim þá frekar snemma útaf ef leikurinn spilast sæmilega fyrir okkur. 

Klopp gaf sterklega í skyn að Lallana yrði á miðjunni. Eins sló hann því svo að segja föstu að Karius yrði í markinu og eins og áður segir er líklegt að Moreno byrji leikinn einnig. Restin verður svo bara að koma í ljós. 

Ég verð að viðurkenna að það er bullandi vanmat í gangi hjá mér og ég er svo sannarlega kominn með hugann við næsta leik. Þannig að það er alveg bullandi lukka að ég er ekki leikmaður Liverpool. Af ýmsum öðrum ástæðum einnig svosem. 

Ég vona að leikmenn standist áhlaup Porto, en ég þori ekki að spá neinu. Eigum við að segja 1-1 í hrútleiðinlegum leik? Matip skorar fyrir Liverpool.

YNWA!

  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan