| Grétar Magnússon

Clyne byrjaður að æfa

Hægri bakvörðurinn Nathaniel Clyne er byrjaður að æfa aftur eftir að hafa verið frá vegna meiðsla allt þetta tímabil.  Jürgen Klopp segir að valmöguleikar sínir hvað þessa stöðu varðar séu vissulega góðir núna.


Clyne hefur verið meiddur í baki síðan seint á undirbúningstímabilinu og greinilega hefur verið erfitt að greina nákvæmlega hvað og hvernig ætti að bregðast við því þar sem rúmlega 5 mánaða fjarvera er ansi langur tími.  En hann hefur nú snúið aftur til æfinga og myndir af honum hafa birst á opinberri heimasíðu félagsins þar sem leikmenn eru nú staddir á Spáni við æfingar í aðeins betra loftslagi en er á Englandi um þessar mundir.

Joe Gomez hefur einnig snúið til baka eftir smávægileg meiðsli undanfarið og á meðan allir þrír hægri bakverðir félagsins eru í góðu standi verður að segjast að Klopp á úr nægu að velja þegar hann stillir upp liðinu það sem eftir er leiktíðar.

Klopp hafði þetta að segja um Clyne eftir að hann hafði klárað sína fyrstu æfingu með liðsfélögum sínum á Spáni:  ,,Clyney saknaði augljóslega knattspyrnunnar! Hann elskar leikinn! Það er í rauninni rugl hvað hann hefur verið lengi frá og enginn hefði getað ímyndað sér það, en það er gott að fá hann til baka."

,,Því miður geta ekki allir spilað í einu.  Hvað bakvarðastöðuna varðar er þetta aðeins erfitt og spurning hvort að einhver þeirra geti spilað í annari stöðu.  Þetta er nokkuð sérhæfð staða - sem þýðir að annaðhvort spilarðu eða þú ert ekki í leikmannahópnum.  Clyney þarf meiri tíma, það er satt, en hann lítur mjög vel út."

,,Trent hefur gert vel undanfarið og þetta var í fyrsta sinn sem hann hefur byrjað þrjá leiki í röð (Tottenham, Southampton og Porto) - ég held að hann hafi ekki haldið að hann myndi spila svo mikið.  Gegn Southampton held ég að hann hafi verið aðeins tæpur en við höfðum enga aðra valkosti í stað hans og við þurftum því að láta hann spila aftur gegn Porto og þar stóð hann sig frábærlega."

,,Svona er þetta, maður þarf að fá áskorun og þegar menn átta sig á því að hún er til staðar segja menn "Ég er klár í slaginn".  Það var gott að sjá í tilfelli Trent.  Joe er einnig mikilvægur leikmaður og það er gott að hann er kominn til baka."

,,Það má svo sjá að Clyney er virkilega góður fótboltamaður og þegar hann er kominn í leikform verður hægri bakvarðastaðan ansi þægileg fyrir okkur."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan