| Heimir Eyvindarson

Klopp hefur áður verið í þessum sporum

Jürgen Klopp er ekki að missa lykilmann í fyrsta skipti á ferlinum. Hann hefur lent í því nokkrum sinnum áður og yfirleitt leyst það ágætlega. 

Liverpool Echo er með ágæta samantekt um það hvernig Klopp gekk að finna eftirmenn lykilmanna sem hann missti meðan hann var hjá Dortmund. 
Fyrstur á listanum er góðkunningi okkar Nuri Sahin, en þrátt fyrir að hann hafi ekki vakið mikla lukku þann stutta tíma sem hann var hjá Liverpool í láni (ág. 2012-jan. 2013) var hann lykilmaður hjá Dortmund þegar Klopp gerði liðið að Þýskalandsmeisturum í fyrsta sinn leiktíðina 2010-2011.

Eftir frábæra leiktíð hjá Dortmund var Sahin seldur til Real Madrid, en Klopp keypti tvítugan Ilkay Gundogan í staðinn. Gundogan smellpassaði í liðið og var í stóru hlutverki leiktíðina 2011-2012, þegar Dortmund vann bæði bikarinn og Bundesliguna. 

Shinji Kagawa lék einnig stórt hlutverk hjá Dortmund þessar tvær leiktíðir. Hann fór til Manchester United sumarið 2012 og í staðinn keypti Klopp Marco Reus frá Borussia Mönchengladbach, sem hefur verið einn besti leikmaður Dortmund allar götur síðan. Þess ber reyndar að geta að Klopp seldi Reus til Gladbach skömmu eftir að hann tók við Dortmund. Broskall.

Eftir að Dortmund hafði unnið Bundesliguna tvö ár í röð brá Bayern München á það ráð að kaupa meira og minna upp Dortmund liðið. Meðal leikmanna sem Bayern hirti af Dortmund var Mario Götze, sem hafði leikið mjög stórt hlutverk hjá Dortmund frá 2009. Bayern keypti Götze sumarið 2013 á 37 milljónir evra, sem gerði Götze að næst dýrasta Þjóðverjanum á eftir Mezut Özil. 

Klopp og hans menn keyptu Henrik Mkhitaryan í staðinn fyrir Götze, en Mkhitaryan kaus frekar Klopp en Liverpool það sumarið eins og við munum. Þetta sama sumar keypti Dortmund líka Pierre Emerick Aubameyang og gríska varnarmanninn Sokratis Papastathopolous. Ekki einföldustu nöfnin að bera, en báðir virkilega góðir leikmenn. 
Eins og sést á þessari upptalningu gekk Klopp og hans mönnum í raun fáránlega vel með leikmannakaup allt fram til ársins 2014, en þá fór líka að halla undan fæti. Stærsta floppið var líklega Giro Immobile sem Dortmund keypti til að taka við af Robert Lewandowski, sem Bayern hirti frítt sumarið 2014. 

Lewandowski var algjör gullkálfur hjá Dortmund og skoraði mark í meira en öðrum hverjum leik. Ein allra bestu kaupin sem Klopp gerði hjá Dortmund (keyptur á 4,5 milljónir evra). Immobile reyndist hinsvegar alls ekki eins vel. Hann var keyptur á tæpar 20 milljónir evra, spilaði 34 leiki og skoraði 10 mörk. Þar af aðeins þrjú í Bundesligunni. 

Dortmund endaði þessa leiktíð í 7. sæti og Klopp tilkynnti afsögn sína um vorið.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan