| Heimir Eyvindarson

Annáll ársins

Enn eitt viðburðaríkt ár í sögu Liverpool FC er að baki. Við á Liverpool.is förum yfir það helsta, mánuð fyrir mánuð. 

Liverpool lék 53 keppnisleiki á árinu 2017. Rétt tæpur helmingur leikjanna vannst; 26 sigrar, 17 jafntefli og 10 töp er niðurstaða ársins sem eins og mörg undanfarin ár bauð upp á blöndu af vonum og vonbrigðum, skemmtun og leiðindum, gleði og sorg. 

Janúar - Vonbrigði, vonbrigði, vonbrigði

Það jákvæðasta við janúarmánuð var að Coutinho skrifaði undir samning til ársins 2022. Það er alveg á hreinu að það er eitt það mikilvægasta sem forráðamenn Liverpool gerðu á árinu. Tryggir okkur að minnsta kosti góðan pening þegar (ekki ef) Brassinn fer. 

Það var einnig jákvætt að Joe Gomez sneri loks til baka eftir langvinn meiðsli og skrifaði undir langtímasamning eftir ágæta frammistöðu í þremur leikjum. 

Eins held ég að menn geti verið sammála um að það hafi verið jákvæð tíðindi að Steven Gerrard sneri aftur til félagsins í janúar, fyrst um sinn sem unglingaþjálfari og ráðgjafi.

En á fótboltavellinum sjálfum var mánuðurinn eiginlega samfelld vonbrigði. Sérstaklega í ljósi þess að liðið endaði 2016 í miklu stuði og kórónaði góða frammistöðu í jólamánuðinum með því að leggja Manchester City að velli á gamlársdag.

Árið byrjaði á tilþrifalitlu 2-2 jafntefli við Sunderland tæpum 48 klukkustundum eftir City leikinn og svo rak hver hörmungin aðra; við féllum út úr báðum bikarkeppnum og unnum aðeins einn leik af níu í mánuðinum. Sá leikur var gegn Plymouth í FA bikarnum og var skammgóður vermir því Wolves sló Liverpool út í umferðinni á eftir. 

Liverpool sársaknaði Sadio Mané í janúar, en hann var í Afríkukeppninni. Aukinheldur voru Coutinho og Matip talsvert frá þannig að liðið réði illa við leikjaálagið í upphafi árs. Skástu úrslitin voru 1-1 jafntefli við Manchester United á Old Trafford og Chelsea á Anfield.

Liverpool keypti ekki einn einasta mann í janúarglugganum, sem vakti ekkert sérstaka hrifningu meðal stuðningsmanna félagsins. Hinsvegar voru Mamadou Sakho, Cameron Brannagan, Lazar Markovic og Pedro Chirivella allir lánaðir út og Tiago Ilori var seldur til Reading.

Febrúar - La Manga

Það var ósköp lítið að frétta í febrúar. Liðið byrjaði á því að tapa 2-0 fyrir Hull, síðan lagði liðið Tottenham með tveimur mörkum frá Mané, sem margir töluðu á þessum tímapunkti um sem mikilvægasta leikmann liðsins, enda hafði hans verið sárt saknað meðan á Afríkukeppninni stóð.

Eftir Tottenham leikinn fór liðið til La Manga á Spáni í æfinga- og afslöppunarbúðir, en mikið álag hafði verið á liðinu fram að þessu og töluverð andleg og líkamleg þreyta virtist komin í mannskapinn.

En ef einhverjir héldu að liðið væri komið á beinu brautina eftir Tottenham leikinn og La Manga ferðina var þeim kippt jafnharðan niður á jörðina í næsta leik þegar Leicester vann Liverpool 3-1, í fyrsta leik sínum undir stjórn Craig Shakespeare. Besti leikur Leicester á tímabilinu, týpískt. 

Ian Ayre yfirgaf félagið í febrúar og Peter Moore var ráðinn í staðinn. Mun minna hefur farið fyrir honum en forvera sínum. 

Mars - Allt á uppleið

Liverpool lék þrjá leiki í mars og var allt annað að sjá til liðsins. Fyrst lá Arsenal 3-1, þá Burnley 2-1 og síðan gerðu okkar menn 1-1 jafntefli við Manchester City í stórgóðum fótboltaleik. Liðið lék vel í leikjunum gegn City og Arsenal, en tilþrifin gegn Burnley voru ekkert sérstök enda hafði Klopp orð á því eftir leikinn að sigurinn gegn Burnley væri fyrsti ljóti sigurinn sem liðið hefði landað. ,,Vanalega töpum við þegar við spilum svona illa, en núna náðum við þremur stigum þrátt fyrir vonda frammistöðu. Það er jákvætt", sagði Klopp eftir leikinn.

James Milner sinn 600. leik fyrir enskt félagslið þegar Liverpool mætti Burnley. Leikurinn gegn Burnley var 75. leikur Milner með Liverpool, hina leikina 535 lék hann með Leeds, Swindon, Newcastle, Aston Villa og Manchester City.

Apríl - Derbysigur, Mané meiðist og hörð refsing frá FA

Aprílmánuður byrjaði með 3-1 sigri á Everton, þar sem Mané, Coutinho og Origi skoruðu fyrir Liverpool. Eftir talsverða lægð þóttust menn sjá að Coutinho væri búinn að finna formið á ný, en hann var maður leiksins. Það voru hinsvegar ekki jafngóð tíðindi að Sadio Mané fór meiddur af velli og kom ekki meira við sögu á leiktíðinni. 

Skömmu eftir Everton leikinn var tilkynnt að Liverpool hefði fengið harða refsingu frá FA fyrir að nálgast ungan samningsbundinn leikmann Stoke með ólöglegum hætti. Liverpool varð að gera sér að góðu að mega ekki kaupa akademíu spilara frá öðrum enskum félögum næstu tvö árin. Aukinheldur þurfti félagið að borga sekt. Ansi harkaleg refsins, sérstaklega í ljósi þess hvernig önnur lið virðast mega haga sér. 

Í apríl var einnig tilkynnt að búið væri að finna Steven Gerrard endanlegt starf hjá félaginu. Hann tók við U-18 ára liðinu í apríl, en hafði fram að því gegnt óskilgreindri stöðu sem unglingaþjálfari og ráðgjafi. 

Liverpool lék fimm leiki í apríl, vann þrjá (Everton, Stoke og WBA), gerði svekkjandi jafntefli við Bournemouth, þar sem Joshua King jafnaði metin á lokamínútunum, og tapaði svo síðasta leik mánaðarins 1-2 fyrir Crystal Palace á Anfield þar sem Christian Benteke (hver annar?) skoraði bæði mörk gestanna.  

Maí - Mané leikmaður ársins, Can með mark leiktíðarinnar og Meistaradeildin tryggð

Liverpool lék fjóra leiki í deildinni í maí. Byrjaði á því að vinna Watford 0-1 á útivelli með sirkusmarki frá Emre Can, gerði svo 0-0 jafntefli við Southampton og burstaði West Ham 0-4 í London í næst síðustu umferð Úrvalsdeildar. Sigurinn á West Ham þýddi að liðið var í 3. sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina og í bullandi Meistaradeildarsjéns.

Í lokaleiknum kom Middlesboro í heimsókn á Anfield og lá 3-0. ,,Heimavallar Wijnaldum" (hann hefur enn ekki skorað mark á útivelli í 'urvalsdeildinni) skoraði fyrsta mark leiksins á lokaandartökum fyrri hálfleiksins en á þeim tímapunkti var andrúmsloftið á Anfield orðið ansi taugatrekkjandi og virtist sem bæði leikmenn og stuðningsmenn væru búnir að missa trúna á því að liðinu tækist að klára verkefnið. Lallana og Coutinho skoruðu svo snemma í síðari hálfleik og tryggðu langþráð Meistaradeildarsætið.

Liverpool endaði raunar í 4. sæti (Manchester City átti leik til góða eftir West Ham leikinn hjá okkur), sem þýddi að liðið myndi þurfa að fara í gegnum umspil í CL, en við höfðum ekki miklar áhyggjur af því.

Liverpool endaði leiktíðina með 76 stig, einu stigi meira en Arsenal og 7 stigum meira en Man. Udt. Chelsea vann deildina með stæl, endaði með 93 stig.

Coutinho var markahæstur okkar manna í deildinni með 13 mörk, Mané var valinn leikmaður almanaksársins hjá stuðningsmönnum Liverpool og markið sem Can skoraði gegn Watford fyrr í mánuðinum var valið mark leiktíðarinnar. 

Í lok maí var tilkynnt að Dominic Solanke væri orðinn leikmaður Liverpool, en hann kom á frjálsri sölu frá Chelsea. 

Júní - Salah!


Mánuðurinn byrjaði á því að Southampton klagaði Liverpool til FA fyrir að reyna af of miklum krafti að tryggja sér þjónustu Virgil Van Dijk. FA áminnti Liverpool í kjölfarið og félagið varð að senda frá sér opinbera afsökunarbeiðni og halda að sér höndum. 

Nokkrum dögum síðar kom Mohamed Salah frá Roma fyrir u.þ.b. 40 milljónir evra. Nú þegar árið er liðið er alveg morgunljóst að Egyptinn er hverrar evru virði og vel það. Frábær kaup. 

Annað markvert gerðist svosem ekki í júnímánuði, enda ekki einu sinni búið að opna gluggann. 

Júlí - Lucas Leiva kveður

Í júlí hófst undirbúningur fyrir leiktíðina með æfingaferðum til Kína og Þýskalands. Af leikmannamálum bar líklega hæst að Lucas Leiva kvaddi félagið eftir 10 ára þjónustu, en hann fór til Lazio. Andre Wisdom var seldur til Derby og Kevin Stewart fór til Hull, en frá Hull fengum við einmitt þriðja nýja leikmann sumarsins; Andy Robertson. 

Ágúst - Coutinho farsinn nær hámarki, Keita keyptur og sæti í riðlakeppni CL tryggt. 

Í ágúst voru sögusagnir um að Coutinho væri á leið til Barcelona orðnar verulega háværar og þreytandi. Þær náðu hámarki rétt fyrir fyrsta leik í Úrvalsdeildinni þegar Coutinho fór fram á að vera seldur en félagið neitaði honum. Fréttir bárust af því að Brassinn hefði brostið í grát vegna viðbragða félagsins. 

Liverpool tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar með því að leggja Hoffenheim í tveimur leikjum, 2-1 og 4-2. Í Úrvalsdeildinni byrjaði liðið á 3-3 jafntefli gegn Watford þar sem Mo Salah óð í færum, en skoraði aðeins eitt mark. Það átti eftir að vera sama sagan hjá honum næstu vikurnar, færanýtingin til að byrja með var í raun alveg ferleg. En Egyptinn er nú búinn að bæta þann hluta leiksins hjá sér.

Liverpool vann svo Crystal Palace 1-0 áður en Arsenal steinlá 4-0 á Anfield í lok mánaðarins. Það reyndist síðasti leikur Alex Oxlade-Chamberlain fyrir Arsenal, en hann kom í raðir Liverpool fyrir 35 milljónir punda á lokadegi ágústgluggans. Þann sama dag var Sakho seldur til Palace, þar sem hann hafði verið á láni frá því í janúar. 

Divock Origi var lánaður til Wolfsburg í lok ágúst en stærstu leikmannafréttir mánaðarins voru þær að Liverpool keypti Naby Keita frá Leipzig fyrir u.þ.b. 50 milljónir evra. Keita kemur þó ekki til Liverpool fyrr en næsta sumar. 

September - Skrykkjótt gengi, stórtap gegn City

September mánuður var ekkert sérstakur. Liðið lék 3 leiki í deildinni, tapaði 5-0 fyrir Manchester City, þar sem Mané var rekinn útaf fyrir aðeins of háa fótavinnu, gerði 1-1 jafntefli við Burnley og vann Leicester á útivelli fjórum dögum eftir að Leicester sló okkar menn út úr deildabikarnum með 2-0 sigri á King Power Stadium. Í seinni leiknum gegn Leicester varði Simon Mignolet sitt 8. víti í Liverpool búningnum. 

Liverpool byrjaði Meistaradeildina á tveimur jafnteflum, 2-2 gegn Sevilla heima og 1-1 gegn Spartak Moskvu á útivelli. 


Október -  Markamet í CL

Á fyrsta degi október mánaðar parkeraði Rafa Benitez Newcastle rútunni á St. James Park og okkar menn máttu fara heim með aðeins eitt stig í handraðanum eftir hundleiðinlegan leik. Í næsta leik á eftir lagði annar svokallaður taktískur snillingur sinni rútu á Anfield, en þar á ferð Manchester United og Mourinho. Niðurstaðan 0-0 og október ekkert sérlega upplífgandi so far. 

En 17. október fór Liverpool til Slóveníu og rúllaði yfir Maribor í Meistaradeildinni. Lokatölur urðu 0-7 og ekkert enskt lið hefur unnið jafnstóran útisigur í Meistaradeildinni.

Fimm dögum eftir metleikinn í Maribor steinlá Liverpool svo 4-1 gegn Tottenham á Wembley í pínlegum leik. Eftir leikinn gerði Klopp nokkrar mikilvægar breytingar á leikskipulagi liðsins og þær hafa svo sannarlega skilað sér. 

Í síðasta leik mánaðarins vann Liverpool 3-0 sigur á Huddersfield. Í þeim leik skoraði Daniel Sturridge sitt 62. mark fyrir Liverpool, en markið var jafnframt 100. mark hans fyrir félagslið á ferlinum. Vel af sér vikið, en ljóst að mörkin væru orðin miklu fleiri ef meiðsladraugurinn væri ekki alltaf að hrjá blessaðan kallinn. 

Nóvember - Salah leikmaður mánaðarins og allt á uppleið

Liverpool lék 6 leiki í nóvember, sigraði í fjórum og gerði tvö jafntefli. Fyrra jafnteflið var aldeilis ótrúlegt, en þá náði Sevilla 3-3 jafntefli á heimavelli eftir að hafa verið 0-3 undir í leikhléi. Úrslitin þýddu að Liverpool varð að bíða með að fagna sæti í 16 liða úrslitum CL. 

Seinna jafntefli mánaðarins kom á Anfield fjórum dögum eftir undarlegheitin í Sevilla. Þá kom Chelsea í heimsókn á Anfield og lengi vel leit út fyrir að mark Mo Salah yrði sigurmarkið en undir lok leiksins skoraði Willian eitt mesta heppnismark sem sést hefur á Anfield og niðurstaðan enn eitt jafnteflið við Chelsea. Það 13. frá því að Úrvalsdeildin kom til sögunnar. 

Mo Salah fór á kostum í nóvember, skoraði 8 mörk og var valinn leikmaður mánaðarins. Í lok nóvember var hann kominn með 17 mörk í öllum keppnum og markahæstur í Úrvalsdeild með 12 mörk.  

Desember - Annað markamet í CL, The Fab Four og Van Dijk

Jólamánuðurinn byrjaði með miklum látum, en Liverpool skoraði 12 mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum. Vann Brighton 1-5 á útivelli og Spartak Moskvu 7-0 á Anfield. Með sigrinum á Spartak var sigur í E-riðli Meistaradeildarinnar tryggður og sæti í 16 liða úrslitum staðreynd eftir allt of langa fjarveru. Liverpool skoraði alls 23 mörk í E-riðli, en ekkert enskt lið hefur skorað svo mörg mörk í riðlakeppni CL. Aðeins eitt lið í Evrópu hefur afrekað að skora fleiri mörk í riðlakeppninni, en það er PSG sem skoraði 25 mörk núna í vetur.  

Þeir félagar Firmino, Mané, Coutinho og Salah fengu hið bítlalega viðurnefni Fab Four í ensku pressunni, við litla hrifningu Jürgen Klopp, en fjórmenningarnir höfðu í lok mánaðarins skorað samtals 58 mörk fyrir félagið á leiktíðinni. Salah fór þar fremstur í flokki með 23 mörk, en enginn leikmaður í sögu Liverpool hefur skorað jafnmörg mörk fyrir áramót. 

Það var þétt prógramm hjá félaginu í desember og liðið þurfti að leika 8 leiki í mánuðinum og aukinheldur lék liðið strax 2. janúar, en leikurinn gegn Burnley var 9. leikur liðsins á 30 dögum. Það er rugl leikjaálag.

Liðinu gekk samt sem áður nokkuð vel, en jafnteflin tvö um miðjan mánuðinn gegn Everton og WBA ollu þó talsverðum pirringi meðal stuðningsmanna. Þegar upp var staðið var uppskeran í desember býsna góð; enginn leikur tapaðist, þrjú jafntefli, fimm sigrar og sæti í 16 liða úrslitum CL.

Fyrir utan sætið í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar kom svo kannski stærsta jólagjöfin á þriðja degi jóla þegar tilkynnt var að Virgil Van Dijk yrði leikmaður Liverpool þann 1. janúar. Kaupverðið vakti mikla athygli en það er í kringum 75 milljónir punda. Hollendingurinn er þar með dýrasti varnarmaður í heimi. Vonandi stendur hann undir því, en hvað sem mönnum finnst um upphæðina er alveg ljóst að bæði Klopp og FSG eru að senda skýr skilaboð með þessum kaupum.

Gleðilegt ár kæru lesendur og takk fyrir lesturinn 2017.

YNWA! 


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan