| Sf. Gutt

Landsleikjafréttir


Undankeppni HM á næsta ári er að ljúka. Svo voru margir æfingaleikir á dagskrá. Fjórir leikmenn Liverpool tókust á á Wembley. 

England og Brasilía mættust í vináttuleik á Wembley. Joe Gomez og Philippe Coutinho voru í byrjunarliðum landa sinna. Dominic Solanke kom inn á í síðari hálfleik í sínum fyrsta landsleik og Roberto Firmino kom líka til leiks. Ekkert mark var skorað í tilþrifalitlum leik. Dominic var nærri búinn að tryggja enskum sigur undir lokin en náði ekki nógu góðu valdi á boltanum í góðu færi. 

Joe Gomez var valinn Maður leiksins og verður það að teljast magnað gegn Brasilíu í sínum öðrum landsleik. Joe þótti hafa mjög góðar gætur á Neymar dýrasta leikmanni sögunnar. Hann spilaði miðvörð eins og hann hefur oftast gert á ferli sínum þó hann hafði verið hægri bakvörður hjá Liverpool á þessari leiktíð. Philippe var meiddur fyrir landsleikjahlé en nú ætti hann að vera orðinn góður. 

Simon Mignolet fær frekar sjaldan tækifæri í marki Belga en hann stóð í markinu í 1:0 sigri á Japan. Þetta mun hafa verið 20. landsleikur Simon. Divock Origi kom inn á sem varamaður. 

Alberto Moreno spilaði síðari hálfleikinn þegar Spánverjar gerðu 3:3 jafntefli í Rússlandi. 

Emre Can var í byrjunarliði Þjóðverja þegar þeir gerðu 2:2 jafntefli við Frakka í Köln. 

Georginio Wijnaldum kom ekki inn á þegar Holland vann 0:3 í Rúmeníu. 

Tveir ungliðar frá Liverpool voru í byrjunarliði Wales sem gerðu 1:1 jafntefli við Panama í Cardiff. Danny Ward stóð í markinu og Ben Woodburn var í framlínunni. 

Umspilsleikjum um síðustu sætin á HM í Rússlandi lýkur núna í nótt að íslenskum tíma. 

Hér eru myndir úr landsleikjum kvöldsins af Liverpoolfc.com.





 





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan