| Grétar Magnússon

Landsleikjafréttir

Þriðja landsleikjahléið á þessu tímabili stendur nú yfir og það má með sanni segja að það sé það versta sem við höfum gengið í gegnum til þessa.  Flest lið spila tilgangslausa vináttuleiki og almennt er ekki mikið að frétta.

Það er þó rétt að renna yfir gengi okkar manna í landsleikjum til þessa og ber þar helst að nefna að Joe Gomez spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Englendinga þegar hann kom inná sem varamaður í markalausu jafntefli gegn Þjóðverjum á Wembley.


Gomez kom inná fyrir Phil Jones þegar 25 mínútur voru eftir og stóð sig ágætlega.  Emre Can kom inná sem varamaður á 67. mínútu leiksins.

Senegalar og Sadio Mané eru komnir á HM í fyrsta sinn í 16 ár en sætið var gulltryggt með 2-0 sigri á Suður-Afríku.  Mané kom mikið við sögu í leiknum og það mikilvægasta er nú það að hann virðist hafa komist óskaddaður frá leiknum.  Hann lagði upp fyrra mark leiksins með flottri sendingu á Diafra Sakho og í seinna markinu átti hann skot að marki sem var varið en frákastinu náði Thamsanqa Mkhize.

Ben Woodburn kom inná sem varamaður á 63. mínútu hjá Walesverjum í 2-0 tapi í vináttuleik í París.  Danny Ward sat allan tímann á varamannabekknum.

Í Lille í Frakklandi mættu Brasilíumenn Japönum og sátu þeir Philippe Coutinho og Roberto Firmino á varamannabekknum allan tímann, sem er hið besta mál.  Coutinho fór meiddur í þetta landsliðsverkefni en virðist hafa náð sér að fullu og verður vonandi klár í slaginn með Liverpool í næstu leikjum.  Brasilíumenn unnu leikinn 3-1.

Marko Grujic sat sömuleiðis á bekknum allan tímann þegar Serbía sigruðu Kína 2-0.

Divock Origi, sem er á láni hjá Wolfsburg, kom inná sem varamaður í seinni hálfleik í markaleik milli Belgíu og Mexíkó sem endaði 3-3.  Simon Mignolet sat að vanda sem fastast á bekknum allan tímann.

Að lokum er það svo U-21 árs landslið Englendinga sem spilaði í undankeppni EM gegn Úkraínu í Kíev.  Dominic Solanke skoraði í 2-0 sigri og Trent Alexander-Arnold sat á bekknum allan tímann.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan