| Sf. Gutt

Öruggur sigur á Maribor á Anfield

Liverpool vann öruggan 3:0 sigur á Maribor á Anfield í kvöld. Sigurinn var nauðsynlegur því þó Liverpool leiði riðilinn þá má ekkert út af bera í síðstu tveimur leikjunum. 

Eins og við var búist tók Liverpool umsvifalaust öll völd á vellinum. Það gekk þó hvorki né rak að skapa eitthvað af færum. Vörn slóvenska liðsins var mun þéttari en á heimavelli þeirra og leikmenn Liverpool voru lengi vel hugmyndasnauðir. Liverpool varð reyndar fyrir áfalli eftir rúman stundarfjórðung þegar Georginio Wijnaldum varð að fara af velli vegna meiðsla. Líklega voru meiðslin á kálfa. Jordan Hendeson kom til leiks og tók við fyrirliðabandinu af James Milner. Fyrsta færi Liverpool kom eftir hálftíma leik þegar Jasmin Handanovic sló boltann í þverslá eftir að fyrirgjöf hafði skotist af varnarmanni. Frábær markvarsla. Færið kom eftir fyrirgjöf Alex Oxlade-Chamberlain sem átti stórfínan leik. Rétt á eftir sendi hann aftur fyrir markið beint á höfuðið á Emre Can en Þjóðverjanum mistókst alveg að skalla boltann sem fór hátt í loft upp og yfir. Ekkert mark í hálfleik. 

Það sást strax í fyrstu sprettunum að leikmenn Liverpool ætluðu að keyra upp hraðann og koma einhverjum krafti í leik sinn. Þetta bar árangur eftir fjórar mínútur þegar Trent Alexander-Arnold átti frábæra fyrirgjöf frá hægri sem Mohamed Salah stýrði í markið með öðrum leggnum. Glæsilegt hjá báðum og ísinn brotinn. Um tveimur mínútum seinna dæmdi dómarinn vítaspyrnu eftir að Roberto Firmino hafði leikið á varnarmann með því að senda hæslspyrnu milli fóta hans. Snilldarlegt hjá Roberto og varnarmaðurinn sneri hann svo niður. James Milner tók vítið en Jasmin henti sér niður til vinsti og sló í stöng og þaðan fór boltinn út. Býsna gott skot hjá James en meistaraleg markvarsla. Önnur vítaspyrnan í röð sem fer forgörðum hjá James eftir að hann virstist óskeikull af vítapunktinum. 

Enn hélt sókn Liverpool áfram og Alberto Moreno átti góða fyrirgjöf en skalli Mohamed úr upplögðu færi var misheppnaður. Egyptinn hefði átt að skora. Leikmenn Maribor náðu sinni fyrstu sókn sem hægt var að kalla því nafni eftir um klukkutíma en það varð ekki mikil hætta af. Á 64. mínúti var sigur Liverpool innsiglaður. James og Emre Can léku eldsnöggan þríhyrning við vítateiginn. James lagði boltann beint í hlaupaleið Emre og hann skoraði með hnitmiðuðu skoti frá vítateig. Frábært mark!

Ekki löngu seinna átti Martin Milec bylmingsskot langt utan af velli en Loris Karius varði vel með því að skutla sér niður. Lokakafli leiksins var tíðaindalítill þar til á síðustu mínútunni. James tók stutta hornspyrnu á Alberto sem sendi frábæra sendingu yfir á fjærstöng. Boltinn fór yfir alla vörnina á Daniel Sturridge sem tók boltann vel niður og smellti honum í markið fyrir framan The Kop. Flottur endir á góðum sigurleik. 

Líkt og á móti Huddersfield Town á laugardaginn þá var Liverpool lengi í gang en þegar upp var staðið vannst sannfærandi sigur. Sigurinn var nauðsynlegur því nú bíður erfiður leikur á Spáni. Liverpool, Sevilla og Spartak Moskva eiga öll möguleik á að komast upp úr riðlinum. Síðustu tvær umferðirnar verða spennandi!

Liverpool: Karius, Alexander-Arnold, Matip, Klavan, Moreno, Can, Milner, Wijnaldum (Henderson 17. mín.), Salah (Sturridge 74. mín.), Oxlade-Chamberlain og Firmino (Grujic 85. mín.). Ónotaðir varamenn:  Mignolet, Gomez, Robertson og Solanke.

Mörk Liverpool: Mohamed Salah (49. mín.), Emre Can (64. mín.) og Daniel Sturridge (90. mín.).

Maribor: Handanovic, Billong, Rajcevic, Suler, Milec, Pihler, Kabha, Viler, Hotic (Ahmedi 81. mín.), Mesanovic (Tavares 58. mín.) og Bohar (Bajde 85). Ónotaðir varamenn: Obradovic, Vrhovec, Vrsic og Palcic.

Gul spjöld:
Damjan Bohar og Aleksander Rajcevic.

Áhorfendur á Anfield Road: 47.957.

Maður leiksins: Alex Oxlade-Chamberlain. Spilaði sinn besta leik frá því hann kom frá Arsenal. Hann var alltaf á ferðinni, var grimmur og átti þátt í mörgum sóknum. 

Jürgen Klopp:
Þetta var ekki besti leikur leikur sem við höfum spilað. En fyrir leikinn vissum við að gætum mest haft áttastig eftir leikinn. Þrjú mörk, gott, héldum hreinu, gott, átta stig, fullkomið!


Fróðleikur

- Liverpool vann annan leikinn í röð í fyrsta sinn frá því í ágúst.

- Mohamed Salah skoraði tíunda mark sitt á leiktíðinni. 

- Emre Can og Daniel Sturridge skoruðu báðir í þriðja sinn. 

- Trent Alexander-Arnold lék sinn 20. leik. Hann hefur skorað tvö mörk. 
 
- Liverpool mistókst að skora úr víti annan leikinn í röð.

- Eftir að hafa skorað úr níu fyrstu vítum sínum hefur James Milner nú mistekist að skora í síðustu tveimur. 

- Síðustu þrjú víti Liverpool og fimm af síðustu sjö hafa farið til spillis. 

- Liverpool skoraði tíu mörk í tveimur leikjum á móti Maribor. Aðeins fjórum sinum áður hefur Liverpool skorað fleiri mörk á móti liði í tveimur leikjum. Mest 14 gegn Dundalk, 12 gegn Stromsgodset og 11 á móti KR og Osló.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.



 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan