| Heimir Eyvindarson

Stórtap gegn Manchester City

Liverpool heimsótti Manchester City á Etihad Stadium í fyrsta leik dagsins. Eftir að Sadio Mané var rekinn út af á 37. mínútu var aðeins spurning um hversu stór sigur heimamanna yrði. 

Klopp gerði þrjár breytingar á liðinu frá síðasta leik, Mignolet, Klavan og Alexander-Arnold komu inn fyrir Karius, Lovren og Gomes. Eina breytingin sem kom verulega á óvart var fjarvera Lovren á kostnað Klavan, enda held ég að enginn í veröldinni skilji hversvegna Ragnar Klavan er leikmaður Liverpool. Eins og gefið hafði verið út í gær var Coutinho ekki í hópnum.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti og fyrstu 20-25 mínúturnar var Liverpool hættulegra liðið. Sérstaklega átti City í vandræðum með Salah á hægri kantinum, en það bjargaði heimamönnum hversu slöpp síðasta aðgerð hjá Salah er yfirleitt. Hvort sem það er sending eða skot. 

Á 24. mínútu skoraði City síðan, gegn gangi leiksins. Þá sendi De Bruyne snilldarsendingu inn fyrir flata vörn Liverpool, framhjá steinsofandi Ragnar Klavan inná Aguero sem lék fyrirhafnarlítið á varnarlítinn Mignolet og renndi boltanum í netið. 1-0 fyrir heimamenn á Etihad. 

Liverpool hélt áfram að sækja og var betra liðið, Salah fékk þrusufæri en lét verja frá sér og liðið hélt áfram að fá slatta af hálffærum. 

Ragnar Klavan var í ruglinu á 33. mínútu, það endaði með því að Jesús komst í gott færi, en Mignolet bjargaði í horn. 

Á 37. mínútu kom svo vendipunkturinn. Matip sendi boltann innfyrir vörn City, Ederson í marki City hljóp út úr teignum og mætti Mané sem kom aðvífandi á mikilli ferð með fótinn ansi hátt uppi. Ederson lá óvígur eftir og var fluttur af velli á sjúkrabörum og Jon Moss dómari leiksins reif upp rauða spjaldið og sendi Mané út af. Kannski óþarflega harður dómur og alveg ljóst að leikurinn yrði afar erfiður fyrir okkar menn eftir þessa ákvörðun.

Staðan átti fljótlega eftir að versna enn frekar því í lok fyrri hálfleiksins skoraði Jesús annað mark City. Staðan 2-0 og leikurinn svo gott sem búinn.

Klopp setti Oxlade-Chamberlain inná fyrir Salah í hálfleik. Salah hafði í raun verið sprækasti maður liðsins í fyrri hálfleiknum, en eins og venjulega farið illa með færin. Líklega var Klopp einungis að hugsa um að spara hlaupagikkinn fyrir Sevilla leikinn í vikunni, en broddurinn í sóknarleik Liverpool var enginn það sem eftir lifði leiks. Klopp breytti leikskipulaginu líka á þann veg að Matip, Lovren og Can voru miðverðir í seinni hálfleik og Moreno og TAA færðu sig aðeins framar á vængjunum, eða reyndu það að minnsta kosti. Sú breyting skilaði engu, Can var í bölvuðum vandræðum í miðju varnarinnar og Matip og Klavan litu ekkert betur út við breytinguna.   

Á 53. mínútu skoraði Jesús þriðja mark City og slökkti vonir Liverpool endanlega. Skömmu síðar fór Jesus út af fyrir Leroy Sané sem gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk. Fjórða markið kom á 77. mínútu og 5. markið, sem var einkar glæsilegt, kom í uppbótartíma. 

Niðurstaðan á Etihad 5-0 sigur heimamanna í hundsvekkjandi leik.  

Liverpool: Mignolet, Alexander-Arnold, Matip, Klavan, Moreno, Henderson, Wijnaldum (Milner á 59. mín.), Can, Firmino (Solanke á 67. mín.), Mané, Salah (Oxlade-Chamberlain á 46. mín.). Ónotaðir varamenn: Karius, Sturridge, Gomes og Lovren.

Gul spjöld: Can, Alexander-Arnold

Rautt spjald: Mané á 37. mín. 

Manchester City: Ederson Morae (Bravo á 45. mín.), Walker, Otamendi (Mangala á 71. mín.), Danilo, Stones, Mendy, Silva, Fernandinho, De Bruyne, Aguero, Jesus (Sané á 57. mín.). Ónotaðir varamenn: Foden, Delph, Gundogan, Bernardo Silva 

Mörk Manchester City: Silva á 24. mín., Jesús á 45. og 53. mín., Sané á 77. og 90. mín.

Gul spjöld: Otamendi og Fernandinho

Maður leiksins: Það er eiginlega ekki hægt að velja mann leiksins eftir 5-0 tap, en Mignolet og Firmino voru líklega skástu menn Liverpool í dag. Mignolet verður ekki sakaður um mörkin og varði nokkrum sinnum mjög vel og Firmino barðist á fullu allan tímann, þótt það kæmi ekkert út úr því. Aðrir leikmenn áttu erfitt uppdráttar.

Jürgen Klopp: ,,Ég veit ekki hvað maður getur sagt eftir svona leik. Það var slysalegt hjá okkur að fá á okkur fyrsta markið, varnarvinnan og einbeitingin var ekki nógu góð, en við vorum samt að spila vel að mestu alveg þangað til Mané var sendur út af. Eftir það áttum við aldrei möguleika. Mér fannst þetta alls ekki rautt spjald, en svona er fótboltinn. Þetta var reynsla, ömurleg reynsla, en við verðum að vinna úr henni og koma sterkari til baka í næstu leikjum. Það er það eina sem við getum gert." 

Fróðleikur: 

-Þetta var stærsta tap Liverpool frá því að Jürgen Klopp tók við liðinu.

-Þetta var fyrsta tap Liverpool á útivelli í Úrvalsdeild síðan í fyrsta leik Leicester undir stjórn Craig Shakespeare, í febrúar.

-Þetta var í fyrsta sinn frá því að Klopp tók við Liverpool sem liðið tapar fyrsta leik eftir landsleikjahlé.

-Sergio Agüero er nú orðinn markahæsti leikmaður utan Evrópu í sögu Úrvalsdeildarinnar með 125 mörk. Dwight Yorke átti fyrra metið, 124 stykki.

-Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com


  

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan