| Grétar Magnússon

Sigur gegn Crystal Palace

2-0 sigur vannst á Crystal Palace í Hong Kong þegar liðin mættust í Premier League Asia Trophy.  Liverpool mætir Leicester City í úrslitaleik á laugardaginn kemur.

Jürgen Klopp stillti upp nokkuð sterku liði í byrjun en það var þannig skipað:  Mignolet, Alexander-Arnold, Matip, Gomez, Moreno, Henderson, Lallana, Woodburn, Salah, Firmino, Sturridge.

Liverpool var mun sterkara liðið í leiknum frá upphafi, voru meira með boltann og pressuðu hátt uppi á vellinum til að vinna boltann fljótt aftur.  Leikmenn liðsins sköpuðu sér þó engin dauðafæri í fyrri hálfleiknum en það var þó ánægjulegt að sjá að Mohamed Salah var óhræddur við að taka menn á og nýta hraða sinn.  Í eitt skiptið togaði Scott Dann, varnarmaður Palace í hann til að stöðva hann þegar Salah hafði stungið boltanum framhjá og ætlaði að taka á rás.

Palace fengu þó sín færi og Mignolet þurfti að vera vel á verði þegar Keshi Anderson fékk sendingu inná teiginn og þar var hann nánast óvaldaður.  Hann skaut að marki en Mignolet var eins og áður sagði með allt á hreinu.  Daniel Sturridge átti svo nokkur hálffæri í fyrri hálfleiknum en engum tókst að brjóta ísinn og staðan því markalaus þegar dómarinn flautaði til hálfleiks.

Klopp gerði breytingar á varnarlínunni strax í upphafi seinni hálfleiks, inn komu þeir Flanagan, Lovren, Klavan og Milner og þrem mínútum síðar komu þeir Wijnaldum, Coutinho, Origi og Grujic inná fyrir Sturridge, Firmino, Lallana og Woodburn.  Á 51. mínútu komu svo þeir Solanke og Kent inná fyrir Salah og Henderson.


Fyrsta mark leiksins leit svo dagsins ljós eftir klukkutíma leik.  Divock Origi fékk boltann fyrir utan teiginn og sendi hælspyrnu til hægri.  Dominic Solanke tók boltann, lék honum aðeins lengra til hægri og þrumaði svo að marki fyrir utan teig.  Boltinn hafnaði í fjær horninu, óverjandi fyrir markvörð Palace.  Virkilega vel gert hjá nýja sóknarmanninum og markinu var vel fagnað.

Liverpool menn voru áfram sterkari aðilinn og Grujic reyndi nokkrum sinnum skot að marki fyrir utan teig, í eitt skiptið var skotið virkilega fast og gott en því miður fór boltinn framhjá.  Á 79. mínútu sendi Milner inná teiginn frá vinstri kanti og þar kom Coutinho aðvífandi en skotið fór í varnarmann, boltinn hrökk til Divock Origi, hann átti auðvelt verk fyrir höndum og setti boltann í markið.

2-0 sigur staðreynd og okkar menn mæta eins og áður sagði Leicester City í úrslitaleik mótsins á laugardaginn kemur klukkan 12:30 að íslenskum tíma.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan