| Grétar Magnússon

Mohamed Salah er nýjasti leikmaður félagsins

Eftir frekar langa bið hefur nú opinberlega verið staðfest að kantmaðurinn Mohamed Salah er nú orðinn leikmaður félagsins en kaupin á honum frá Roma voru frágengin í dag.

Salah, sem er 25 ára gamall, skrifaði undir langtíma samning við félagið í dag eftir að hafa gengist undir læknisskoðun.  Þann 1. júlí verður hann svo formlega orðinn leikmaður félagsins.

Salah hafði þetta að segja í dag:  ,,Ég er mjög spenntur fyrir því að vera hér.  Ég er mjög glaður.  Ég mun gefa mig allan í þetta verkefni fyrir félagið og ég vil virkilega vinna til verðlauna hér."

,,Við erum með frábært lið og mjög góða leikmenn.  Ég horfði á leiki liðsins á síðasta tímabili og allir leikmenn gáfu 100% til að vinna sigur.

,,Það sjá allir að þjálfarinn (Jurgen Klopp) gefur allt sitt í verkefnið líka.  Ég vonast til þess að við allir saman getum unnið eitthvað fyrir félagið, stuðningsmennina og okkur sjálfa."

Salah kemur frá Roma eins og áður sagði en hann lék tvö tímabil með liðinu.  Alls lék hann 65 leiki og skoraði í þeim 29 mörk.

Hann lék áður með Chelsea eins og flestir vita en þangað var hann keyptur eftir mikinn áhuga frá Liverpool og margir voru svekktir að missa af enn einum leikmanninum.  Þar náði hann sér hinsvegar aldrei á strik og var hann lánaður til Fiorentina eftir eitt ár hjá Lundúnaliðinu.  Eftir gott tímabil þar fór hann svo til Roma þar sem hann hefur bætt sig mikið sem leikmaður.

Hann hefur spilað 52 landsleiki fyrir Egyptaland og skorað í þeim 29 mörk.

Salah verður í treyju númer 11 á næstu leiktíð sem þýðir að Roberto Firmino breytir um treyjunúmer en hann verður með númer 9 á bakinu á komandi tímabili.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan