| Sf. Gutt

Framkvæmdir á Anfield


Miklar framkvæmdir standa nú yfir á Anfield. Um leið og leiktíðinni lauk var hafist handa um að fjarlægja grasið af vellinum og verður nýtt ræktað og lagt eftir kúnstarinnar reglum. Um er að ræða nýja grasblöndu sem á að vera sérlega góð. Grasblandan er 97% náttúrulegt gras og 3% gervigras. Að auki verður tækifærið notað til að leggja nýjar hitalagnir og eins verður vökvunarkerfið endurnýjað.


Gamla grasið var komið til ára sinna en síðast var nýtt gras lagt sumarið 2001. Það hefur dregist að skipta um gras vegna byggingu nýju Aðalstúkunnar en nú var hægt að ráðast í þessa tímabæru framkvæmd. Gamla grasið var farið að láta á sjá og fannst leikmönnum að völlurinn gæti verið aðeins sléttari. Jürgen Klopp hafði orð á því eftir einn leikinn í vetur að boltinn hefði ekki rúllað nógu vel á grasinu og það hefði komið niður á spili liðsins. 


Nýja grasið verður kærkomið enda af nýjustu og bestu gerð. Nýja grasið verður mun þéttara og völlurinn ennþá sléttari en var. Eins er nýja undirlagið sérstaklega hannað til að vatn renni hraðar niður þegar völlurinn er vökvaður en slíkt er gert fyrir leiki og gjarnan í leikhléi. Eftir að nýja grasið verður komið ættu leikmenn Liverpool að geta spilað enn betur saman en síðustu árin. Að minnsta kosti verður ekki hægt að kvarta yfir því að grasið sé orðið gamalt og slitið!

Fyrir utan að skipta um gras verður sumarið notað í að laga aðstöðu áhorfenda og ljúka við ýmislegt í nýju stúkunni. Eins er verið að ljúka við nýja verslun við leikvanginn. Allt þetta á að vera tilbúið fyrir fyrsta heimaleikinn á nýju leiktíðinni.

   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan