| Sf. Gutt

Ákveðnu markmiði náð!

Liverpool náði ákveðnu markmiði í síðasta leik leiktíðarinnar. Eftir 3:0 sigur á Middlesbrough á Anfield Road er ljóst að Liverpool er komið í umspil um þátttökurétt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. 

Það var sól og blíða í Liverpool þegar leikmenn Liverpool og Middlesbrough gengu til leiks á troðfullum Anfield. Ljóst var að sigur myndi gefa Liverpool þriðja eða fjórða sætið. Um leið mátti greina spennu í loftinu. Roberto Firmino kom inn í liðið eftir að hafa misst af síðasta leik. Divock Origi fór á bekkinn. 

Leikmenn Liverpool, sem skörtuðu nýjum búningum, byrjuðu leikinn af krafti enda ekki annað í boði. Fyrsta færið kom eftir rúmar fimm mínútur. James Milner sendi fyrir frá vinstri. Boltinn fór yfir fjölda manna og endaði hjá Nathaniel Clyne en hann hitti ekki markið. Nokkur skot fylgdu á næstu mínútum en varnarmenn Boro voru duglegir og vörðust vel. Leikmenn Liverpool virkuðu taugaspenntir eftir því sem leið á. 

Á 20. mínútu átti Emre Can fallegt langskot sem sveif rétt framhjá vinklinum. Litlu síðar komust gestirnir í sína fyrstu sókn sem hægt var að kalla því nafni. Dejan Lovren var þá við að missa Patrick Bamford framhjá sér. Báðir féllu rétt við vítateigslínuna og leikmenn Boro vildu fá víti. Dómarinn dæmdi ekkert en sumir töldu að hann hefði átt að dæma víti og um leið hefði Dejan líklega fengið rautt spjald. Aðrir töldu dómarann hafa gert rétt í að dæma ekkert. 

Á 33. mínútu sneri Daniel Sturridge varnarmenn Boro af sér en skot hans fór framhjá markinu. Enn jókst spennan á Anfield því ekkert gekk að skapa góð færi hvað þá skora. Eins fréttist af því að bæði Manchester City og Arsenal væru komin í vinningsstöðu í sínum leikjum. 

En þegar komið var fram í þá mínútu sem dómarinn bætti við hálfleikinn kom það sem Rauðliðar höfðu beðið eftir frá því flautað var til leiks. Nathaniel sendi fram á Roberto Firmino sem sendi boltann laglega fram á Georginio Wijnaldum sem hafði tekið gott hlaup inn í vítateiginn. Skot hans var af fastari gerðinni og boltinn steinlá í markinu fyrir framan The Kop. Allt gekk af göflunum af fögnuði. Bæði stuðningsmenn, leikmenn og allir aðrir viðstaddir trylltust! Rauðliðum var létt og bros á öllum andlitum þegar dómarinn flautaði stuttu síðar til hálfleiks. Þetta mark kom sannarlega á fullkomnum tíma!

Markið hafði greinilega gefið leikmönnum Liverpool ró og aukið sjálfstraust og það skilaði sér í því að sigurinn var innsiglaður á skömmum tíma. Á 51. mínútu fékk Liverpool aukaspyrnu utan við vítateig Boro. Philippe Coutinho tók spyrnuna og sveigði boltann framhjá varnarveggnum og beinustu leið í markið. Mikill fögnuður tók við þegar netmöskvarnir þöndust út og ekki var hann minni fimm mínútum síðar. Boro fékk horn sem ekkert varð úr. Rauði herinn gerði gagnáhlaup sem virtist vera að renna út í sandinn þegar boltinn féll fyrir fætur Adam Lallana og hann læddi boltanum neðst í markhornið hægra megin. Nú var sigurinn innsiglaður!

Fátt merkilegt gerðist til leiksloka. Liverpool stjórnaði því sem fram fór. Lucas Leiva kom inn og var vel fagnað. Hugsanlega var þetta síðasti leikur hans. Sama má segja um Alberto Moreno sem líka kom inn á. Áhorfendur fögnuðu vel þegar flautað var til leiksloka og það var full ástæða til. Ákveðnu markmiði var náð!

Liverpool náði einu af fjórum efstu sætum deildarinnar eins og að var stefnt. Fjórða sætið þýðir reyndar að Liverpool þarf að fara í gegnum umspil í sumar til að eiga þess kost að spila í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Liðið hefur tekið miklum framförum frá lokum síðustu leiktíðar en ljóst er að framfararnir þurfa að verða enn meiri til að enn betri árangur geti náðst að ári. Liðið þarf að standa sig vel í bikarkeppnunum, komast áleiðis í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og síðast en ekki síst gera atlögu að Englandsmeistaratitlinum! Þetta gæti tekist með því að liðið taki meiri framförum. Lykilinn að því er sá að liðshópurinn verði stækkaður með nýjum góðum leikmönnum! Við stuðningsmenn Liverpool horfum með bjartsýni fram á veginn!



Liverpool: Mignolet; Clyne, Matip, Lovren, Milner (Moreno 86. mín.); Can, Wijnaldum, Coutinho, Lallana; Firmino (Leiva 79. mín.) og Sturridge (Origi 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Karius, Grujic, Klavan og Alexander-Arnold.

Mörk Liverpool:
Georginio Wijnaldum (45. mín.), Philippe Coutinho (51. min.) og Adam Lallana (56. mín.)

Middlesbrough: Guzan; Fabio (Ayala 73. mín.), Gibson, Chambers, Friend; Forshaw, Leadbitter, Clayton, Downing; Bamford og Gestede (Negredo 73. mín.). Ónotaðir varamenn: Konstantopoulos, Bernardo, Fischer, De Roon, Stuani.

Áhorfendur á Anfield Road:
 53.191.

Maður leiksins: Georginio Wijnaldum. Stórglæsilegt mark Hollendingsins braut ísinn og ruddi brautina að þessum gríðarlega mikilvæga sigri. Hann er búinn að spila vel á sinni fyrstu leiktíð hjá Liverpool og gæti átt eftir að verða enn betri. Hann hefur unnið mjög vel og átt þátt í mörgum mörkum. 


Jürgen Klopp: Við lögðum hart að okkur til að ná fyrsta markinu. Við það fengum við meira sjálfstraust. Svo skoruðum við beintúr aukaspyrnu og fengum enn meira sjálfstraust. Strákarnir spiluðu stórgóða knattspyrnu. Ég hlakka mikið til næsta keppnistímabils. Ég tel að við séum búnir að byggja afbragðsgóðan grunn. Ég er mjög ánægður með þetta allt. Þetta var yndislegur dagur.

Fróðleikur

- Liverpool endaði í fjórða sæti deildarinnar með 76 stig. Chelsea varð enskur meistari  í sjötta sinn með 93 stig. 

- Liverpool skoraði 78 mörk og fékk á sig 42.

- Þetta var 50. sigur Liverpool undir stjórn Jürgen Klopp. Hann hefur stýrt Liverpool í 99 leikjum.  

- Philippe Coutinho skoraði 14. mark sitt á leiktíðinni og varð þar með markakóngur félagsins. Hann og Sadio Mané skoruðu flest í deildinni eða 13.

- Georginio Wijnaldum skoraði sjötta mark sitt fyrir Liverpool. 

- Adam Lallana skoraði áttunda mark sitt á sparktíðinni. 

- Simon Mignolet lék sinn 180. leik með Liverpool. 

- Roberto Firmino spilaði 90. leik sinn. Hann hefur skorað 32 mörk. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér eru myndir frá heiðurshring leikmanna eftir leikinn. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan