| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Síðasti leikdagur í efstu deild á Englandi á þessari sparktíð er á morgun. Liverpool fær Middlesbrough í heimsókn og sigur færir Rauða hernum færi á að taka þátt í Meistaradeildinni á næsta keppnistímabili. Allt annað en sigur gefur Arsenal möguleika á að skjótast upp yfir Liverpool. Í lok hverrar leiktíðar má segja að röð liða sé sanngjörn. Stigataflan lýgur ekki er oft sagt en það yrði súrt í borti ef Liverpool næði ekki að halda sig í efstu fjórum sætunum því þar hefur liðið verið svo til frá fyrsta leik. En það má ekkert út af bera.


Middlesbrough kemur í heimsókn sem falllið. Liðið var ekki nógu sterkt til að halda sér í efstu deild. Það var oft góð barátta í liðinu en markaskorun gekk illa og það vantaði fleiri góða menn í liðshópinn. Liverpool vann góðan 0:3 sigur í fyrri leiknum og nú þarf að endurtaka leikinn. Það er ekki laust við að taugaspenna sé í mörgum stuðningsmanna Liverpool. Leikurinn við Boro er einmitt leikur þeirrar gerðar sem liðið hefur misstigið sig í. Veikari mótherji og Liverpool hefur of oft ekki náð sínu besta. Við bætist að Liverpool hefur ekki unnið í síðustu þremur leikjum sínum á Anfield Road. Síðasti heimasigur var gegn Everton í byrjun apríl og síðan hafa þrjú, ekki ýkja sterk, lið komið og haft stig á heim með sér. Nú dugar ekki annað en að sýna sitt besta!



Jürgen Klopp, hvetur stuðningsmenn Liverpool til að vera jákvæða, skapa kröftuga stemmningu og njóta leiksins. Pressan er öll á Liverpool og vonandi standa leikmenn liðsins undir nafni. Liðið lék mjög vel á móti West Ham United um síðustu helgi og vann stórsigur. Allt á að vera til staðar til að liðið geti haldið áfram þaðan sem frá var horfið í London. 


Á góðum degi getur Liverpool leikið á borð við það sem best gerist í deildinni. Jordan Henderson og Sadio Mané eru meiddir líkt og síðustu vikur og mánuði. Aðrir bestu menn liðsins eru til taks. Það er þó ekki alveg víst að Roberto Firmino verði leikfær en hann gat ekki spilað um síðustu helgi. Ekki er ólíklegt að Jürgen sendi sama lið til leiks og lék á móti West Ham. Ég trúi því og treysti að Liverpool endi leiktíðina eins vel og hægt er að ætlast til og sendi okkur stuðningsmennina glaða út í sumarið. Liverpool vinnur 3:0 í nýju búningunum og tryggir sæti meðal þeirra bestu. Daniel Sturridge skorar tvö mörk og Philippe Coutinho eitt! Rauði herinn má ekki bregðst í þessari lokaorrustu leiktíðarinnar!

Gleðilegt sumar!

Hér eru
myndir frá æfingu Liverpool á Melwood í vikunni.  

YNWA


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan