| Heimir Eyvindarson

Enn og aftur töpuð stig gegn minni spámönnum

Enn og aftur á Liverpool í vandræðum með liðin í neðri hluta deildarinnar. Nú var það Bournemouth sem náði í stig á Anfield.

Fyrir leikinn var mínútu þögn til minningar um Hillsborough harmleikinn, en þessi leikur er sá heimaleikur sem næstur er Hillsborough dagsetningunni að þessu sinni.

Liverpool byrjaði leikinn með miklum látum og strax á 1. mínútu var Firmino nálægt því að skora, eftir snarpa sókn. En það voru ekki liðnar nema rétt um 7 mínútur þegar gestirnir voru komnir yfir. Wijnaldum sendi þá blinda sendingu til baka, ætlaða Mignolet, en Benik Afobe stakk sér inn á milli og smellti boltanum í netið. Hörmuleg byrjun.

Næstu mínútur voru að mestu eign Liverpool og Origi og Wijnaldum áttu ágætis marktilraunir, en án árangurs. Á 40. mínútu bar þung sókn Liverpool loks árangur þegar Origi flikkaði boltanum áfram á Firmino sem sendi gullsendingu inn fyrir vörnina á landa sinn Coutinho. Afgreiðslan hjá Coutinho var sömuleiðis frábær og staðan jöfn á Anfield í hálfleik.

Liverpool menn komu gríðarlega grimmir til leiks eftir hlé og á 48. mínútu átti Clyne þvílíkt bylmingsskot að marki Bournemouth að áhorfendur á Anfield setti hljóða. Því miður fór boltinn í slána og út. Stórkostlegt skot.

Skömmu síðar átti Clyne frábæra sendingu fyrir markið en Origi náði ekki að stanga boltann inn. Flott tilþrif hjá Liverpool og Bournemouth sá ekki til sólar á þessum kafla.

Á 59. mínútu kom svo loks markið sem hafði legið í loftinu allan seinni hálfleikinn. Coutinho átti þá góða sendingu á Wijnaldum sem lagði boltann frábærlega fyrir sig og smellti honum svo á kollinn á Origi sem skallaði í netið framhjá Boruc í marki gestanna. Staðan 2-1 og yfirburðir Liverpool algerir. Undirbúningur Wijnaldum frábær og fór langt með að bæta upp fyrir skelfileg mistökin í upphafi leiks.
                              
Á 65. mínútu skipti Klopp um gír þegar hann tók Coutinho út af og setti Matip inn í staðinn. Liverpool fór í 3-5-2 og planið hjá Þjóðverjanum greinilega að þétta raðirnar og reyna að halda fengnum hlut. Það þarf að leita langt aftur í tímann til að finna Liverpool lið sem hefur ráðið vel við að halda fengnum hlut og svo fór að Bournemouth komst betur og betur inn í leikinn við þessa breytingu.

Á 87. mínútu jafnaði Joshua King síðan metin eftir klafs og klaufaskap í teignum. Kunnuglegt stef.

Lokatölur á Anfield 2-2 jafntefli. Verulega svekkjandi.

Til að allrar sanngirni sé gætt þá var það ekki fyrr en á u.þ.b. síðustu 10-15 mínútum leiksins sem gestirnir fóru að skapa einhverja alvöru hættu. Í viðtali við Klopp eftir leik kom fram að Coutinho hefði ælt í pásunni og hreinlega ekki getað spilað lengur vegna slappleika. Það er ferleg óheppni, en óneitanlega spyr maður sig samt hvort það var endilega skynsamlegt að svissa yfir í þriggja miðvarða kerfi og reyna að halda fengnum hlut. Þekkjandi Liverpool.

Maður spyr sig líka hvaða snillingur ákvað að Ragnar Klavan væri nógu góður til að spila fyrir Liverpool. Og í síðasta lagi spyr maður sig hvort þrír miðverðír í alvöru liði eigi ekki að ráða við að hreinsa teiginn eftir innkast frá Bournemouth??

En nú er nóg komið af tuði. YNWA.

Liverpool: Mignolet, Clyne, Klavan, Lovren, Milner, Can, Lucas, Wijnaldum, Coutinho (Matip á 65. mín.), Firmino og Origi. Ónotaðir varamenn: Karius, Moreno, Sturridge, Alexander-Arnold, Woodburn.

Mörk Liverpool: Coutinho á 40. mín. og Origi á 59. mín.

Gult spjald: Lucas Leiva 

Bournemouth: Boruc, Smith, Cook, Francis, Daniels, Ibe (Gradel), Wilshere, Pugh (Fraser), Arter, King og Afobe. Ónotaðir varamenn: Allsop, Mousset, Cook, Cargill

Mörk Bournemouth: Afobe á 7. mínútu og King á 87. mín.

Gult spjald: Fraser

Maður leiksins: Coutinho var besti maður Liverpool í dag en hann var ekki inná nema í rúman klukkutíma þannig að það er varla hægt að útnefna hann mann leiksins fyrir það. Ég var ánægður með Origi, hann var óvenju grimmur í að vinna boltann og halda honum og svo skoraði hann ekta framherja mark. Ég vel hann mann leiksins.

Jurgen Klopp: ,,Því miður náðum við ekki að klára þennan leik, en við verðum að reyna að horfa á björtu hliðarnar samt. Við erum með einu stigi meira en við vorum með fyrir leikinn. Það var vont að þurfa að taka Phil út af en við neyddumst til þess. Hann var veikur í hléinu og kastaði upp. Það er alltaf vont að þurfa að taka besta manninn af velli."

Fróðleikur:

-Coutinho hefur nú skorað 29 mörk í Úrvalsdeild og er orðinn jafn landa sínum Juninho yfir þá Brasilíumenn sem skorað hafa mest í deildinni. Juninho náði 29 mörkum fyrir Middlesborough í þremur skömmtum á árunum 1995-2004.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan