| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool tekur á móti Bournemouth á Anfield í Úrvalsdeildinni í kvöld. 25 stigum munar á liðunum í deildinni, sem gefur stuðningsmönnum Liverpool kannski ekki tilefni til bjartsýni.

Sorgarsaga þessa tímabils er kannski fyrst og fremst sú að Liverpool hefur ekki gengið nægilega vel gegn liðunum í neðri helmingi deildarinnar. Gömul saga og ný og verður ekki dvalið frekar við þá leiðinlegu staðreynd hér. Við þekkjum þetta öll allt of vel. 

Leikur liðanna í fyrri umferðinni var einn magnaðasti ósigur Liverpool á leiktíðinni, en þá missti liðið unnin leik (1-3) niður í 4-3 tap á síðasta korteri leiksins. Ferleg frammistaða. Tölum heldur ekki meira um það.

Bournemouth er fínt fótboltalið og fær risastórt prik fyrir að reyna svo að segja alltaf að spila fallegan bolta. Að vísu ber aðeins minna á tiki-taka töktunum núna en fyrir áramót, enda hefur Eddie Howe viðurkennt að liðið sé að reyna að gera hlutina á aðeins einfaldari hátt. Bournemouth byrjaði 2017 jafnvel enn verr en Liverpool og vann ekki leik fyrr en 11. mars, en er nú komið með fjóra leiki í röð án taps og hreint búr í tveimur. Liðið er rétt fyrir neðan miðja deild og ekki í teljandi fallhættu. Eins og er að minnsta kosti. 

En þá að okkar mönnum. Stóru fréttirnar í þessari viku eru náttúrlega þau ömurlegu tíðindi að Sadio Mané gæti verið úr leik fram á vor, eftir meiðslin sem hann hlaut í Everton leiknum. Þótt ekki sé kannski hægt að kenna Everton mönnum beint um meiðsli Mané þá getum við alveg prísað okkur sæla með að fleiri leikmenn hafi ekki farið út á sjúkrabörum á laugardaginn. Slík var harkan. Matip, Can og Lovren fengu t.d. allir að finna vel fyrir því. 

Það þarf ekkert að ræða það hversu mikilvægur Mané er fyrir Liverpool, það sást glögglega í janúar. Hann er líklega okkar mikilvægasti leikmaður, þegar allt er talið. Ekki síst í leikjum þar sem andstæðingarnir pakka í vörn og leyfa Liverpool að dingla sér með boltann. Það eru ansi margir slíkir andstæðingar á planinu til vors, þannig að í því ljósi verður fjarvera Mané enn skelfilegri tilhugsun.

Ljósið í myrkrinu er kannski að svo virðist sem Coutinho sé að ná sér á strik aftur. Hann fór á kostum gegn Everton og er vonandi kominn á beinu brautina aftur. Hann skoraði sitt 28. Úrvalsdeildarmark fyrir félagið á laugardaginn og vantar nú aðeins eitt mark til þess að verða markahæsti Brasilíumaðurinn í sögu ensku Úrvalsdeildarinnar, en Juninho sem lék með Middlesborough í þremur skömmtum á árunum 1995-2004 skoraði 29 mörk í deildinni.


Henderson og Lallana verða væntanlega báðir enn á meiðslalistanum í kvöld þannig að það er ekkert ólíklegt að Klopp gefi Lucas annan sjéns á miðjunni. Hann var frábær á móti Everton, en það er samt sem áður alls ekki spennandi tilhugsun að hafa Can, Lucas og Winjaldum saman á miðjunni. Býður ekki upp á hröðustu og skemmtilegustu sóknartilburði sem völ er á. Að vísu er Can aðeins tæpur eftir tæklingar laugardagsins, en verður vonandi klár. 

Klopp hefur svosem ekki marga aðra kosti, nema það að honum væri alveg trúandi til að nota Woodburn. Stewart bætir ekki miklu við liðið í svona leikjum þannig að hann verður sjálfsagt áfram á bekknum. Origi var sprækur á laugardaginn og hlýtur að ganga beint inn í byrjunarliðið í fjarveru Mané. Sturridge er farinn að æfa, en manni sýnist að Origi sé framar í röðinn en hann þessa dagana.

Það er vonandi að okkar menn nái að hefna ófaranna frá því í desember. Ég geri að sjálfsögðu kröfu um það, en er hóflega bjartsýnn. Ég spái 1-1 jafntefli.
YNWA!   





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan