| Sf. Gutt

Þeir gömlu unnu í Musterinu!


Sól, blíða, fullur völlur og sigur Liverpool!! Það var mikið um dýrðir á Anfield Road í dag þegar goðsagnalið Liverpool vann Real Madrid 4:3 í stórgóðum leik.

Það voru fræknir kappar sem gengu til leiks í vorsólinni fyrir fullum áhorfendastæðum. Samanlagður titlafjöldi félaganna og leikmanna þeirra var næstum óteljandi. Að minnsta kosti hefði tekið góðan tíma að reikna það allt út. Áður en flautað var til leiks var Ronnie Moran minnst með lófaklappi. Nokkrir af leikmönnum Liverpool voru þjálfaðir af honum. Ian Rush hafði valið sterkt lið til leiks og það var eftirvænting í loftinu. Reyndar vantaði einn leikmann í liðshóp Liverpool. Patrik átti að spila með Liverpool en hann meiddist á baki í gær þegar hann var að spila golf með nokkrum úr liðinu!

Liverpool byrjaði betur en Luis Figo fékk fyrsta færi leiksins en hann mokaði boltanum hátt yfir úr opnu færi. Real átti hættulegustu færin á upphafskafla leiksins en Jerzy Dudek, sem lék með báðum liðunum, varði tvívegis mjög vel. Góð framganga hans lagði grunn að því að Liverpool komst yfir um miðjan hálfleikinn. Steven Gerrard fékk boltann, lék inn í vítateiginn og gaf fyrir frá hægri á Michael Owen skallaði í markið á móti gamla liðinu sínu. Ekki var meira skorað í fyrri hálfleik en Liverpool var heilt yfir sterkari aðilinn.  
 
Liverpool bætti í stuttu eftir hlé. Robbie Fowler sendi góða sendingu út til hægri á Steven sem gaf fyrir. Boltinn fór þvert fyrir markið á John Aldridge sem skoraði óvaldaður af stuttu færi eins og hann gerði svo oft fyrr á árum. Á næstu mínútum fékk John tvö dauðafæri til að skora en aldrei þessu vant náði hann ekki að nýta marktækifæri. 

Þegar um hálftími var eftir átti Robbie bylmingsskot sem fór í þverslá og niður. Næsta mark kom nokkrum mínútum seinna. Steven slapp inn í vítateiginn eftir frábært spil og þar felldi Jerzy, sem var kominn í mark Real, hann. Áhorfendur á The Kop og í hinum stúkunum vildu að Steven tæki spyrnuna en fyrirliðinn tók það ekki í mál og tók boltann sjálfur! The Kop baulaði góðlátlega á Robbie en hann brosti á móti og skoraði af öryggi. Rétt á eftir var Steven næstum búinn að skora en þrumuskot hans lengst utan af velli small í þverslá! 


Þegar 12 mínútur voru eftir kom markið sem stuðningsmenn Liverpool voru búnir að bíða eftir. David Thompson sendi út á hægri kant á Jason McAteer. Hann sendi vel fyrir markið á Steven sem tók boltann á lofti yfir varnarmann og klippti hann svo glæsilega í markið áður en boltinn snerti jörðina. Stórglæsilegt mark! Allt sprakk af fögnuði og Steven naut augnabliksins út í ystu æsar. Það sama má segja um stuðningsmenn Liverpool!

Real komst loks á blað á síðustu tíu mínútunum. Fyrst skoraði Edwin Congo af stuttu færi eftir að Sander Westerveld hafði varði glæsilega en ekki haldið boltanum. Mínútu síðar skoraði Fernando Morientes á gamla heimavellinum sínum eftir hroðaleg mistök Phil Babb í vörninni. Hann hefði mátt skora oftar fyrir Liverpool á meðan hann spilaði á Englandi. Enn skoraði Real og nú var það Rubin de la Red sem skoraði með fallegum skalla. Sanngjarn sigur Liverpool var í höfn og gömlu mennirnir í báðum liðum fengu gott klapp í leikslok. Frábær skemmtun og góð tilþrif hjá mörgum.  


Liverpool: Dudek (Westerveld 46), Kvarme (Henchoz 46), Carragher, Agger (Kennedy 80), Riise (McAteer 46), Hamann (McAllister 61), Gerrard, McManaman (Babb 46 (Riise 87)), Garcia (Diao 72), Owen (Aldridge 46 (Smicer 60 (Rush 80))) og Fowler (Thompson 71).

Mörk Liverpool: Michael Owen, John Aldridge, Robbie Fowler, víti, og Steven Gerrard.

Real Madrid: Contreras (Dudek 46 (Sanchez 74)), Salgado (de la Red 82), Roberto Carlos (Amavisca 19), Pavon, Morientes, Figo (Llorente 67), Seedorf, de la Red (McManaman 46 (Congo 67)), Bortolini (Butragueno 74), Karembeu (Valesco 74) og Sanz.

Mörk Real Madrid: Edwin Congo, Fernando Morientes og Rubin de la Red.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.512.

Maður leiksins:
Steven Gerrard. Þessi magnaði leikmaður bar höfuð og herðar yfir aðra á Anfield. Hann lagði upp tvö mörk. fékk vítaspyrnu og skoraði glæsilegt mark sem reyndist sigurmark leiksins. Ekki í fyrsta skipti sem Steven Gerrard ræður úrslitum. 

Fróðleikur

- Liverpool vann 4:3 og hefndi þar með fyrir 4:2 tap fyrir Real í Madríd fyrir tveimur árum. Harry Kewell og Michael Owen skoruðu mörk Liverpool í þeim leik. 

- Þrír markaskorar Liverpool, Robbie Fowler, John Aldridge og Steven Gerrard, eru fæddir í Liverpool. 

- Robbie og Steven eru aldir upp hjá Liverpool og það sama má segja um fjórða markaskorarann Michael Owen. 

- Jerzy Dudek, Steve Mcmanaman, Michael Owen og Fernando Morientes léku bæði með Liverpool og Real Madrid á ferli sínum. Jerzy og Steve léku með báðum liðum í dag. 

- Alan Kennedy var elsti leikmaður Liverpooi dag. Hann er fæddur árið 1954.

- Hann skoraði sigurmark Liverpool 1:0 þegar þessi lið mættust í úrslitaleik um um Evrópubikarinn vorið 1981 í París.

- Uppselt var á Anfield Road!

- Allur ágóði leiksins rann til góðgerðarmála sem Liverpool Football Club styrkir. 

Hér er
hægt að horfa á brot úr leiknum á LFCTV.

Hér má
 lesa fréttir um leikinn á vefsíðu Liverpool Echo.

Hér eru
myndir úr leiknum af vefsíðu Daily Mail.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan