| Sf. Gutt

Ronnie Moran látinn!


Ronnie Moran, fyrrum leikmaður og þjálfari hjá Liverpool er látinn. Tilkynnt var um fráfall hans í morgun. Ferill Ronnie hjá Liverpool spannaði 49 ár. Fyrst sem leikmaður og seinna þjálfari og aðstoðarframkvæmdastjóri. 


Ronnie Moran fæddist í Liverpool 28. febrúar 1934. Hann byrjaði ungur að spila knattspyrnu og komst að hjá Liverpool 15 ára, árið 1949, eftir að póstburðarmaður hafði vakið athygli stjórnarformanns Liverpool á piltinum. Hann lék sinn fyrsta leik með aðalliði Liverpool í nóvember 1952. Hann lék sinn síðasta leik vorið 1965. Ronnie var um tíma fyrirliði Liverpool. Hann var annarraradeildarmeistari með Liverpool 1962 og Englandsmeistari 1964. Ronnie, sem lék oftast stöðu vinstri bakvarðar, lék 379 leiki með Liverpool og skoraði 17 mörk. 


Bill Shankly bauð Ronnie þjálfarastöðu þegar hann lagði skóna á hilluna. Hann varð einn af ,,Skóherbergisdrengjunum" og gegndi mörgum hlutverkum næstu áratugina. Hann þjálfaði varaliðið, var sjúkraþjálfari og síðar þjálfari aðalliðsins. Á ferli sínum sem þjálfari aðstoðaði hann sex framkvæmdastjóra. Þeir Bill Shankly, Bob Paisley, Joe Fagan, Kenny Dalglish, Graeme Souness og Roy Evans nutu góðra ráða og einstakra hæfileika hans í þjálfun. Ronnie lét af störfum hjá Liverpool sumarið 1998. 

Ronnie leysti tvívegis af sem framkvæmdastjóri. Fyrst á leiktíðinni 1990/91 þegar Kenny Dalglish sagði starfi sínu lausu. Aftur tók Ronnie við liðinu um tíma keppnistímabilið 1991/92 þegar Graeme Souness fór í hjartaaðgerð. Vorið 1992 leiddi Ronnie Liverpool út á Wembley fyrir úrslitaleikinn í FA bikarkeppninni. Það var þakklætisvottur frá félaginu en í leiknum sátu Ronnie og Graeme saman á varamannabekknum og stýrðu liðinu. Liverpool vann úrslitaleikinn við Sunderland 2:0. 


Ferill Ronnie Moran er einstakur og hann gegndi lykilhlutverki í velgengni Liverpool. Ef allt er talið átti Ronnie þátt í hátt í 50 titlum sem Liverpool vann á ferli hans sem leikmaður og þjálfari. Þar af 13 af þeim 18 Englandsmeistaratitlum sem Liverpool hefur unnið. Viðurnefni hans Herra Liverpool segir kannski mest um framlang Ronnie Moran til Liverpool Football Club. 

Liverpool klúbburinn á Íslandi vottar fjölskyldu Ronnie Moran samúð sína. 

Hér eru myndir af ferli Ronnie Moran af Liverpoolfc.com. 

Hér má horfa á myndband sem gert var til minningar um Ronnie. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan