| Grétar Magnússon

Fréttir af lánsmönnum

Það er kominn tími til að fjalla um gengi lánsmanna félagsins en sem fyrr eru margir hverjir að spila stór hlutverk með liðum sínum á Englandi sem og á meginlandi Evrópu.

Pedro Chirivella og Taiwo Awoniyi eru á láni í Hollandi með Go Ahead Eagles og NEC Nijmegen en liðin mættust um síðustu helgi þar sem Chirivella og félagar í Go Ahead Eagles unnu mikilvægan 2-1 sigur.  Awoniyi sat á bekknum allan tímann hjá sínu liði en Chirivella spilaði mjög vel á miðjunni og átti frábæra stoðsendingu í seinna marki liðsins.  Spánverjinn hefur því komið sterkur inn hjá liði sínu og er búinn að skora eitt mark og leggja upp eitt í þremur leikjum.  Go Ahead Eagles eru þó sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar en með þessum sigri komust þeir þó nær öðrum liðum og allt getur enn gerst í fallbaráttunni.  NEC sigla lygnan sjó um miðja deild en þurfa þó að passa sig á því að sogast ekki niður í fallbaráttuslaginn.

Þrír leikmenn Liverpool er nú á láni hjá úrvalsdeildarliðum en áður en janúarglugginn opnaði var Jon Flanagan sá eini sem spilaði í deildinni.  Þeir Lazar Markovic og Mamadou Sakho hafa nú bæst í hópinn en þeir Sakho og Flanagan voru ónotaðir varamenn með Burnley og Crystal Palace um helgina.  Markovic mátti ekki spila með Hull gegn Liverpool og ekki þarf að minnast neitt á úrslitin úr þeim leik en í síðustu viku spilaði Markovic mjög vel í markalausu jafntefli gegn Manchester United á Old Trafford.  Hann var óheppinn að skora ekki mark seint í leiknum þegar skot hans úr vítateignum fór í innanverða stöngina og boltinn skoppaði svo frá markinu.  Það er ekki ólíklegt að Markovic verði kominn aftur í byrjunarlið Hull í næsta leik sem er gegn Arsenal á útivelli um næstu helgi.

Í neðri deildum Englands áttu lánsmenn félagsins misjöfnu gengi að fagna.

Markvörðurinn Danny Ward heldur áfram vera fastamaður í marki Huddersfield sem sitja í fjórða sæti næst efstu deildar með 55 stig eftir 29 leiki.  Hann spilaði sem fyrr í markinu í tveimur góðum sigrum gegn keppinautum í efri hluta deildarinnar.  Fyrri leikurinn var gegn Brighton þar sem 3-1 sigur vannst en þar spilaði Ward reyndar ekki mjög vel og átti nokkra sök á jöfnunarmarki Brighton í leiknum.  Það kom þó ekki að sök því samherjar hans skoruðu næstu tvö mörk.  Huddersfield mættu svo Leeds í næsta leik og þar var Ward aftur líkur sjálfum sér í 2-1 sigri sem varð til þess að liðið komst uppfyrir Leeds í töflunni.

Ryan Kent og félagar hans í Barnsley spiluðu einnig tvo leiki í liðinni viku.  Sá fyrri var gegn Wolves og sá leikur tapaðist 3-1 þar sem Kent var skipt útaf í hálfleik vegna þess að rétt fyrir hálfleik misstu Barnsley mann af velli með rautt spjald og þjálfari liðsins gerði breytingar í hálfleik.  Um helgina mætti Barnsley svo Preston og fóru leikar þannig að hvorugu liðinu tókst að skora mark.  Kent var þó nærri því að leggja upp mark með nokkrum flottum sendingum fyrir markið af vinstri kanti og svo var hann nálægt því að skora sjálfur með góðu skoti.  Barnsley sitja í 9. sæti deildarinnar með 45 stig og eiga enn ágætan möguleika á því að blanda sér í baráttuna um sæti í umspilinu fyrir sæti í úrvalsdeildinni.

Í neðri deildum Englands áttu menn ekki eins góðu gengi að fagna.  Cameron Brannagan spilaði sinn fyrsta leik með Fleetwood þegar hann kom inná sem varamaður í seinni hálfleik í 1-1 jafntefli gegn Charlton.  Staðan var 1-0 fyrir Charlton þegar Brannagan kom til leiks og átti hann góða innkomu, var nálægt því að jafna metin en Fleetwood náði jöfnunarmarki í uppbótartíma og hafa þar með ekki tapað í síðustu 13 leikjum.  Liðið situr í 4. sæti deildarinnar með 51 stig og eru á góðri leið með að komast í umspil um sæti í næst efstu deild Englands.

Lloyd Jones spilar í sömu deild með Swindon og þar tapaði liðið 2-1 fyrir nágrönnum sínum í Oxford United.  Jones spilaði sem fyrr í miðri vörninni í miklum baráttuleik og þrátt fyrir tapið spilaði hann vel og hikaði ekki við að láta finna fyrir sér í baráttunni.  Swindon eru í fallbaráttu í deildinni, sitja einu sæti fyrir ofan fallsætin með 29 stig og þurfa að halda vel á spöðunum ætli liðið sér ekki að detta í fallsæti.

Markvörðurinn Ryan Fulton spilar svo með Chesterfield í League One og komst aftur í byrjunarliðið í miklum fallslag við Oldham.  Því miður fyrir hans menn tapaðist leikurinn 1-0 og liðið er nú í næst neðsta sæti deildarinnar með 26 stig en það er ekki langt í liðin fyrir ofan og t.d. eru Lloyd Jones og félagar með 29 stig þannig að baráttan er hörð.  Fulton spilaði þó vel í leiknum og gat lítið gert í markinu sem Chesterfield fékk á sig en þess á milli varði hann vel.

Að lokum má svo nefna að sóknarmaðurinn Jack Dunn spilaði sinn fyrsta leik með Tranmere Rovers en liðið freistar þess nú að komast aftur í ensku deildarkeppnina.  Liðið spilar í National League sem er efsta deild utandeildarinnar þar í landi og eru í fjórða sæti með 56 stig eftir 29 leiki.  Dunn kom inná sem varamaður í leik í FA Trophy bikarkeppninni gegn Chelmsford og urðu lokatölur 1-1.  Tranmere voru 1-0 undir þegar hann kom inná á vinstri kantinn og kom Dunn með aukinn kraft í leik þeirra og var ekki langt frá því að skora þegar þrumuskot hans smaug rétt framhjá stönginni.  En eins og áður sagði náði Tranmere að jafna leikinn og þar við sat.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan