| Sf. Gutt

Fyrsta tapið frá í ágúst

Eftir 15 leiki í röð án taps laut Liverpool í gras fyrir Bournemouth í dag. Liverpool henti frá sér unnum leik því liðið leiddi tvívegis með tveimur mörkum en heimamenn gáfust ekki upp og unnu 4:3 með marki í viðbótartíma.

Jürgen Klopp breytti liðinu sínu aftur eftir Deildarbikarsigurinn á Leeds á þriðjudagskvöldið og það eina sem kom kannski á óvart var að Lucas Leiva skyldi halda stöðu sinni sem miðvörður en það kom til vegna meiðsla Joel Matip. Ragnar Klavan hefði líka komið til greina en Lucas varð fyrir valinu. Fyrrum leikmenn Liverpool Jordan Ibe og Brad Smith voru á bekknum hjá Kirsuberjaliðinu. 

Liverpool tók öll völd frá fyrstu mínútu og spilaði mjög vel á köflum. Á 10. mínútu hefði Divock Origi átt að skora úr dauðafæri eftir frábæra fyrirgjöf Nathaniel Clyne en hann náði ekki að hitta boltann almennilega fyrir opnu marki. Tíu mínútum seinna lá boltinn í marki heimamanna. Emre Can sendi langa sendingu fram sem Sadio Mané elti. Hann var fljótari en varnarmaður og pikkaði boltanum fram hjá Artur Boruc í markinu.

Liverpool fór á kostum og þremur mínútum seinna kom annað mark. Jordan Henderson sendi frábæra sendingu fram á Divock. Artur kom út á móti honum út fyrir vítateginn en Divock lék auðveldlega á hann og sendi boltann svo í autt markið úr þröngri stöðu og af nokkru færi. Mjög góð afgreiðsla. Liverpool hafði algjöra yfirburði fram að leikhléinu.

Staðan var vænleg þegar síðari hálfleikur hófst en það breyttist eftr 11 mínútur. Dejan Lovren gerði mistök í vörninni og í kjölfarið braut James Milner klaufalega á Ryan Fraser sem var nýkominn til leiks sem varamaður. Callum Wilson skoraði auðveldlega úr vítinu. Heimamenn færðust í aukana en Liverpool svaraði á 64. mínútu. Sadio tók góða rispu hægra megin og renndi boltanum svo út á Emre Can sem þrumaði honum í markið frá vítateignum. Stórglæsilegt skot hjá Þjóðverjanum. 

Þetta mark hefði átt að gera út um leikinn en heimamenn neituðu að gefast upp. Á 70. mínútu sendi Jordan Ibe, sem kom inn á í hálfleik, fyrir frá vinstri á Ryan sem fékk boltann frír í teignum. Hann skaut viðstöðulaust að marki en Loris Karius náði að verja. Þremur mínútum seinna munaði sentimeter eða svo að James Milner innsiglaði sigurinn endanlega. Hann sendi fyrir úr horni, Artur greip boltann en fór með hann svo til inn fyrir marklínuna. Kostulegt hjá Pólverjanum en marklínuskynjarinn sýndi að boltann fór ekki allur inn. 

Enn liðu þrjár mínútur og þá komst Bournemouth aftur inn í leikinn. Þeir brutu sókn Liverpool á bak aftur, ruku fram og Ryan skoraði úr miðjum vítateignum. Þessi ungi varamaður var sannarlega búinn að láta til sín taka. Nú fór að bera á óöryggi í liði Liverpool og á 78. mínútu kom sending inn í vítateiginn frá hægri. Varnarmaðurinn Steve Cook fékk boltann, tók hann laglega niður og þrumaði í markið. Rétt á eftir komst varmaðurinn Benik Afobe í færi en Loris náði að verja. Vörn Liverpool var alveg hrunin og allt í voða.

Á síðustu mínútunni fékk Divock boltann eftir horn, náði að snúa sér við í teignum en skot hans fór rétt yfir. Komið var fram í viðbótartíma og stuðningsmenn Liverpool mjög óánægðir eftir að búið var að missa unninn leik niður í sem virtist ætla að verða jafntefli. En það átt eftir að versna. Steve skaut föstu skoti utan vítateigs. Loris hélt ekki boltanum sem fór þó beint á hann og Nathan Ake tróð knettinum inn fyrir marklínuna. Mikil mistök hjá Þjóðverjanum í markinu og þó hann hafi ekki endilega átt að geta gert mikið við hinum mörkunum þá átti hann alla sök á þessu. Heimamenn trylltust og höfðu öll efni til! Liðsfélagar Nathan í Chelsea, en hann er þaðan í láni, fögnuðu örugglega ekki síður fyrir framan sjónvarpið heima. 

Liverpool henti frá sér leik sem hefði átt að vinnast og það auðveldlega. Tvívegis hafði liðið tvö mörk yfir en allt kom fyrir ekki. Mikið óöryggi kom í liðið eftir að það fékk mark á sig og ætli liðið að vera í toppbaráttunni áfram ganga svona vinnubrögð ekki!

Bournemouth: Boruc, Francis, Cook, Ake, Smith, Gosling (Afobe 74. mín.), Arter, King (Ibe 45. mín.), Wilshere, Stanislas (Fraser 55. mín.) og Wilson. Ónotaðir varamenn: Federici, Pugh, Smith og Mings.

Mörk Bournemouth:
Callum Wilson, víti, (56. mín.), Ryan Fraser (76. mín.), Steve Cook (80. mín.) og Nathan Ake (90. mín.)

Gul spjöld: Jack Wilshere og Ryan Fraser.

Liverpool: Karius, Clyne, Leiva, Lovren, Milner, Henderson, Can, Wijnaldum, Firmino, Mane (Lallana 69. mín.) og Origi. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Klavan, Woodburn, Moreno, Alexander-Arnold og Ejaria.

Mörk Liverpool: Sadio Mané (20. mín.), Divock Origi (23. mín.) og Emre Can (64. mín.).

Gul spjöld: Jordan Henderson og Emre Can.

Áhorfendur á Vitality leikvanginum: 11.183.

Maður leiksins: Emre Can. Þjóðverjinn var öflugur á miðjunni. Hann lagði upp mark og skorað sjálfur eitt glæsilegt. Það hefði átt að tryggja Liverpool sigur.

Jürgen Klopp: Við opnuðum dyrnar fyrir þeim, þeir ruddust í gegn um þær, skoruðu glæsileg mörk og unnu verðskuldaðan sigur. Tilfinningin er ekki góð núna en stundum þarf maður svona. Auðvitað getur þetta hjálpað okkur. Það er enginn vegur án kletta og steina.


Fróðleikur

- Þetta var fyrsti sigur Bournemouth á Liverpool í sögunni. 

- Liverpool tapaði sínum fyrsta leik frá því í ágúst á móti Burnley. 

- Frá leiknum við Burnley hafði Liverpool spilað 15 leiki án taps. 

- Sadio Mané skoraði skoraði sjöunda mark sitt á leiktíðinni.

- Divock Origi skoraði fimmta mark sitt. 

- Emre Can skoraði í þriðja sinn. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.



 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan