| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin


Liverpool fær Tony Pulis og hans menn í WBA í heimsókn seinnipartinn í dag. Það verður fróðlegt að sjá hvort okkar menn ná að kveða niður Pulis drauginn.

Það er í raun alveg sjúklega leiðinlegt og pirrandi að rýna í tölfræði þegar kemur að Tony Pulis. Vissulega er Jose Mourinho góður að leggja í stæði þegar honum dettur það í hug, en Pulis virðist detta fátt annað í hug. Hann leggur upp með þéttan varnarleik og skyndisóknir með háum boltum fram völlinn í hverjum einasta leik. Og það hefur virkað vel á móti Liverpool. Því miður.

Frá því að fyrst sást til Tony Pulis í Úrvalsdeild, þegar Stoke komst alla leið þangað 2008, hefur Liverpool 14 sinnum mætt liðum undir stjórn Weilsverjans. Af þessum 14 leikjum hafa 9 endað með jafntefli, yfirleitt eftir drepleiðinlegan leik. Það er magnað. Að vísu hafa lið undir stjórn Pulis ekki enn náð að leggja Liverpool að velli á Anfield, en WBA hefur þó náð tveimur sigrum þar á síðustu árum, í bæði skiptin undir stjórn fyrrum starfsmanna Liverpool; Í apríl 2012 undir stjórn Roy Hodgsons og í febrúar 2013 undir stjórn Steve Clarke. Alls hafa liðin mæst 10 sinnum á Anfield frá stofnun Úrvalsdeildar og Liverpool hefur unnið 7 sinnum, einu sinni hefur orðið jafntefli og tvisvar hefur WBA sigrað.

En aftur að Tony Pulis og eitruðu sambandi hans og Liverpool. Síðan Pulis sást fyrst í Úrvalsdeild árið 2008 er vinningshlutfall Liverpool í deildinni 49%. Í leikjum gegn liðum Pulis er hlutfallið hinsvegar einungis 14%. Liverpool hefur á sama tímabili gert jafntefli í 25% leikja sinna, en gegn liðum undir stjórn Pulis rýkur jafnteflishlutfallið upp í heil 64%! Þið sem ætlið að tippa á leikinn ættuð því ekki að vera í miklum vandræðum.

Klopp og Pulis mættust tvisvar sinnum á síðustu leiktíð og báðir leikirnir enduðu með jafntefli, sem kemur ekki á óvart. 2-2 á Anfield í desember og 1-1 á The Hawthorns í lokaleik tímabilsins. Hvorugur leikurinn mikil skemmtun.

En að okkar mönnum: Liverpool er á góðu skriði þessa dagana. Liðið er ósigrað í sex deildarleikjum í röð og ef einungis er litið til Anfield þá er liðið taplaust í 11 leikjum í röð (sex sigrar og fimm jafntefli). Undir stjórn Klopp hefur Liverpool leikið 18 deildarleiki á Anfield og náð að skora í öllum, nema tveimur leiðinlegum leikjum gegn Manchester United.

Eftir 0-0 leikinn við United á mánudaginn er ekki við því að búast að leikmenn Liverpool séu fullir tilhlökkunar að mæta öðrum rútubílstjóra á Anfield, en það ætti samt ekki að vera ávísun á vonleysi og andleysi eins og stundum hefur einkennt liðið. Það sást nefnilega ágætlega í síðari hálfleik á mánudaginn að ef liðið spilar af fullum krafti þá er alltaf hægt að finna smugur. Best væri auðvitað ef liðið næði nú að spila af fullum krafti heilan leik en ekki bara í 45 mínútur.

Það er óvenju lítið að frétta af meiðslalistanum hjá Liverpool, Wijnaldum er ennþá eitthvað tæpur og jafnvel Milner líka. Að öðru leyti eru engir aðalliðsmenn meiddir.

Klopp mun örugglega stilla upp svipuðu liði og í undanförnum leikjum. Karius verður í markinu og eina spurningamerkið í vörninni er hvort Milner verður leikfær. Henderson á víst sæti á miðjunni eftir góða frammistöðu að undanförnu og Adam Lallana hlýtur að byrja leikinn. Ég er ekki eins viss um að Can byrji, en þótt hann hafi ekki leikið sinn besta leik gegn Man.U á mánudag þá vitum við auðvitað öll hvað í honum býr. Mané og Firmino halda væntanlega sínum sætum og ég reikna líka frekar með því að Sturridge byrji inná þótt hann hafi verið slakur á mánudaginn. Klopp hefur verið duglegur að mæra hann í vikunni og er greinilega að reyna að berja hann í gang.  

Sturridge getur státað af þeirri ágætu tölfræði að hafa skorað í öllum leikjum sem hann hefur leikið gegn WBA í deildinni, en þeir eru reyndar bara tveir. Hann lék síðast gegn WBA í febrúar 2014. Hann hefur aftur á móti skorað vandræðalega lítið að undanförnu, en nú eru liðnar 616 mínútur frá því hann skoraði síðast mark í Úrvalsdeild (gegn Newcastle í apríl s.l.).

Sturridge hefur legið undir töluverðri gagnrýni frá stuðningsmönnum Liverpool upp á síðkastið og margir hafa gengið svo langt að segja að hann eigi ekki heima í Liverpool liði dagsins í dag. Ég verð að lýsa mig ósammála því, Sturridge er toppstriker sem hlýtur að minnsta kosti að vera gott að geta gripið til. Við vitum það öll að hann er magnaður skorari þegar hann hrekkur í gang. Vonandi verður það sem allra fyrst. Helst í dag.

Ég veit að allar líkur benda til þess að Tony Pulis landi enn einu jafnteflinu gegn Liverpool í dag, en í þrjósku minni og bjánalegri bjartsýni neita ég að trúa því að það verði niðurstaðan. Ég ætla að spá 3-0 sigri í dag, með mörkum frá Matip, Clyne og Sturridge.

YNWA!



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan