| Grétar Magnússon

Átta breytingar á leikjum í desember og janúar

Tilkynnt var í dag um breytingar á leikjum liðsins í desember og janúar.

Fyrst ber að nefna heimsókn til Bournemouth fyrstu helgina í desember en sá leikur hefur verið færður til sunnudagsins 4. desember kl. 13:30.

Heimaleikur við West Ham United hefur einnig verið fluttur til sunnudags, nánar tiltekið þann 11. desember og verður flautað til leiks kl. 16:30.

Nágrannaslagurinn við Everton er eitthvað sem margir bíða eftir á hverju tímabili og mætast liðin á heimavelli Everton mánudaginn 19. desember kl. 20:00.

Stoke City heimsækja Anfield á milli jóla og nýárs og átti sá leikur upphaflega að fara fram 2. í jólum en hefur nú verið færður til 27. desember sem er þriðjudagur og verður flautað til leiks kl. 17:15.

Áður en nýja árið gengur í garð er svo stórleikur við Manchester City á Anfield, sá leikur verður á Gamlársdag eins og upphaflega var ákveðið en verður síðasti leikur ársins í úrvalsdeildinni.  Leikurinn hefst kl. 17:30.

Í janúarmánuði eru svo þrjár breytingar á leikjum liðsins.  Annar stórleikur við lið frá Manchester er á dagskrá, að þessu sinni gegn Manchester United á Old Trafford og hefur sá leikur verið færður til sunnudagsins 15. janúar þar sem fyrsta flaut dómarans heyrist kl. 16:00.

Laugardaginn 21. janúar koma Swansea í heimsókn á Anfield og hefur sá leikur verið færður fram til kl. 12:30 þann dag og loks ber svo að nefna heimaleik við Chelsea sem verður þriðjudaginn 31. janúar kl. 20:00 en upphaflega átti sá leikur að vera þann 1. febrúar.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan