| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Swansea City v. Liverpool

Eftir stórsigur á Hull City á Anfield um síðustu helgi er komið að ferðalagi til Wales þar sem snúinn leikur bíður. Swansea er neðarlega í deildinni og öll spjöt standa á framkvæmdastjóranum. Á slíkum tímum má búast við að menn þjappi sér saman og reyni allt til þess að snúa blaðinu við. 


Liverpool þarf líka að snúa blaðinu við því liðið hefur ekki áður unnið fjóra leiki í röð frá því Jürgen Klopp tók við liðinu. Blað af þessari gerð þarf Liverpool að brjóta ef liðið ætlar sér að berjast um allra efstu sætin í deildinni. Í síðustu leikjum hefur liðið sannarlega sýnt að á góðum degi getur liðið leikið geysilega vel. Sóknin er beinskeytt og margir leikmenn hafa verið ógnandi uppi við mörk andstæðinganna. Vörnin þarf á hinn bóginn að batna og enn hefur ekki tekist að halda hreinu í deildarleik.


Kannski er liður í því að bæta varnarleikinn að skipta um markvörð. Loris Karius hefur verið í markinu í síðustu tveimur leikjum og Simon Mignolet hefur þurft að sætta sig við bekkjarsetu. Jürgen virðist hafa ákveðið að Þjóðverjinn sé betri kostur en Belginn. Það kom svo sem ekki á óvart að Loris fengi tækifæri því hann var ekki keyptur upp á punt. Tíminn leiðir í ljós hvort Loris reynist betur en Simon sem reyndar hafði leikið býsna vel fram að því að hann var settur á bekkinn.

 

Landsleikjahlé er framundan og það er mikill munur á því að vinna síðasta leik fyrir svona hlé í stað þess að fara í það með tap á bakinu. Ég spái því að leikmenn og stuðningsmenn Liverpool fari glaðir heim frá Wales. Liverpool vinnur 0:2 með mörkum Jordan Henderson og Philippe Coutinho.

YNWA

  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan