| Heimir Eyvindarson

Ekki skorað meira í 100 ár


Liverpool liðið hefur skorað 24 mörk í 8 leikjum á þessari leiktíð og það þarf að fara aftur til leiktíðarinnar 1895-1896 til að finna sambærilegar tölur. 10 leikmenn hafa skipt mörkunum á milli sín.

Samkvæmt Opta Stats hefur ekkert lið í deildinni skorað jafn mikið af mörkum og Liverpool á því tæpa ári sem liðið er frá því að Jürgen Klopp tók við liðinu. 


Sé litið á stigasöfnun í Úrvalsdeild þá er athyglisvert að sjá að Liverpool hefur aðeins tvisvar áður tekið fleiri stig eftir sex umferðir, það var leiktíðirnar 1996-1997 og 2008-2009. Leiktíðina 2013-2014, þegar við unnum næstum því, voru stigin jafn mörg eftir sex umferðir og núna. Liðið var í toppbaráttu allar þessar leiktíðir, þannig að byrjunin á þessu tímabili lofar góðu.

1996-1997 hafnaði liðið í 4. sæti, 7 stigum eftir Man.U, með jafn mörg stig og liðin í 2. og 3. sæti, en lakari markamun. Á þessum tíma spilaði Liverpool fáránlega skemmtilegan sóknarbolta en vörnin var oft í ruglinu. Reyndar sérstaklega markvörðurinn David James. Mark Wright sem var miðvörður Liverpool og enska landsliðsins á þessum árum lýsti vonbrigðum sínum með leiktíðina einhvernveginn á þá leið að það hefði verið hreint með ólíkindum að Liverpool skyldi ekki vinna deildina. ,,Við vorum með besta liðið, betra en Manchester United, en við gerðum ótrúleg mistök inn á milli. David James átti nokkur skrautleg og þau komu yfirleitt eftir að hann hafði ekki haft neitt að gera allan leikinn og ákvað að hann þyrfti að fara að gera eitthvað, þá fengum við iðulega á okkur mark!" 

Leiktíðina 2008-2009 hafnaði liðið í 2. sæti, en var samt eiginlega aldrei í alvöru toppbaráttu. Liðið var alltaf skrefinu á eftir Manchester United og endaði að lokum fjórum stigum á eftir United með 86 stig, sem þrátt fyrir að vera mesta stigasöfnun liðsins í Úrvalsdeild dugði ekki til að vinna þann stóra. Markaskorun á þessari leiktíð var ekkert sérstaklega mikil. Gerrard varð markahæstur með 16 mörk í 31 leik og Torres kom næstur með 14 mörk í 24 leikjum. 
Leiktíðina 2013-2014 þarf vart að rifja upp, við erum enn að komast yfir þau vonbrigði. Liðið spilaði, rétt eins og 1996-1997, ótrúlega skemmtilegan fótbolta og skoraði mikið af mörkum. Hefur reyndar aldrei skorað jafn mikið í Úrvalsdeildinni, alls 101 mark. Luis Suarez varð markakóngur í deildinni með 31 mark og Daniel Sturridge gerði 21. Vörnin og markvörðurinn voru aftur á móti ekki alveg í sama klassa og sóknin - og því fór sem fór.

Liverpool hefur í raun byrjað framar vonum á þessari leiktíð. Liðið hefur verið meira og minna frábært í öllum leikjum, ef við reynum að gleyma Burnley, og það er komið miklu betra jafnvægi á leik liðsins. Jürgen Klopp virðist vera að takast að búa til sterka liðsheild sem virkar.

Stigasöfnun liðsins það sem af er þessari leiktíð er 2,16 stig í leik en var 1,57 á þeirri síðustu. 2,16 stig að meðaltali í leik hefðu tryggt Liverpool sigur í deildinni í vor, en sú leiktíð er líklega ekki mjög marktæk hvað stigasöfnun varðar.

Þess má að lokum geta að Opta Stats bendir á að frá haustinu 2015 hefur enginn leikmaður í deildinni skorað fleiri mörk með langskotum utan teigs en Philippe okkar Coutinho. Hann hefur skorað sex fyrir utan, hvert öðru glæsilegra. Það er gott að hafa slíkt vopn í búrinu.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan