| Grétar Magnússon

Fréttir af lánsmönnum

Sem fyrr voru lánsmenn félagsins að leika með sínum liðum í neðri deildum Englands og annarsstaðar í Evrópu.  Hér má lesa hvernig þeim vegnaði með liðum sínum.

Það er þétt spilað í upphafi móts í neðri deildunum og margir lánsmenn léku tvo leiki með liðum sínum í síðustu viku.  Fyrst ber að nefna markvörðinn Adam Bogdan sem leikur með Wigan í næst efstu deild Englands.

Wigan gerði jafntefli við Birmingham og Bodgan kom heldur betur við sögu í þeim leik.  Hann fékk dæmda á sig vítaspyrnu þegar hann braut á leikmanni Birmingham í úthlaupi en gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.  Það fór hinsvegar ekki betur en svo að úr frákastinu skoraði David Davis og kom Birmingham yfir.  Wigan menn jöfnuðu svo metin í blálokin og niðurstaðan 1-1 jafntefli.  Bogdan hélt svo sæti sínu í leik gegn Nottingham Forest um síðustu helgi og þar varði hann aftur vítaspyrnu en Wigan tapaði engu að síður 4-3.  Hann hafði nóg að gera í markinu í þessum leik og hefði mátt gera betur í tveimur mörkum sem Wigan fékk á sig.

Ryan Kent lék með Barnsley í sömu deild gegn Q.P.R. á þriðjudagskvöldið í síðustu viku og var maður leiksins í 3-2 sigri þeirra.  Kent skoraði ekki mark eða átti ekki stoðsendingu en stóð sig mjög vel á hægri kanti.  Fyrsta mark Barnsley kom eftir hornspyrnu eftir skot frá Kent sem var varið.  Hann var svo aftur á ferðinni um síðustu helgi og spilaði í 67 mínútur gegn Danny Ward og félögum í Huddersfield.  Þar hefði Kent svo sannarlega átt að skora en hann skaut yfir úr dauðafæri á fjærstöng og lét svo Ward verja frá sér þegar hann var kominn einn í gegn.  Leikurinn endaði með 2-1 sigri Huddersfield.

Danny Ward og félagar náðu semsagt að vinna sigur á Barnsley um síðustu helgi en í miðri viku léku þeir við Aston Villa og endaði leikurinn með 1-1 jafntefli.  Ward hélt sínum mönnum inní leiknum með fínum vörslum og þeir stálu svo stigi í lokin með jöfnunarmarki.  Eins og áður sagði vannst svo sigur á Barnsley en í markinu sem þeir skoruðu hefði Ward átt að gera betur er langt innkast kom inná teig, Ward gerði sig líklegan til að hreinsa frá en náði ekki til boltans og eftirleikurinn var því auðveldur fyrir markaskorara Barnsley.  En aftur náðu Huddersfield að skora mark á lokamínútunum og tryggja sér sigur í þetta skiptið.  Liðið er nú í efsta sæti deildarinnar með 10 stig eftir 4 leiki.

Í League One sem telst vera þriðja efsta deild Englands spilaði varnarmaðurinn Lloyd Jones ekki í miðri viku vegna meiðsla en um helgina mætti hann til leiks með Swindon Town gegn Port Vale.  Jones var valinn maður leiksins í markalausu jafntefli en hann var gríðarlega öflugur í sínum varnarleik og kom meðal annars í veg fyrir mark á lokamínútum leiksins með frábærri tæklingu.  Swindon sitja í 9. sæti deildarinnar með 7 stig eftir fjóra leiki.

Markvörðurinn Ryan Fulton spilar í sömu deild og Jones og hann var á ferðinni með Chesterfield í tveimur leikjum.  Á þriðjudagskvöldið vannst 2-0 sigur á Walsall 2-0 þar sem Fulton hafði frekar lítið að gera í markinu.  Á laugardaginn spilaði hann svo gegn Shrewsbury í 2-1 tapi en hann gat lítið gert í mörkunum sem hann fékk á sig, bæði voru með skalla af mjög stuttu færi.

Í deildinni þar fyrir neðan eða League Two spilaði sóknarmaðurinn Jack Dunn með Morecambe í tveimur sigrum en honum tókst þó ekki að skora í þessum leikjum.  Hann spilaði í klukkutíma í 2-0 sigri á Portsmouth en átti stóran þátt í öðru marki liðs síns í þessum leik.  Hann byrjaði svo inná í 1-0 sigri á Yeovil og spilaði í 76. mínútur.  Hann var nálægt því að skora í leiknum og lagði upp sigurmarkið sem kom liðinu á toppinn í deildinni.

Jon Flanagan var svo eini lánsmaður félagsins sem ekki spilaði með liði sínu á Englandi um helgina en það kom svosem ekki á óvart þar sem Burnley mættu þar Liverpool og þar mátti hann ekki spila.  Við þurfum ekkert að rifja upp hvernig sá leikur fór.

Að lokum er svo rétt að nefna þá sem spila á meginlandi Evrópu en Taiwo Awoniyi var ekki í leikmannahópi NEC Nijmegen sem sigruðu Heerenveen á laugardaginn var 2-1 og Brasilíumaðurinn Allan Rodrigues sat á varamannabekknum allan tímann í þýsku bikarkeppninni þegar Hertha Berlin vann Jahn Regensburg í vítaspyrnukeppni.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan