| Sf. Gutt

Af Ólympíuleikunum


Knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna lauk í gærkvöldi. Heimamenn glöddust mjög þegar liðið þeirra vann sögulegan sigur. Brasilía mætti Þýskalandi í úrslitaleiknum á Maracana leikvanginum í Ríó. Neymar kom Brasilíumönnum yfir með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu í fyrri hálfleik. Max Mayer jafnaði eftir hlé úr vítateignum eftir góða fyrirgjöf frá hægri.

Eftir framlengingu var enn jafnt 1:1 og því varð að útkljá viðureignina með vítaspyrnukeppni. Fyrstu átta spyrnurnar fóru í markið en markvörður Brasilíumanna varði fimmtu spyrnu Þjóðverja. Neymar færði Brasilímönnum gullið með því að skora af miklu öryggi.

Fögnuður Brasilíumanna, þegar sigurinn var í höfn, var gríðarlegur enda var þetta í fyrsta sinn sem þeir vinna gullverðlaun í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna. Eins fannst sumum þar í landi sigurinn svolítil hefnd fyrir þegar Þjóðverjar burstuðu þá í undanúrslitum HM fyrir tveimur árum. Sögulegt gull og ekki spillti það gleði heimamanna að gullið skyldi vinnast á Maracana leikvanginum sögufræga.

Nígería vann bronsverðlaun eftir 3:2 sigur á Hondúras. Þjóðverjar unnu gull í kvennakeppninni eftir 2:1 sigur á Svíum. Kanada fékk brons eftir að hafa unnið Brasilíu með sömu markatölu. 


Einn leikmaður Liverpool tók þátt í Ólympíuleikunum. Þetta var miðvörðurinn Tiago Ilori sem var í liði Portúgals sem komst í átta liða úrslit. Hann tók þátt í tveimur af fjórum leikjum Portúgala. 




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan