| Grétar Magnússon

Sigur í fyrsta leik !

Okkar menn hófu tímabilið á sigri á Arsenal í hreint mögnuðum leik sem endaði 3-4.  Sadio Mané skoraði í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik fyrir félagið og markið var hreint út sagt glæsilegt.

Jurgen Klopp stillti upp byrjunarliði sem líklega flestir bjuggust við miðað við undirbúningstímabilið.  Simon Mignolet var í markinu og vörnina skipuðu þeir Clyne, Lovren, Klavan og Moreno.  Á miðjunni voru þeir Henderson, Wijnaldum og Lallana, fremstir voru svo þeir Firmino, Coutinho og Mané.

Heimamenn byrjuðu mun betur í leiknum og gestirnir virtust varla vera tilbúnir frá fyrsta flauti.  Heimamenn héldu boltanum vel á meðan leikmenn Liverpool misstu hann trekk í trekk.  Pressa Arsenal endaði með því að þeir fengu vítaspyrnu eftir um það bil hálftíma leik.  Adam Lallana missti boltann á miðjunni þegar flestir samherjar hans bjuggu sig undir að sækja hratt upp völlinn og boltinn barst hægra megin á teiginn þar sem Moreno gerði sig líklegan til að hreinsa boltann frá.  Hann hitti hinsvegar ekki boltann og felldi Walcott um leið, lítið annað hægt að gera en að dæma víti þar.  Walcott fór á punktinn en spyrnan var ekki góð og Mignolet varði vel.  Staðan var þó ekki lengi markalaus því Walcott skoraði ca. mínútu síðar með því að skjóta í fjærhornið.


Okkar menn vöknuðu aðeins við þetta og Wijnaldum átti skot eftir snarpa sókn upp völlinn en Cech í markinu varði skotið sem var ekki nógu fast.  Í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom svo glæsilegt jöfnunarmark Coutinho beint úr aukaspyrnu sem var dæmd fyrir kannski frekar litlar sakir.  En færið var langt fyrir Coutinho sem gerði sér samt lítið fyrir og þrumaði boltanum efst í markhornið, óverjandi fyrir Cech í markinu.  Staðan því 1-1 í hálfleik.  Eitthvað hafa gestirnir farið vel yfir málin í hálfleik því seinni hálfleikur hófst með látum fyrir þá.  Á 49. mínútu skoraði Adam Lallana gott mark eftir að hafa fengið sendingu frá Wijnaldum, Lallana tók boltann á kassann í teignum og skoraði úr þröngu færi hægra megin við markteig.


Philipp Coutinho bætti svo þriðja markinu á 56. mínútu eftir fasta sendingu frá Clyne á hægri kanti.  Brasilíumaðurinn kom aðvífandi á teignum sendi boltann fast framhjá Cech í markinu.  Veislan var ekki búin fyrir Liverpool menn því á 63. mínútu skoraði Sadio Mané glæsilegt mark.  


Hann fékk boltann úti á hægri kanti, hugsaði sig ekki tvisvar um og skeiðaði í átt að marki, lék framhjá tveimur varnarmönnum Arsenal og þrumaði svo boltanum uppí fjærhornið.  Stórglæsilegt mark þar á ferð og staðan orði 1-4 Liverpool í vil.

Því miður er það nú oft svo að Liverpool menn halda sjaldan þægilegri forystu og staðan var orðin 2-4 mínútu seinna þegar Oxlade-Chamberlain þrumaði í markið úr teignum eftir að hafa leikið á tvo varnarmenn.  Skotið fór í Lovren og breytti um stefnu þannig að Mignolet kom litlum vörnum við.  Á 75. mínútu var staðan svo orðin 3-4 þegar Chambers skoraði með skalla eftir góða aukaspyrnu Cazorla inná teiginn.  Síðasta korterið var frekar taugastrekkjandi fyrir gestina en Arsenal menn náðu engu að síður ekki að skapa neina stórhættu uppvið markið og það var því virkilega ánægjulegt þegar Michael Oliver dómari leiksins flautaði til leiksloka.


Arsenal:  Cech, Bellerín, Holding, Chambers, Monreal, Coquelin, Elneny (Xhaka, 67. mín.), Walcott, Ramsey (Cazorla, 61. mín.), Iwobi (Oxlade-Chamberlain, 59. mín.), Sánchez.  Ónotaðir varamenn:  Ospina, Gibbs, Wilshere, Akpom.

Mörk Arsenal:  Theo Walcott (31. mín.), Alez Oxlade-Chamberlain (64. mín.) og Callum Chambers (75. mín.).

Gul spjöld:  Coquelin, Xhaka og Iwobi.

Liverpool:  Mignolet, Clyne, Lovren, Klavan, Moreno, Henderson, Wijnaldum (Stewart, 88. mín.), Lallana (Origi, 67. mín.), Coutinho (Can, 70. mín.), Firmino, Mané.  Ónotaðir varamenn:  Manninger, Matip, Alexander-Arnold, Grujic.

Mörk Liverpool:  Philippe Coutinho (45+1. mín og 56. mín.), Adam Lallana (49. mín.) og Sadio Mané (63. mín.).

Gul spjöld:  Lovren, Moreno og Lallana.

Áhorfendur á Emirates leikvanginum:  60.033.

Maður leiksins:  Philippe Coutinho hlýtur nafnbótina verðskuldað að þessu sinni.  Hann jafnaði metin með glæsilegu marki rétt fyrir hálfleik og skoraði svo annað gott mark í seinni hálfleik sem kom okkar mönnum í 1-3.  Brasilíumaðurinn á það til að hverfa í leikjum en vonandi sýnir hann meiri stöðugleika á þessu tímabili.

Jurgen Klopp:  ,,Að skora fjögur mörk er frábært en að fá þrjú á sig er ákkúrat andstæðan við það.  Við byrjuðum ekki vel, ég sá það sem við töluðum um fyrir leikinn en ég sá bara 50% af því sem menn ætluðu sér fyrir leik.  Við spiluðum hátt á vellinum en vorum ekki þéttir og það þýddi að það var of auðvelt að spila á móti okkur.  Við vorum nánast að biðja um að fá á okkur mark og það kom.  Við náðum svo að jafna metin með frábæru marki og í hálfleik breyttum við aðeins varnarleiknum okkar og sýndum mönnum hvar svæðin voru að opnast hjá Arsenal og menn nýttu sér það í seinni hálfleik."

Fróðleikur:

- Simon Mignolet varði sína fimmtu vítaspyrnu í úrvalsdeildinni fyrir félagið og setti þar með met en David James hafði áður varið flestar vítaspyrnur í úrvalsdeildinni eða fjórar talsins.

- Mignolet hefur nú varið fimm af ellefu vítaspyrnum sem Liverpool hefur fengið á sig síðan hann kom til félagsins.

- 13 af 30 mörkum Philippe Coutinho fyrir félagið í öllum keppnum hafa verið skot fyrir utan vítateig.

- Þeir Ragnar Klavan, Gini Wijnaldum og Sadio Mané spiluðu allir fyrsta úrvalsdeildarleik sinn fyrir félagið.

- Simon Mignolet spilaði sinn 150. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Adam Lallana skoraði sitt 10. mark fyrir félagið í úrvalsdeildinni í 58 leikjum.

- Roberto Firmino spilaði sinn 50. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

Hér má sjá myndir úr leiknum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan