| Grétar Magnússon

Kaupin á Klavan staðfest

Eistlendingurinn Ragnar Klavan er nýjasti leikmaður félagsins en kaupin á honum frá þýska liðinu FC Augsburg voru staðfest í dag.



Ragnar er 30 ára gamall varnarmaður sem hefur spilað yfir 120 leiki í þýsku Bundesligunni en einnig hefur hann spilað yfir hundrað landsleiki fyrir Eistland.

Klavan sagði í sínu fyrsta viðtali hjá félaginu:  ,,Það er mikill heiður að vera orðinn hluti af þessu stórkostlega félagi, þessu magnaða liði.  Það er erfitt að koma orðum að þessu vegna þess að þetta hefur verið draumur minn í 22 ár að spila í úrvalsdeildinni og vera hluti af Liverpool."

,,Úrvalsdeildin er mest spennandi deild heims og maður dáist alltaf af þeim leikmönnum sem spila hér.  Þetta er heimili knattspyrnunnar."

Klavan er þar með orðinn fimmti leikmaðurinn sem Jurgen Klopp kaupir til félagsins á eftir þeim Loris Karius, Joel Matip, Sadio Mané og Marko Grujic.

Hann spilaði báða leikina með Augsburg gegn Liverpool í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í febrúar þegar okkar menn unnu 1-0 samanlagt eftir tvo leiki.

Klavan fær úthlutað treyju númer 17 hjá félaginu en Mamadou Sakho var með það númer áður en hann skipti í treyju númer 3 nýverið.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan