| Grétar Magnússon

Sigrar í fyrstu æfingaleikjunum

Eins og flestir vita er undirbúningstímabilið farið af stað.  Okkar menn eru búnir að spila tvo æfingaleiki til þessa og sigrað þá báða.

Föstudaginn 8. júlí var fyrsti æfingaleikurinn er Liverpool heimsótti nágranna sína í Tranmere Rovers.  Leikurinn endaði 0-1 og var það Danny Ings sem skoraði eina mark leiksins 11 mínútum fyrir leikslok.

Byrjunarliðið var þannig skipað:  Loris Karius, Jon Flanagan, Joel Matip, Dejan Lovren, Brad Smith, Cameron Brannagan, Lucas, Ovie Ejaria, Ryan Kent, Sadio Mane og Roberto Firmino.  Eins og við var að búast voru Liverpool sterkari aðilinn í leiknum en náðu þó ekki að skora nema eitt mark.  Heimamenn fengu ágætt færi í fyrri hálfleik til að skora en stöngin bjargaði gestunum þar.  Klopp skipti svo öllu byrjunarliðinu útaf í hálfleik, fyrir utan Karius í markinu og byrjunarlið seinni hálfleiks var þannig skipað:  Karius, Connor Randall, Andre Wisdom, Tiago Ilori, Alberto Moreno, Trent Alexander-Arnold, Kevin Stewart, Pedro Chirivella, Lazar Markovic, Ben WoodBurn og Danny Ings.

Þeir Loris Karius, Joel Matip og Sadio Mané spiluðu þarna sinn fyrsta leik fyrir félagið og þóttu þeir allir standa sig vel, auk þess vakti Ovie Ejaria athygli en hann er verður 19 ára gamall á þessu ári.  Ejaria kom til félagsins sumarið 2014 eftir að hafa verið alist upp í akademíunni hjá Arsenal.

Hér má sjá myndir úr leiknum.

Í gærkvöldi, nánar tiltekið þann 13. júlí heimsóttu svo Liverpool lið Fleetwood Town og var byrjunarliðið þannig skipað:  Loris Karius, Jon Flanagan, Joel Matip, Dejan Lovren, Alberto Moreno, Kevin Stewart, Trent Alexander-Arnold, Marko Grujic, Lazar Markovic, Sadio Mané og Danny Ings.

Marko Grujic spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið í þessum leik og kom hann sterkur inn.  Eftir um það bil 15 mínútna leik var hann felldur í vítateignum og vítaspyrna dæmd.  Danny Ings tók spyrnuna en markvörður Fleetwood Town varði vel.  Grujic hélt áfram að ógna og á 18. mínútu skoraði hann gott mark eftir undirbúning Sadio Mané og Alberto Moreno á vinstri kanti.  Moreno sendi boltann inná teiginn og þar tók Grujic við boltanum og þrumaði í markið, reyndar með viðkomu í varnarmanni en mark engu að síður ! Grujic átti svo þrumuskot í slána skömmu síðar. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og staðan því 0-1 fyrir gestina.

Klopp gerði 11 breytingar á liðinu í hálfleik og var liðið þannig skipað:  Adam Bogdan, Connor Randall, Andre Wisdom, Tiago Ilori, Brad Smith, Cameron Brannagan, Lucas, Ovie Ejaria, Ryan Kent, Roberto Firmino og Ben Woodburn.

Gestirnir léku við hvurn sinn fingur í seinni hálfleik og skoruðu fjögur mörk.  Voru þar að verki Ben Woodburn, sem er aðeins 16 ára gamall, Lucas og Firmino bætti við síðustu tveim mörkunum í leiknum.  Niðurstaðan 0-5 sigur og virkilega ánægjulegt að sjá hversu vel unglingarnir eru að spila en það skal þó hafa í huga að þetta var nú ekki sterkasti andstæðingur sem Liverpool mun mæta á næstunni.

Hér má sjá myndir úr leiknum.

Næsti leikur er svo gegn Wigan á útivelli á sunnudaginn kemur, 17. júlí og þann 20. júlí er leikur við Huddersfield.  Liðið heldur svo til Bandaríkjanna í æfingaferð og er fyrsti leikur þar á dagskrá aðfaranótt fimmtudagsins 28. júlí kl. 3:35 að íslenskum tíma.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan