| Heimir Eyvindarson

Hverjir eru næstir inn?

Eins og við höfum sagt frá var gengið frá kaupunum á Sadio Mané í vikunni. Nú er spurningin hver verður næstur. Piotr Zielinzki, Ben Chilwell, Mahmoud Dahoud, Ragnar Sigurðsson?

Fjórir nýir leikmenn hafa bæst í leikmannahóp Liverpool það sem af er sumri. Annarsvegar Marko Grujic og Joel Matip, sem sömdu við félagið fyrr í vetur, og hinsvegar Loris Karius og Sadio Mané. Enginn þessara þriggja telst verulega stórt nafn í fótboltaheiminum en Matip og Mané eru klárlega hugsaðir sem byrjunarliðsmenn. 

Piotr Zielinski hefur verið mjög þrálátlega orðaður við Liverpool og samkvæmt Liverpool Echo hefur Liverpool boðið tæpar 10 milljónir punda í hann, en Udinese hefur farið fram á 12. Sjálfsagt fréttist ekkert af hans málum fyrr en EM þátttöku Pólverja lýkur, sem verður líklega um helgina.

Echo hefur líka fullyrt að Liverpool hafi boðið í Ben Chilwell vinstri bakvörð hjá Leicester, en Englandsmeistararnir hafi hafnað boðinu umsvifalaust. Andrew Robertson hjá Hull hefur verið nefndur sem plan B ef ekki tekst að landa Chilwell. Það er kannski ekki hægt að segja að þetta séu mjög spennandi kostir svona fyrirfram, en hvað veit maður svosem. Klopp hefur oft gert glúrin kaup.

Í rauninni er Zielinski eini maðurinn sem er verulega líklegur til að enda í Liverpool í sumar. Leicester virðist ekki spennt fyrir því að selja Chilwell og önnur nöfn sem mikið hafa verið í umræðunni eins og t.d. Mahmoud Dahoud og Neven Subotic virðast ekkert sérlega líkleg. Hugsanlega mun Liverpool þó snúa sér að Dahoud ef kaupin á Zielinski klúðrast. Það hlýtur síðan að vera á dagskrá að kaupa bakverði, a.m.k. eitthvað skárra backup fyrir Moreno og Clyne en Brad Smith og Connor Randall. 

Síðan mun það væntanlega ekki koma í ljós fyrr en UEFA fellir endanlegan dóm í máli Sakho hvort nýr miðvörður verður keyptur, en eins og við vitum er Toure farinn og allar líkur á því að Skrtel fari til Tyrklands á næstu dögum. Neven Subotic, sem spilaði undir stjórn Klopp hjá Dortmund, gæti verið inni í myndinni og svo hefur nafn Ragnars Sigurðssonar einnig verið nefnt eftir ofurmannlega frammistöðu hans gegn Englandi á mánudagskvöldið. 

Það væri auðvitað frábært að fá Ragnar Sigurðsson til Liverpool. Fyrir það fyrsta er alltaf gaman þegar Íslendingar eru orðaðir við liðið og svo heldur Ragnar líka með Liverpool, sem er til marks um það að hann hlýtur að vera toppeintak af manni. En hvort eitthvað er hæft í sögusögnum um að Liverpool sé að spá í hann er svo aftur allt annað mál. Eitt er víst að frammistaða hans á mánudaginn hefur ekki farið fram hjá mörgum knattspyrnustjórum í Úrvalsdeildinni. 

Ensk lið hafa reyndar oft brennt sig á því að kaupa spútnikmenn stórmóta. Hver man t.d. ekki eftir El Hajdi Diouf og Salif Diao sem gengu til liðs við Liverpool eftir hetjulega frammistöðu Senegala á HM 2002? Það voru skelfileg kaup. En vonandi eru njósnarar Liverpool þessa stundina að skoða upptökur af Ragnari Sigurðssyni og komast að raun um að frammistaða hans á EM er engin tilviljun, það væri ekki leiðinlegt að sjá hann í rauðu treyjunni. Hann er a.m.k. ekki verri en Skrtel held ég.

Áfram Ísland!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan