| Grétar Magnússon

Kaupin á Karius staðfest

Í dag voru kaupin á þýska markverðinum Loris Karius staðfest.  Karius kemur frá þýska félaginu Mainz 05 og er 22 ára gamall.

Í sínu fyrsta viðtali við opinbera heimasíðu félagsins sagði Karius þetta:  ,,Þetta er virkilega góð tilfinning og það er mikill heiður að spila fyrir félag sem þetta."

,,Félagið er með sérstaka sögu og stuðningsmennirnir eru ótrúlegir hér, ég hlakka því mikið til að spila á Anfield.  Ég veit mikið um liðið eftir að hafa horft á það í sjónvarpinu.  Sagan er mikil og allir sem spila knattspyrnu vita það.  Það kemur mikið upp í hugann þegar ég hugsa um þetta félag."

,,Ég talaði við stjórann og hafði góða tilfinningu fyrir þessum skiptum eftir það vegna þess að hann sagði mér hvað hann vill gera með þetta lið og með leikmennina.  Þetta var gott spjall og eftir það var ég sannfærður um að ákvörðun mín væri rétt."

Karius hefur spilað fyrir U-21 árs landslið Þýskalands og spilaði 34 leiki í þýsku Bundesligunni á nýliðnu tímabili.  Þar hélt hann markinu hreinu níu sinnum og Mainz enduðu í 6. sæti deildarinnar sem er mjög góður árangur.

Hann er annar leikmaðurinn sem kemur frá Þýskalandi þetta sumarið en eins og allir þekkja var varnarmaðurinn Joel Matip búinn að ákveða að ganga til liðs við félagið þegar samningur hans hjá Schalke rennur út.

Karius og Matip verða opinberlega leikmenn félagsins þann 1. júlí næstkomandi.

Hér má sjá myndir af kappanum á Melwood fyrr í dag.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan