| Sf. Gutt

Jordan Rossiter heldur á braut


Jordan Rossiter hefur yfirgefið Liverpool og er búinn að gera samning við Glasgow Rangers. Samkvæmt því sem Liverpool Echo greinir frá fær Liverpool 250.000 sterlingspund, sem eru nokkurs konar uppeldisbætur, fyrir piltinn sem er 19 ára. Samningur Jordan við Liverpool rennur út í næsta mánuði og þá verður hann formlega leikmaður Rangers. 


Jordan, sem er alinn upp hjá Liverpool, lék sinn fyrsta leik haustið 2014 og skoraði þá í Deildarbikarleik á móti Middlesbrough á Anfield. Alls lék Jordan fimm leiki með Liverpool og þetta var eina markið hans. Jordan hefði örugglega spilað nokkra leiki í viðbót á þessari leiktíð en hann hefur verið lengi meiddur. 


Rangers er nú komið upp í efstu deild Skotlandi eftir erfiða tíma síðustu árin en liðið var dæmt niður í neðstu deild, fyrir nokkrum árum, eftir fjármálaóreiðu. Liðið vann næst efstu deild fyrir mörgum vikum auk þess að vinna bikarkeppni liða í neðri deild. Rangers leikur svo til úrslita um skoska bikarinn við Hibernian síðar í mánuðinum Það eru því spennandi tímar framundan hjá félaginu og það verður gaman að sjá hvernig miðjumanninum unga vegnar þar. 

Hér er allt það helsta um feril Jordan Rossiter á LFCHISTORY.NET.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan