| Sf. Gutt

Jafnt í síðasta heimaleiknum

Varamaðurinn Christian Benteke tryggði Liverpool jafntefli í síðasta heimaáleiknum á leiktíðinni þegar hann jafnaði 1:1 á síðustu stundu á móti Chelsea. Liverpool spilaði ekki vel og greinilegt var að leikmenn voru með hugann við borgina Basel í Sviss. Það er líka bara vika í úrslitaleikinn sem þar fer fram. 

Liðið sem Jürgen Klopp valdi var sterkasta liðið sem hann gat valið miðað við þá leikmenn sem eru tiltækir núna. Leiða má líkum að því að þetta verði liðið sem gengur til leiks á móti Sevilla í Basel.  

Leikmenn Liverpool virtust tilbúnir í slaginn fyrstu mínúturnar og áttu nokkra prýðilegar sóknir en fljótlega fóru menn að hægja á sér og gestirnir sem voru langt frá með sitt sterkasta lið fóru að láta bæra á sér. Það skilaði sér í óvæntu marki eftir rúman hálftíma. Eden Hazard sem lítið hefur sýnt á leiktíðinni fékk boltann fyrir utan vítateiginn, sneri nokkra leikmenn Liverpool af sér og skaut svo hnitmiðuðu skoti neðst í hægra hornið. Simon Mignolet landi hans átti ekki möguleika og varnarmennirnir voru ekki með. Snilldarlegt mark og Belginn er að vakna til lífsins þó seint sé.

Litlu síðar átti Philippe Coutinho skot utan vítateigs sem Asmir Begovic náði að slá frá. Sex mínútum fyrir leikhlé munaði litlu að Chelsea næði að auka við forskot sitt. Simon hikaði í úthlaupi og Bertrand Traore komst í gott færi í vítateignum en hann hitti ekki markið.

Liverpool slapp vel að að vera aðeins einu marki undir í hálfleik og eftir tíu mínútur í síðari hálfleik ógnaði Eden aftur með skoti eftir snögga sókn. Nú varði Simon frá honum, hélt ekki boltanum en náði honum í annarri tilraun. Eftir doðann sem hafði lagst á liðið fór loksins að sjást til leikmanna Liverpool. Á 60. mínútu sendi Adam Lallana frábæra sendingu inn í vítateiginn á Daniel Sturridge en Asmir varði vel. Upp úr þessu fékk Liverpool horn en Kolo Toure náði ekki krafti í skalla í góðu færi. Chelsea sótti fram og Simon verði mjög vel frá Pedro. Simon varði svo aftur fast skot frá Bertrand á 72. mínútu.

Jürgen Klopp sá að eitthvað varð að gera og sendi þá Christian Benteke og Joe Allen til leiks. Leikur Liverpool lagaðist en samt gekk illa að skapa færi. Mínútu fyrir leikslok náði Chelsea skyndisókn og Simon varði enn einu sinni. Allt stefndi í tap en leikmenn Liverpool gáfust ekki upp eins og þeir hefðu líklega gert fyrir einu ári. 

Komið var fram yfir venjulegan leiktíma þegar varamaðurinn Sheyi Ojo gaf frábæra sendingu fyrir frá vinstri. Asmir hafði hendur á boltanum en missti hann yfir sig og Christian Benteke þakkaði gott boð og skallaði í autt markið af stuttu færi fyrir framan Kop stúkuna. Vel gert hjá varamönnunum og leikmenn og stuðningsmenn Liverpool gátu glaðst saman eftir leikinn. 

Fyrir ári kvöddu stuðningsmenn Liverpool Steven Gerrard eftir síðasta heimaleikinn. Liverpool tapaði þá hraklega fyrir Crystal Palace og svo endaði allt á niðurlægingu í Stoke. Nú er öldin önnur. Þýski framkvæmdastjórinn er búinn að umbylta liðinu og allt annar andi er yfir öllu á Anfield. Hver veit nema enn meiri fögnuður verði eftir síðasta heimaleikinn á næsta keppnistímtíambili!

Ef þetta verður byrjunarlið Liverpool eftir viku þurfa sömu menn að spila mun betur til að eiga þess kost að vinna úrslitaleikinn í Evrópudeildinni. Það var kannski ekki óeðlilegt að menn væru varkárir og annars hugar. En eftir viku dugar ekkert annað en stórleikur. Allt verður að ganga upp og það gerist ekki nema með því að allir verði klárir í bátana. 

Liverpool:
Mignolet; Clyne, Toure (Ojo 86. mín.), Lovren, Moreno; Can, Milner (Benteke 78. mín.), Lallana (Allen 78. mín.), Coutinho; Firmino og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Bogdan, Leiva, Skrtel og Smith.

Mark Liverpool:
Christain Benteke (90. mín.).

Gul spjöld:
Emre Can, Kolo Toure og James Milner.

Chelsea:
Begovic; Azpilicueta, Mikel, Cahill, Baba Rahman; Fabregas, Matic; Pedro, Willian (Kenedy 56. mín.), Hazard og Traore (Abraham 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Pato, Amelia, Loftus-Cheek, Palmer og Tomori.

Mark Chelsea:
 Eden Hazard (31. mín.).

Gult spjald:
 Cesar Azpilicueta.

Áhorfendur á Anfield Road:
43.210.

Maður leiksins:
Emre Can. Þjóðverjinn spilaði ekki vel frekar en aðrir leikmenn Liverpool en hann gafst aldrei upp og reyndi að drífa liðið áfram þegar hvorki gekk né rak. Þessi strákur er efni í magnaðan miðjumann.

Jürgen Klopp: Það var frábært að við skyldum ekki tapa í kvöld og koma til baka því við vorum að fara að gleðjast með fjölskyldumeðlimum og áhorfendum. Við verðum að byggja á því jákvæða sem piltarnir hafa verið að sýna okkur síðustu mánuðina. Hér finnst mér gott að vera. Þetta er yndislegur staður og félagið er í heimsklassa. Það var góð ákvörðun hjá mér að koma hingað.

Fróðleikur

- Þetta var síðasti leikur Liverpool á Anfield Road á þessari leiktíð. 

- Um leið var þetta síðasti leikur Liverpool á Anfield í núverandi mynd. Þegar næsta keppnistímabil hefst verður nýja Aðalstúkan komin í gagnið. 

- Þetta var 50. leikur Liverpool undir stjórn Jürgen Klopp. 

- Christain Benteke skoraði tíunda mark sitt á keppnistímabilinu. Þetta var 40. leikur hans. 

- Liverpool hefur skorað flest mörk í deildinni á þessu ári og hefur nú skorað í síðustu 13 leikjum.

- Joe Allen lék sinn 130. leik. Veilsverjinn hefur skorað sjö mörk.

- Kolo Toure lék sinn 70. leik með Liverpool. Hann hefur skorað eitt mark.

- Alberto Moreno lék sinn 90. leik. Hann hefur skorað þrívegis.  

Hér eru
myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com. 

Hér eru myndir sem voru teknar þegar leikmenn Liverpool gengu heiðurshring eftir leikinn. 

Hér er viðtal sem tekið var við Jürgen Klopp eftir leikinn. 


 



 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan