| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Það þarf ekkert að fjölyrða um mikilvægi leiksins í kvöld við Villarreal í seinni leik undanúrslita Evrópudeildarinnar.  Okkar menn þurfa að snúa við 1-0 tapi frá leiknum á Spáni.

Þetta er klárlega mikilvægasti leikur tímabilsins en vonandi nær liðið að bæta við einum mikilvægari leik á leikjadagskrána, sjálfum úrslitaleiknum í Basel síðar í mánuðinum.  Leikur kvöldsins hefst kl. 19:05 og hvetjum við sem flesta til að mæta á heimavöll okkar, Spot í Kópavogi og mynda þar frábæra stemmningu.

Góðar fréttir hafa borist af meiðslum leikmanna í vikunni en Emre Can er leikfær en þó er kannski til of mikils mælst að hann byrji leikinn.  Þjóðverjinn sneri aftur til æfinga í byrjun vikunnar öllum að óvörum en hann meiddist illa á ökkla í seinni leiknum gegn Borussia Dortmund.  Danny Ings hefur einnig hafið æfingar á ný eftir að hafa verið frá nánast allt tímabilið en hann á þó eftir að koma sér í betra æfinga- og leikjastand áður en hann getur farið að spila á ný.  Það er því ansi ólíklegt að hann verði í leikmannahóp kvöldsins.  Aðrir leikmenn sem ekki geta tekið þátt í leiknum í kvöld eru Jordan Henderson, Divock Origi, Connor Randall, Jordan Rossiter og Joe Gomez, sem þó er byrjaður að æfa lítillega á ný og verður hann líklega klár í slaginn þegar undirbúningstímabilið hefst í sumar.  Mamadou Sakho er svo auðvitað kominn í bann eins og flestir vita.

En hvað sem meiðslum leikmanna líður þarf Jurgen Klopp að stilla upp 11 manna byrjunarliði í kvöld og þar hlýtur hann að velja Daniel Sturridge í liðið.  Það kom mörgum á óvart að Sturridge skyldi ekki taka neinn þátt í fyrri leiknum við Villarreal og gæti það mögulega hafa verið sú ákvörðun sem hefur verið hvað verst á stjóraferli Jurgen Klopp hjá félaginu til þessa.  En stjórar geta gert mistök eins og aðrir og hann hlýtur að leiðrétta þau í kvöld.  Þeir Simon Mignolet, Nathaniel Clyne, Dejan Lovren, Alberto Moreno, James Milner og Philippe Coutinho eru svo líklega þeir leikmenn sem eiga 100% öruggt sæti í byrjunarliðinu.  Stóra spurningin er hver fær að standa vörnina í miðverðinum með Lovren og hvort að Lucas Leiva haldi sæti sínu í liðinu frá fyrri leiknum.

Allt kemur þetta í ljós í kvöld og spennan er gríðarleg í Liverpool borg fyrir leik kvöldsins.  Gestirnir frá Villarreal munu selja sig dýrt í leiknum og beita skyndisóknum þar sem þeir Denis Suarez, Cédric Bakambu og Roberto Soldado munu freista þess að sækja hratt upp völlinn og refsa heimamönnum.  1-0 forysta þeirra er eitthvað sem þeir munu verja með kjafti og klóm.  Jurgen Klopp hefur hinsvegar ráð undir rifi hverju og það skyldi aldrei vanmeta mátt Anfield þegar kemur að undanúrslitum í Evrópukeppni.

Spáin að þessu sinni er sú að magnað Evrópukvöld á Anfield mun fleyta okkar mönnum alla leið í úrslit.  Það mun eins og nánast venja er, standa tæpt og þetta lið sem við höldum með er í sérflokki þegar kemur að því að láta okkur stuðningsmenn engjast um af spennu.  Það hefur svo sannarlega tekið á taugarnar og hjartað að halda með Liverpool í gegnum árin.  Okkar menn vinna leikinn 2-0 í venjulegum leiktíma og Spánverjarnir sitja eftir með sárt ennið !

Fróðleikur

- Markaskorun leikmanna í Evrópudeildinni hefur dreifst ótrúlega vel á tímabilinu og eru fjórir leikmenn liðsins með 2 mörk hver og sjö leikmenn hafa skorað eitt mark.

- Þeir sem hafa skorað tvö mörk eru:  Philippe Coutinho, Divock Origi, James Milner og Adam Lallana.

- Flesta Evrópuleiki á tímabilinu hefur Simon Mignolet spilað, eða alls 13 talsins.

- Liðið hefur aðeins tapað einu sinni í Evrópudeildinni á tímabilinu en það var einmitt gegn Villarreal í síðasta leik.

- Þetta er í 17. skipti sem Liverpool er í undanúrslitum Evrópukeppni, síðast gerðist það árið 2010 og liðið reynir nú að komast í sinn 12. úrslitaleik.

- Í níu skipti hefur liðið spilað seinni leikinn á Anfield, unnið 8 og einu sinni gert jafntefli.  Eina skiptið sem ekki tókst að vinna var árið 1976 þegar 1-1 jafntefli gegn Barcelona dugði til að koma liðinu í úrslitaleikinn.

- Heilt yfir hefur félagið unnið 12, gert jafntefli í þremur og tapað einum af undanúrslitaleikjum sínum í Evrópukeppni á heimavelli.  Eina tapið var gegn Leeds United árið 1971.

- Í þrjú af fimm skiptum hefur liðinu tekist að komast í úrslitaleikinn eftir að hafa tapað fyrri leiknum á útivelli.  Celtic 1966, Borussia Mönchengladbach árið 1978 og Chelsea 2007 voru allt gleðistundir en árið 1997 gegn PSG og 2010 gegn Atletico Madrid tókst liðinu ekki að komast í úrslitaleikinn.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan