| Sf. Gutt

Verjast vel og skora mörk!


Jürgen Klopp segir að seinni leikurinn á móti Villarreal sé ekki flókinn. Liverpool þurfi að verjast vel og skora mörk. Sem sagt venjulegur knattspyrnuleikur. Þjóðverjinn hafði meðal annars þetta að segja á blaðamannafundi í dag. 

,,Það sama gildir um þennan leik og venjulega knattspyrnuleiki. Vörnin verður að vera í hæsta gæðaflokki og svo þarf að skora eins oft og mögulegt er. Ég sé því ekki mikinn mun á þessum leik og öðrum. Þetta er allt mjög venjulegt. Svona leið mér líka eftir 1:0 leikinn. En satt að segja þá var það ekki besta stund lífs míns þegar Villarreal skoraði markið á 94. mínútu eða eitthvað nærri því."

,,Þetta voru svo sem bara venjuleg úrslit og það getur hent sig að tapa 1:0 á útivelli í Evrópuleik. Það er í raun fullkomlega eðlilegt. Það er svo sem eins og ekkert hafi í skorist og nú er komið að seinni hluta þessarar undanúrslitarimmu. Við erum búnir að velta leik okkar mikið fyrir okkur og við vitum alveg hvað við þurfum að gera í þessum leik á móti Villarreal. Við þekkjum styrkleika þeirra  en við sáum líka í hverju okkar styrkur liggur í fyrri leiknum. Hvað við kunnum fyrir okkur, hæfileika okkar, eldmóðinn sem býr í okkur, samstöðuna okkar að viðbættri stemmningunni á Anfield. Þetta allt vil ég sjá frá okkur."


Stuðningsmenn Liverpool munu ekki liggja á liði sínu annað kvöld og búist er við mikilli stemmningu á Anfield. Jürgen sagði eftir fyrri leikinn á Spáni að Spánverjarnir vissu ekki hvað biði þeirra á Anfield. 

,,Ég veit ekki hvað þeir vita um Anfield. Ef við getum, með leik okkar, skapað álíka stemmningu og á móti Dortmund þá verður þetta allt mun erfiðara fyrir Villarreal en þeir geta ímyndað sér á þessari stundu."

Allt er tilbúið fyrir eftirminnilegt Evrópukvöld á Anfield. Vonandi verður tilefni til að fagna áframhaldi Rauða hersins í úrslitaleik á Evrópumóti!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan