| Sf. Gutt

Fjölmenn minningarathöfn


Fjölmenni safnaðist saman við St George´s bygginguna í miðborg Liverpool síðdegis í dag til að minnast þeirra 96 sem létust á Hillsbrough. En um leið til að fagna niðurstöðu gærdagsins þegar kviðdómur hreinsaði nafn stuðningsmanna Liverpool og staðfesti að lögreglan og framkvæmdaaðilar leiksins bæru ábyrgð á því sem gerðist á Hillsbrough. Talið er að um 30.000 manns hafi komið saman.


Joe Anderson, borgarstjóri, og fleiri héldu ræður og í þeim mörgum var áréttað að nú þegar sannleikurinn hefði verið staðfestur væri kominn tími til að lögsækja þá sem voru valdir að því að 96 stuðningsmenn Liverpool létust á Hillsbrough. Það fyrsta í þeim efnum átti sér stað í dag þegar yfirmaður lögreglunnar í Suður Jórvíkurskíri var settur tímabundið af. Tíminn leiðir í ljós hvað meira gerist í þeim efnum. 

Nöfn þeirra sem létust voru lesin upp og samkoman endaði á því að allir sungu You´ll Never Walk Alone. Á St George´s byggingunni höfðu verið settir upp stórir borðar sem mynduðu orðin Sannleikur - Truth og Réttæti - Justice. Þessi orð voru mjög við hæfi og enduspegla þann mikla áfanga sem náðist í gær og var í raun fagnað í dag!

YNWA!




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan