| Sf. Gutt

Sannleikurinn staðfestur!


Í dag má segja að sannleikurinn í Hillsborough málinu hafi verið endanlega staðfestur. Um leið hefur mannorð stuðningsmanna Liverpool og félagsins verið hreinsað. Kviðdómur birti í dag niðurstöðu sína þess efnis að vanræksla og mistök lögreglu og framkvæmdaaðila leiks Liverpool og Nottingham Forest, í undanúrslitum FA bikarsins 15. apríl 1989, hafi átt sök á því að 96 stuðnignsmenn Liverpool létu lífið. Stuðningsmenn Liverpool bera ekki á nokkurn hátt ábyrgð á því sem gerðist á Hillsborough.


Alltof mörgum var hleypt inn á áhorfendastæðin. Sú ákvörðun var tekin af lögreglu og framkvæmdaaðilum leiksins. Í stað þess að gangast við mistökum sínum og biðjast fyrirgefningar fóru þessir aðilar af fullum krafti í að kenna stuðningsmönnum Liverpool um hvernig fór með lygum, yfirhylmingum og öllum tiltækum ráðum. Stuðningsmenn Liverpool vissu betur og við tók áralöng barátta aðstandanda þeirra sem létust við yfirvöld sem lengi vel stóðu vörð um lygi og fals. Barátta þessa venjulega fólks skilaði því að málið var tekið upp að nýju og sannleikurinn varð ekki lengur falinn. Í dag var endanlega staðfest að vanræksla og mistök yfirvalda ollu því að saklaust fólk sem fór að horfa á knattspyrnuleik kom aldrei heim aftur. Við bættust lygar og lygilegar aðferðir til að koma sök á saklaust fólk og gera það tortryggilegt. Í dag vann venjulegt fólk sigur í máli sem verður að teljast eitt mesta hneyksli og ein mesta skömm í sögu réttarfars á Englandi og þótt víðar væri leitað.


Niðurstöður dagsins eru afrakstur réttarhalda sem hafa staðið yfir frá því í apríl 2014. Þau réttarhöld hófust eftir að stjórnvöld á Englandi ákváðu að taka málið upp á nýjan leik. Nú hefur sannleikurinn verið staðfestur en niðurstaðan gefur færi á því að einhverjir af þeim sem stóðu að framkvæmd leiksins og eins úr röðum lögreglu verði sóttir til saka. Það er seinni tíma mál en nú kom loksins dagurinn sem aðstandendur þeirra sem létust fyrir rúmum 27 árum hafa beðið eftir. Sannleikurinn var kominn fram en nú er búið að staðfesta hann og taka af allan vafa um að lögreglan ber ábyrgð á því sem gerðist á Hillsborough í Sheffield 15. apríl 1989. 

YNWA!



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan