| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Nágrannaslagur á Anfield á miðvikudagskvöldi er uppskrift að góðu kvöldi en í fyrsta skipti stjórnar Jurgen Klopp sínum mönnum gegn erkifjendunum frá Everton.

Það var örlagaríkur dagur þegar liðin mættust fyrr á tímabilinu á Goodison Park, nánar tiltekið sunnudaginn 4. október 2015.  Leikurinn endaði með jafntefli 1-1 þar sem Danny Ings kom gestunum yfir með skallamarki eftir hornspyrnu en Romelu Lukaku jafnaði metin áður en flautað var til hálfleiks.  Skömmu eftir að leiknum lauk bárust fréttir þess efnis að Brendan Rodgers hafi verið sagt upp störfum hjá Liverpool !  Eitthvað sem kom kannski ekki á óvart þegar heildarmyndin er skoðuð en tímasetningin kom þar kannski helst aftanað mönnum.  Í landsleikjahléinu sem fylgdi var Jurgen Klopp svo ráðinn til starfa og framhaldið þekkjum við öll mjög vel.

Þetta mun vera í 226. skiptið sem þessi nágrannaslagur fer fram og það verður að segjast að það er svolítið langt síðan að sigur vannst á þeim bláu.  Síðustu þrír leikir hafa endað með jafntefli en þar hafa tveir þeirra reyndar farið fram á Goodison Park.  Síðasti leikur á Anfield endaði 1-1 þar sem Phil Jagielka skoraði eitthvað ótrúlegt draumamark í blálokin, eitthvað sem honum mun ekki takast aftur á ferlinum þó hann myndi reyna margoft að endurtaka leikinn.  En hvað um það, síðasti sigurleikur var stórkostlegur 4-0 sigur 28. janúar 2014, ekki væri nú leiðinlegt ef eitthvað slíkt yrði uppi á teningnum núna.

Það er ekki létt að reyna að ráða í hvernig Klopp stillir upp liðinu að þessu sinni en leikjaálagið er töluvert þessa dagana, auk þess eru þeir Jordan Henderson og Emre Can meiddir sem veikir miðjuna þónokkuð.  Sem fyrr eru svo þeir Jordan Rossiter, Christian Benteke, Danny Ings og Joe Gomez á meiðslalistanum en eftir leik helgarinnar bættist Kolo Toure við listann en hann fór meiddur af velli gegn Bournemouth.  Einnig meiddist Divock Origi smávægilega í baki undir lok þess leiks og engin áhætta verður tekin með hann ef vafi leikur á að hann sé ekki alveg heill.  Búist er við því að Simon Mignolet taki aftur stöðu sína í markinu og þá hljóta þeir Nathaniel Clyne og Alberto Moreno einnig að koma inn í byrjunarliðið á ný.  Daniel Sturridge ætti einnig að byrja en það ber þó að hafa mikinn vara á því að láta hann spila of mikið eins og menn þekkja og fara þarf virkilega varlega með þann ágæta leikmann.  Við sjáum svo til með hvernig liðsuppstillingin verður að öðru leyti.

Gestirnir glíma einnig við meiðsli í sínum leikmannahóp en þeir Coleman, Jagielka, Cleverley, Browning og Hibbert eru meiddir auk þess sem Lennon og Baines eru að glíma við smávægileg meiðsli en eru taldir líklegir til að ná þessum leik.  Það verður þó einnig fróðlegt að fylgjast með liðsuppstillingu gestanna en þeir eiga mikilvægan leik fyrir höndum um helgina er þeir mæta Manchester United í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar.

En sem fyrr skiptir ekki máli hvaða menn eru meiddir, heldur hverjir spila leikinn og þegar kemur að þessum leikjum við Everton skiptir heldur engu máli hver staða liðanna er í deildinni.  Það er alltaf hart barist þó svo að kannski megi segja að mesta ástríðan sé að einhverju leyti horfin, að minnsta kosti síðustu ár.

Spáin að þessu sinni er á þann veg að okkar menn vinna fyrsta nágrannaslag Jurgen Klopp 2-1.  Eigum við svo ekki að segja að eitt rautt spjald líti dagsins ljós og það gæti alveg dottið á heimamenn eins og gestina.  En sigur vinnst !

Fróðleikur:

-  Fyrir leikinn eru Liverpool í 8. sæti deildarinnar með 51 stig eftir 32 leiki.

-  Everton eru í því 11. með 41 stig eftir 33 leiki.

-  Simon Mignolet er leikjahæstur allra leikmanna félagsins á tímabilinu með 48 leiki í öllum keppnum.

-  Hann og Nathaniel Clyne hafa einnig spilað flesta deildarleiki það sem af er eða 30 talsins.

-  Philippe Coutinho er markahæstur leikmanna félagsins á tímabilinu með 11 mörk í öllum keppnum.

-  Markahæstur í deildinni er hinsvegar landi hans Roberto Firmino með 9 mörk.

-  Alls hafa 22 leikmenn skorað fyrir liðið á þessu tímabili og er það met.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan