| Grétar Magnússon

Er að komast á rétt ról

Jordan Henderson segir í viðtali að hann sé loksins að komast á rétt ról eftir að hafa glímt við þrálált meiðsli á hæl nánast allt þetta tímabil.

Fyrirliðinn var frá vegna meiðsla í þrjá og hálfan mánuð eftir að hafa haltrað af velli í leik gegn Bournemouth í ágústmánuði.  Meiðslin eru þess eðlis að ákveðinn vefur þykknar upp í ilinni sem veldur svo aftur sárskauka í hælnum þegar gengið er og þrátt fyrir allt liti út fyrir að meiðslin væru að jafna sig í janúar hefur vandamálið ekki alfarið horfið.

En á laugardaginn var gegn Tottenham virtist Henderson vera aftur kominn í sitt gamla form og sagði hann þetta eftir leik:  ,,Mér líður eins og ég sé að komast á þann stað sem ég vil vera á.  Stundum get ég verið minn versti óvinur þegar ég spila þrátt fyrir meiðsli, þar get ég sjálfum mér um kennt stundum."

,,En þannig er ég bara, ég vil spila knattspyrnu og leggja mitt af mörkum fyrir liðið.  Mér finnst ég loksins vera að komast á réttan stað líkamlega - og það er stór hluti af mínum leik.  Þegar ég er kominn í rétt stand þá virðist allt annað flæða mun betur í mínum leik.  Mér leið mjög vel í leiknum gegn Tottenham."

,,Í landsleikjahlénu fannst mér ég ná einni af minni bestu frammistöðum á tímabilinu gegn Þýskalandi, að minnsta kosti hvað varðar líkamlega frammistöðu sem mér fannst ánægjulegt.  Ég fann að sjálfstraustið aukast eftir þann leik og nú held ég áfram að vinna að leik mínum í stað þess að vera sífellt að eltast við að komast í almennilegt form."

Meiðsli Henderson eru þess eðlis að hvíld er eina leiðin til að jafna sig fullkomlega af þeim og sú hvíld verður ekki að veruleika fyrr en að EM í Frakklandi loknu í sumar.  Henderson er þó bjartsýnn á að meiðslin séu að mestu leyti að baki og hann hlakkar mikið til að hjálpa félaginu að klára tímabilið á sem bestan hátt.

,,Meiðslin eru ekki mikið mál fyrir mig lengur.  Eftir leiki finn ég aðeins fyrir eymslum í hælnum en þetta er alltsaman mun betra núna en það hefur verið hingað til sem er ánægjulegt.  Ég er að spila leikina og finn mig vel.  Meiðslin hverfa svo alveg þegar ég fæ loksins hvíld, en ég er hinsvegar ekki viss um að nái að hvíla mig mikið á næstunni.  Ef ég fer með Englandi á Evrópumótið fæ ég væntanlega einhverja hvíld eftir það og meiðslin hverfa þá vonandi alveg."

,,Þangað til þarf ég að lifa með þeim, mér líður sífellt betur líkamlega og er að komast í mitt rétta form."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan