| Heimir Eyvindarson

Joe Allen frá í mánuð

Jürgen Klopp fór yfir meiðslalistann á blaðamannafundi í morgun. Þar kom fram að Allen yrði frá í dálítinn tíma. Nú slær Liverpool Echo því föstu að hann verði frá í að minnsta kosti mánuð. 

Í Liverpool Echo segir í dag að Joe Allen verði frá í að minnsta kosti mánuð. Það gerir það að verkum að hann mun missa af úrslitaleiknum í deildabikarnum í lok febrúar. 

Af öðrum meiðslamálum er það helst að frétta að Dejan Lovren verður örugglega ekki með gegn Aston Villa á sunnudaginn, en gæti verið orðinn klár fyrir fyrri viðureignina gegn Augsburg í Evrópudeildinni á fimmtudaginn kemur.

Brad Smith er meiddur eftir maraþonleikinn við West Ham, en meiðsli hans eru ekki talin alvarleg. Þá er Steven Caulker búinn að ná sér af meiðslunum sem héldu honum utan við liðið gegn West Ham og verður væntanlega í hópnum gegn Villa. 

Cameron Brannagan er að ná sér af veikindum en þarf að sögn stjórans að styrkja sig áður en hann fer á fullt, en hann missti nokkur kíló meðan á veikindunum stóð. Þá er Jordan Rossiter ekki enn orðinn leikfær og á enn dálítið í land. Sömuleiðis Martin Skrtel og staðan á honum er þannig að hann mun tæplega verða klár fyrir úrslitaleikinn í deildabikarnum.

Danny Ings og Joe Gomez eru sem fyrr meiddir og verða líklega ekkert meira með á leiktíðinni, eins og margoft hefur áður komið fram.

Ánægjulegu fréttirnar eru síðan þær að Daniel Sturridge, Philippe Coutinho og Divock Origi sem allir komu við sögu í West Ham leiknum, eftir að hafa verið utan vallar um talsverða stund, kenna sér einskis meins eftir þau átök og ættu að vera klárir í slaginn gegn Villa. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan