| Grétar Magnússon

Svekkjandi tap gegn West Ham

Liverpool heimsótti West Ham United í síðasta skipti á Boleyn Ground í Lundúnum í endurteknum leik í 4. umferð ensku bikarkeppninnar.  Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit en sigurmark heimamanna kom á lokaandartökum leiksins.

Eins og við var búist stillti Jurgen Klopp upp breyttu liði frá síðasta leik, sá eini sem hélt sæti sínu í byrjunarliðinu var Simon Mignolet og kom það nú mörgum á óvart.  Miðverðir félagsins virðast glíma við endalaus meiðsli og Steven Caulker gat ekki tekið þátt í leiknum vegna bakmeiðsla, fyrir á meiðslalistanum voru þeir Dejan Lovren og Martin Skrtel.  Þeir Mamadou Sakho og Kolo Toure þurftu svo líklega á hvíld að halda og því var miðvarðaparið skipað þeim Tiago Ilori og Lucas Leiva sem var fyrirliði liðsins.  Aðrir sem komu inní byrjunarliðið að þessu sinni voru þeir Jon Flanagan, Brad Smith, Pedro Chirivella, Kevin Stewart, Jordon Ibe, Christian Benteke, Philippe Coutinho og Joao Carlos Teixeira.  Fannst mörgum kærkomið að sjá Coutinho á ný á vellinum eftir að hafa jafnað sig af meiðslum.

Heimamenn stilltu upp sterku liði og byrjun leiksins kom kannski mörgum á óvart en gestirnir voru sterkari í upphafi.  Aldrei þessu vant ógnuðu gestirnir markinu eftir hornspyrnur en Christian Benteke ógnaði í tvígang með því að komast í boltann á fjærstönginni, í annað skiptið skallaði hann inná teiginn aftur en þar náðu samherjar hans ekki að skjóta á markið.  West Ham komust þó meira inní leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og eftir 16. mínútna leik þrumaði Joey O'Brien í stöngina eftir skot rétt fyrir utan teig.  Gestirnir sóttu oft upp vinstri kantinn og Brad Smith var hættulegur í sóknaraðgerðum. Hann náði oft að komast upp að endamörkum og senda fyrir en því miður náðist ekki að skapa mikla hættu uppvið markið fyrir utan eitt skipti eftir ca. hálftíma leik.  Boltinn barst þá til Teixeira í teignum og hann var í ágætu skotfæri en skotið fór framhjá eftir viðkomu í varnarmanni West Ham.  Uppúr hornspyrnunni náði Benteke til boltans á fjærstönginni en markvörður West Ham varði ágætlega.  Það fór svo auðvitað svo að heimamenn náðu að brjóta ísinn fyrstir með marki rétt fyrir hálfleik.  Enner Valencia komst uppað endamörkum vinstra megin, sendi fyrir markið og boltinn lyftist hærra með viðkomu í fæti Flanagan og barst til Antonio á fjærstönginn sem setti boltann snyrtilega í markið.  Skömmu síðar var flautað til hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn var ekki gamall þegar metin höfðu verið jöfnuð.  Brotið var á Benteke fyrir utan teig og Coutinho tók aukaspyrnuna.  Allir bjuggust við því að hann myndi reyna að lyfta boltanum yfir hávaxna leikmenn West Ham í varnarveggnum en í staðinn skaut hann boltanum undir vegginn og í markið.  Virkilega vel gert hjá Brasilíumanninum.  Eftir um klukkutíma leik sendi Klopp þá Daniel Sturridge og Divock Origi inná í stað Coutinho og Teixeira.  Þarna snéru tveir sóknarmenn til baka eftir meiðsli og var virkilega ánægjulegt að sjá þá mæta til leiks á ný.  Bæði lið fengu ágæt tækifæri til að skora það sem eftir lifði leiks en tókst það ekki.  Grípa þurfti því til framlengingar og þar hefði Christian Benteke átt að gera betur er hann komst einn í gegn en lét verja frá sér.  Í uppbótartíma í seinni hálfleik framlengingar fengu svo heimamenn aukaspyrnu hægra megin á vellinum.  Payet sendi fyrir markið og þar reis Ogbonna hæst í teignum og skallaði í fjærhornið.  Afskaplega svekkjandi að fá á sig mark á þessum tímapunkti í leiknum en heimamenn fögnuðu innilega.

West Ham:  Randolph, O'Brien (Moses, 83. mín.), Reid (Collins, 65. mín.), Ogbonna, Cresswell, Kouyaté (Carroll, 75. mín.), Obiang, Noble, Antonio, E Valencia, Payet.  Ónotaðir varamenn:  Adrián, Oxford, Cullen, Parfitt-Williams.

Mörk West Ham:  Antonio (45. mín.) og Ogbonna (120. +1 mín.).

Gult spjald:  Michail Antonio.

Liverpool:  Mignolet, Flanagan, Ilori, Lucas, Smith, Chirivella (Milner, 101. mín.), Stewart, J. Teixeira (Origi, 59. mín.), Ibe, Benteke, Coutinho (Sturridge, 59. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Ward, Jose Enrique, Randall, Henderson.

Mark Liverpool:  Coutinho (48. mín.).

Gult spjald:  Kevin Stewart.

Maður leiksins:  Kevin Stewart var virkilega öflugur á miðjunni í leiknum. Var vinnusamur og stöðvaði oft á tíðum sóknaraðgerðir heimamanna með einföldum hætti.  Vonandi fær hann fleiri tækifæri í byrjunarliðinu með þessari spilamennsku.

Jurgen Klopp:  ,,Við sköpuðum færi en skoruðum ekki mörk - það eru stærstu mistökin sem þú getur gert í knattspyrnu.  En það er betra að búa til færin og nýta þau ekki frekar en að búa ekki til nein færi.  Ég var viss um að þeir leikmenn sem byrjuðu leikinn gætu spilað svona vel.  En eina ástæðan fyrir því að við komum hingað var að komast í næstu umferð, það tókst því miður ekki en við höldum áfram."

Fróðleikur:

- Þetta var fyrsta tap Liverpool gegn West Ham í sögu FA bikarsins.

- Philippe Coutinho skoraði sitt 6. mark á tímabilinu.

- Liverpool datt síðast út í fjórðu umferð keppninnar árið 2013 eftir 3-2 tap gegn Oldham á útivelli.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan