| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Liverpool leikur endurtekinn leik við West Ham United í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í kvöld, þriðjudag. Leikurinn fer fram á Boleyn Ground í London og hefst kl. 19:45.

Eins og flestir vita mættust liðin á Anfield í síðasta mánuði og þar fóru leikar þannig að hvorugt liðið skoraði mark og því þarf að spila annan leik. Búist er við því að Jurgen Klopp nýti sér ungliða í leikmannahópnum en þó fá leikmenn sem eru að stíga uppúr meiðslum að spila leikinn ef marka má fréttir frá Anfield.  Þeir Divock Origi og Philippe Coutinho eru búnir að jafna sig af meiðslum sínum og spila líklega einhvern hluta úr leiknum sem og Daniel Sturridge en hann var á bekknum gegn Sunderland og hefði að ósekju komið inná í þeim leik ef ekki hefði verið fyrir skiptingar snemma leiks vegna meiðsla Dejan Lovren og Joe Allen.

Aðrir ungliðar sem hafa fengið tækifæri í bikarkeppninni til þessa fá líklega að spila í kvöld, leikmenn á borð við Kevin Stewart, Pedro Chirivella, Brad Smith og Sheyi Ojo spiluðu ekki síðasta leik með U-21 árs liðinu og verða í leikmannahópnum í kvöld.  Þá má klárlega vonast eftir því að Danny Ward markvörður sem var kallaður til baka úr láni í byrjun árs fái tækifæri í þessum leik.  Ekki veitir af því að gefa Simon Mignolet hvíld en hann hefur aldeilis ekki spilað vel það undanfarið.  Loks má svo nefna að þeir Steven Caulker, Joao Carlos Teixeira og Christian Benteke verða líklega í byrjunarliðinu.

Þetta er í fjórða skiptið sem Liverpool og West Ham leiða saman hesta sína á tímabilinu og skemmst er að minnast þess þegar liðin mættust á þessum velli í byrjun árs og okkar menn spiluðu ömurlegan leik og töpuðu 2-0.  Í þessum þrem leikjum hefur liðinu ekki tekist að skora eitt mark gegn Hömrunum og ef liðið ætlar sér að komast áfram í bikarnum þá verður það augljóslega að breytast í kvöld.  Heimamenn hafa úr flestum sínum bestu leikmönnum að velja í kvöld og mun Andy Carroll m.a. líklega spila leikinn en hann hefur jafnað sig af smávægilegum meiðslum.

Þeir leikmenn sem spila leikinn í Liverpool treyju í kvöld verða að minnsta kosti að stíga upp og sýna hvað í þeim býr, alltof oft hafa leikmenn mætt til leiks með hangandi haus og svo virðist í þokkabót ekki duga til að vera með tveggja marka forystu þegar langt er liðið á leik líkt og sannaðist gegn fallbaráttuliði Sunderland á laugardaginn var.

Ég vona innilega að leikurinn í kvöld verði skemmtilegur á að horfa fyrir okkur Liverpool menn og að heimamenn eigi ekki greiða leið að markinu.  Því miður er trúin á að þetta muni gerast frekar veik og spáin núna er sú að heimamenn sigla öruggum sigri í höfn, 2-0 og þátttöku liðsins í FA bikarnum á þessu tímabili þar með lokið.

Fróðleikur:

- Aðeins 3 leikir af 11 á þessu ári hafa unnist. 3 leikir hafa tapast og 5 endað með jafntefli.

- Sem fyrr er Christian Benteke markahæstur leikmanna félagsins á tímabilinu með 7 mörk í öllum keppnum.

- Þeir Simon Mignolet, Emre Can og Nathaniel Clyne eru leikjahæstir á tímabilinu með 34 leiki í öllum keppnum.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan