| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool v Sunderland

Það er eitt og annað í umræðunni nú fyrir deildarleik Liverpool og Sunderland sem fer fram á Anfield Road á morgun. Miðaverð, meiðsli, kjarkur og margt fleira. Hópur stuðningsmanna Liverpool hyggst ganga út af leikvanginum á 77. mínútu til að mótmæla verðskránni á miðum fyrir næstu leiktíð. Einn verðflokkurinn hljóðar upp á hækkun og verðið á að vera 77 sterlingspund á sæti. Forráðamenn Liverpool segja umræðuna ekki alveg réttmæta en margir stuðningsmenn Liverpool eru ekki sáttir við eigendurna þessa dagana og í það blandast líka óánægja með að litlu var eytt í leikmannakaup í síðasta mánuði. Ekki bætir tap fyrir Leicester City núna í vikunni skapið. Þó svo að Leicester leiði deildina finnst mörgum að það eigi að vera Liverpool sem ætti að vera í þerra stöðu. En það er bara svo einfalt að liðin eru um það bil þar sem þau verðskulda að vera. 


Jürgen Klopp heldur sínu striki. Hann ákvað að vinna með þá sömu menn og hann hafði í byrjun ársins nema hvað Steven Caulker kom að láni. Marko Grujic var bara lánaður aftur í stað þess að vera settur í hópinn.  Jürgen hefði örugglega getað farið fram á kaup á mönnum en ákvað að halda að sér höndum í leikmannakaupum fram til sumardaga. Þetta þýðir að hann verður að ná því sem mögulegt er út úr þeim mönnum sem fyrir eru og það mun örugglega ganga á ýmsu í því eins og frá því hann tók við í haust. Sumir leikmennirnir eru einfaldlega ekki nógu góðir til að koma Liverpool í almennilega toppbaráttu. Aðrir eiga að geta meira og kannski næst að koma mönnum eins og Christan Benteke í gang. Meiðsli virðast koma í veg fyrir að Jordan Henderson nái að sýna sitt best. Það er auðvitað ekki hægt að reikna með Daniel Sturridge frekar en fyrri daginn. En þessir þrír leikmenn gætu gert mikið til að bæta leik Liverpool ef þeir væru með og næðu að spila eins og þeir geta best. 


Daniel hefur mátt þola gagnrýni vegna þess að sumir telja að hann sé ekki nógu harður af sér og skorti kjark til að berjast í gegnum sásaukamúrinn. Það er auðvitað ekki nokkur leið að vita hvernig málin standa. En verður ekki að teljast líklegast að hann sé það mikið meiddur að hann geti hvorki æft né spilað þegar hann er tilkynntur meiddur? Það er ekki sanngjarnt að ætla annað. En hans er sárt saknað og svo hefur í raun verið frá því í september 2014.


Eins og í öllum leikjum þá þarf Liverpool sigur á morgun. Efstu fjögur sætin eru fjarlæg í bili og verða kannski þar til á næstu leiktíð. En liðið þarf að þoka sér upp stigatöfluna og ekki síður þarf sigra, mörk og annað slikt til að efla sjálfstraust liðsins og leikmannanna. Það er til dæmis úrslitaleikur á dagskrá núna í lok þessa mánaðar! Leicester er núna efst en var í fallbaráttu á síðustu leiktíð en náði að enda frábærlega í vor og hélt svo áfram á sömu braut þegar þessi leiktíð hóst. Gæti Liverpool ekki gert það sama?



Ég spái því að Liverpool bæti við þremur stigum í safnið á morgun og vinni 4:0. Sunderland á ekki að vera nein fyrirstaða og mörkin hljóta að fara að koma. Christian Benteke skorar tvö og þeir James Milner og Adam Lallana skora líka!

YNWA!




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan