| Grétar Magnússon

Tap gegn United

Það var gömul saga og ný þegar okkar menn tóku á móti Manchester United á Anfield. Liverpool mun betra í leiknum, fengu færi sem þeir ekki nýttu en mótherjinn skoraði úr sínu fyrsta skoti á markið seint í leiknum. Lokatölur 0-1.

Jurgen Klopp gerði eina breytingu á liðinu sem gerði jafntefli við Arsenal á miðvikudaginn. Lucas Leiva kom inn í stað Jordon Ibe en að öðru leyti var byrjunarliðið og varamannabekkurinn óbreyttur.  Liverpool menn mættu grimmir til leiks eins og við var að búast en krafturinn var þó ekki eins mikill og í síðasta leik. United ógnuðu þó kannski fyrstir en aukaspyrna sem þeir fengu var send inná teiginn þar sem Sakho skallaði frá. Skömmu síðar fékk Adam Lallana sendingu innfyrir frá Lucas Leiva. De Gea kom út á móti og Lallana reyndi að skalla boltann yfir hann, skallinn var ekki kraftmikill en boltinn barst til Firmino sem skaut að marki fyrir utan teig. Því miður fór skotið framhjá.

James Milner fékk svo flotta sendingu út á hægri kantinn frá Firmino. Hann lék inná teiginn og skaut en skotið fór framhjá markinu úr þröngu færi. Áfram héldu okkar menn að vera meira ógnandi í sínum aðgerðum og Jordan Henderson skaut rétt framhjá stönginni með fínu skoti eftir góðan samleik rétt fyrir utan vítateig. Fyrirliðinn átti einnig tvö önnur skot að marki en aldrei náðu leikmenn að hitta rammann. Staðan í hálfleik var því 0-0.

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri en nú fóru Liverpool menn að hitta á markið með skotum sínum. De Gea varði vel frá Emre Can og Firmino náði frákastinu útvið endalínu og skaut að marki en de Gea sló boltann frá. En án þess að orðalengja þetta eitthvað meira náði svo United að skora eina mark leiksins 12 mínútum fyrir leikslok. Þar var að verki Wayne Rooney eftir að Fellaini hafði skallað boltann í þverslá eftir fyrirgjöf frá vinstri. 

Klopp sendi þá Christian Benteke og Steven Caulker inná til að reyna að kreista fram mark en allt kom fyrir ekki og lokatölur leiksins því grátlegt tap 0-1 fyrir erkifjendunum.

Liverpool:  Mignolet, Clyne, Sakho, Toure (Benteke, 81. mín.), Moreno, Lucas, Henderson, Can, Milner (Caulker, 90. mín.), Lallana (Ibe, 76. mín.), Firmino. Ónotaðir varamenn: Ward, Smith, Allen, Teixeira.

Manchester United: de Gea, Young (Borthwick-Jackson, 42. mín.), Smalling, Blind, Darmian, Schneiderlin, Fellaini, Lingard (Mata, 66. mín.), Herrera (Depay, 72. mín.), Martial, Rooney. Ónotaðir varamenn: Romero, McNair, Varela, Pereira.

Mark Manchester United: Wayne Rooney (78. mín.).

Gul spjöld: Smalling og Fellaini.

Maður leiksins:  Það er erfitt að velja mann leiksins þegar menn geta ekki asnast til að skora og nýta betur færin sem þeir fá. En Emre Can fær nafnbótina að þessu sinni, hann er ávallt sterkur inná miðjunni og skilar sínu yfirleitt vel.

Jurgen Klopp: ,,Þetta er nágrannaslagur og í svoleiðis leik hefur maður aðeins eitt markmið - maður verður að vinna því það er eini möguleikinn til þess að vera ánægður eftir leik. Ég held að ef Manchester United tala um sína frammistöðu segja þeir að hún hafi ekki verið góð en þeir unnu leikinn og eru því mjög ánægðir. Við spiluðum betur en þeir en ég er virkilega pirraður yfir úrslitunum. Við gerðum marga hluti mjög vel í dag. Sköpuðum færi en nýttum þau ekki."

Fróðleikur:

- Liverpool hefur ekki unnið Manchester United í síðustu fjórum viðureignum liðanna.

- Manchester United skoruðu úr öllum sínum fjórum skotum á mark Liverpool í viðureignum liðanna á tímabilinu.

- Þetta var í fyrsta skipti undir stjórn Jurgen Klopp sem Liverpool skorar ekki mark á heimavelli.

- Liverpool hafa fengið á sig mörk eftir hornspyrnu oftast allra liða í deildinni eða alls 7 talsins.

- Eftir leikinn sitja okkar menn í 9. sæti deildarinnar með 31 stig.

- Markatalan er -3 sem verður að teljast ansi slakur árangur eftir 22 leiki í deildinni.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan