| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin


Liverpool heimsækir West Ham í hádeginu á morgun í fyrsta leik Úrvalsdeildar á nýju ári. Vonandi byrjar nýja árið á svipuðum nótum og það gamla endaði. 

West Ham var lengi framan af leiktíðinni í toppbaráttunni og til alls líklegt. Okkar menn fengu til dæmis að kenna á Hömrunum í lok ágúst þegar West Ham vann sannfærandi 3-0 sigur á Anfield. En eftir fljúgandi ferð í ágúst og september fór að halla undan fæti hjá Hömrunum og restin af árinu var nokkur vonbrigði, miðað við það sem á undan var gengið. 

Frá því að flugið á Hömrunum fór að daprast fyrr í haust hefur liðið aðeins náð þremur sigrum í heilum 19 leikjum. West Ham lagði Southampton að velli 2-1 í síðasta leik sínum ársins og það var fyrsti sigur í deildinni síðan í október. Fyrir leikinn gegn Southampton hafði West Ham leikið átta leiki í röð án sigurs og aðeins skorað 4 mörk. Liðið er reyndar taplaust í síðustu 6 leikjum því fyrir sigurleikinn gegn Southampton hafði það gert fimm jafntefli í röð.

Króatinn Slaven Bilic tók við West Ham liðinu í sumar eftir að félagið hafði ákveðið að endurnýja ekki samninginn við Sam Allardyce, sem hafði stjórnað Hömrunum frá 2011. Eins og áður segir fékk Lundúnaliðið fljúgandi start á leiktíðinni og Bilic var elskaður og dáður af stuðningsmönnum félagsins.

Nú um áramót er staðan hinsvegar þannig að West Ham er einu sæti og þremur stigum neðar en um síðustu áramót, þegar Stóri Sam var í brúnni. Það er því mikið í húfi fyrir Króatann að byrja nýja árið vel.

Hinn franski Dimitri Payet sem hefur verið frá í 2 mánuði vegna meiðsla og var einn allra besti maður deildarinnar í haust er að koma til baka og verður að öllum líkindum með á morgun. Það er mikið gleðiefni fyrir Bilic, en við vonum auðvitað að Frakkinn hrökkvi ekki í gang strax í fyrsta leik.

Síðasta ár var ansi viðburðaríkt hjá okkar mönnum. Steven Gerrard yfirgaf félagið, Brendan Rodgers fékk fullt traust og fullar hendur fjár í sumar en var svo rekinn í haust og síðast en ekki síst var Jurgen Klopp ráðinn til starfa. Sem er tvímælalaust jákvæðasta frétt ársins úr okkar herbúðum. 

Það er ansi þétt leikjaprógramm hjá Liverpool þessa dagana. Liðið var þátttakandi í síðasta Úrvalsdeildarleik ársins gegn Sunderland á miðvikudagskvöld og tekur þátt í þeim fyrsta á nýju ári á morgun. Ef leikurinn gegn Sunderland er talinn með leikur liðið 4 útileiki á 10 dögum áður en Arsenal og Manchester United koma í heimsókn á Anfield með fjögurra daga millibili um miðjan mánuðinn.

Í janúar leikur liðið 7 leiki á 24 dögum og það er þessvegna alveg morgunljóst að Klopp og hans menn þurfa að rótera liðinu talsvert í törninni sem framundan er. Það hjálpar ekki til að meiðslalistinn er sem fyrr óþægilega langur. Í vikunni var staðfest að Origi verður frá í þrjár vikur, Skrtel verður frá fram að mánaðamótum og svo haltraði Henderson út af í leiknum gegn Sunderland og verður tæpast með á morgun. Fyrirliðinn spilar reyndar alla leiki sárkvalinn eins og áður hefur komið fram. Milner mun ekki vera orðinn leikfær og svo þarf ekkert að ræða menn eins og Danny Ings og Joe Gomez.

Vörnin er ansi þunnskipuð og ég held að við megum vera þakklát fyrir formið á Clyne og Moreno. Það er ekki um auðugan garð að gresja í bakvarðastöðunum. Að vísu er Flanagan óðum að komast á skrið en hann á langt í land með að komast í leikform og í rauninni ekkert víst hvernig hann kemur undan þeim erfiðu meiðslum sem hann hefur glímt við. Jose Enrique hlýtur að fara frá félaginu núna í janúar, ef einhver vill nota hann. Brad Smith virðist enda mun gáfulegri kostur í vinstri bakvörðinn en Spánverjinn.

Miðverðir okkar meiðast til skiptis og mátti litlu muna að Sakho meiddist eftir harkalega tæklingu M´Vila á miðvikudaginn, en sem betur fer virðist Frakkinn hafa þolað það áhlaup bærilega. Kolo Toure er greinilega ekki ofarlega í goggunarröðinni hjá Klopp, en er að minnsta kosti heill og að mínu viti að minnsta kosti skárri kostur í miðvörðinn en Lucas Leiva. Ef Klopp tekur upp á því að veifa veskinu í janúar hlýtur miðvörður að vera efstur á listanum.

Jákvæðu fréttirnar af meiðslamálum eru þær að Daniel Sturridge er leikfær og verður væntanlega í hópnum á morgun, en það er þó ólíklegt að hann hefji leik. Ég held að það sé alveg öruggt að Benteke byrjar uppi á topp, enda Belginn sjóðheitur með tvö mörk í síðustu tveimur leikjum, þrátt fyrir að hafa klúðrað tveimur bestu færum sem Liverpool hefur fengið á tímabilinu með eftirminnilegum hætti.

Ég á ekki von á því að Klopp geri stórar breytingar á liðinu fyrir morgundaginn. Öftustu fimm verða þeir sömu og í síðasta leik og ég á líka von á því að Benteke, Lallana, Firmino og Can haldi sætum sínum. Henderson er tæpur og ég tippa á að Lucas komi í hans stað og svo er ekki ólíklegt að Ibe byrji leikinn á kostnað Coutinho, sem var með daufasta móti gegn Sunderland.

Eins og oft hefur komið fram er ég lélegur spámaður og ég hef enga tilfinningu fyrir því hvernig leikurinn á morgun mun þróast. En ég veit að það yrði ofboðslega sætt að sigra Hamrana á útivelli og byrja nýja árið með stæl. Þrír sigurleikir í röð myndu gefa okkur gott veganesti inn í árið. Ég ætla að spá 2-1 sigri. Andy nokkur Carroll skorar fyrir heimamenn úr föstu leikatriði (nema hvað) en Benteke og Lallana sigla sætum sigri í höfn fyrir okkar menn.

YNWA!

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan