| Sf. Gutt

Sigur á toppliðinu

Stuðningsmenn Liverpool gátu farið kátir heim í jólaafgangana eftir að Rauði herinn hafði reynst toppliði deildarinnar yfirsterkari. Liverpool vann 1:0 á Anfield og komst aftur á rétta braut.

Það var allt annað að sjá til leikmanna Liverpool á fyrstu mínútunum en á móti Watford á dögunum. Núna voru þeir tilbúnir í slaginn og toppliðið þurfti að hafa fyrir því frá upphafi leiksins. 

Það var reyndar lítið um opin færi en Adam Lallana átti fyrstu góðu marktilraunina en skot hans, eftir að hann slapp inn í vítateiginn, fór í hliðarnetið eftir rúman stundarfjórðung. Á 23. mínútu átti Emre Can langskot sem Kasper Schmeichel varði í horn. Litlu síðar braust Divock Origi inn í vítateiginn vinstra megin en Kasper varði skot hans úr þröngri stöðu. 

Divock hafði spilað vel og það kom sér illa að hann varð að fara af velli á 38. mínútu eftir að hann hafði tognað á læri. Inn á kom landi hans Christian Benteke sem hefur gengið illa í síðustu leikjum. Toppliðið fékk sitt fyrsta færi þegar fjórar mínútur voru til leikhlés en þá lék Riyad Mahrez sig í færi við vítateiginn en Simon Mignolet, sem hafði ekki haft neitt að gera, bjargaði í horn. Ekkert mark var komið þegar flautað var til hálfleiks.   

Baráttan hélt áfram í síðari hálfleik en sem fyrr var fátt um opin færi. Eftir klukkutíma skallaði Chrstian yfir úr þokkalegu færi en hann var hittnari á 63. mínútu. Emre kom boltanum til vinstri á Roberto Firmino. Brasilíumaðurinn sendi fyrir markið inn á miðjan vítateiginn þar sem Christian var óvaldaður og hann náði að stýra boltanum neðst í hægra hornið framhjá Kasper. Vel gert hjá Belganum og markinu var auðvitað vel fagnað. 

Þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir varði Simon með snöggum viðbrögðum frá Nathan Dyer. Undir lokin var mikil spenna þegar Leicester reyndi að jafna. Leikmennn voru fastir fyrir og vörðu markið sitt með kjafti og klóm. Þegar komið var fram í viðbótartíma fékk Leicester horn. Kasper rauk fram en Liverpool bægði hættunni frá. Christian komst einn í gegn en i stað þess að senda boltann í autt markið þegar kostur var á ákvað hann að leika nær markinu. Loksins þegar hann skaut var varnarmaður kominn á svæðið og náði að bjarga. Algjörlega ótrúlegt að Belginn skyldi ekki skora en reyndar hefði hann átt að vera dæmdur rangstæður en fyrst ekki var gert svo hefði hann átt að skora. Sem betur fer kom klaufaskapur hans ekki að sök og Liverpool vann sanngjarnan sigur. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu innilega og jólaskapið var með besta móti þegar haldið var heim á leið. 

Sigurinn var kærkominn eftir slaka leiki síðustu vikurnar. Nú þarf liðið að koma sér í gang og reyna að draga á liðin fyrir ofan. Meistaradeildarsætin eru ekki langt undan en það þarf að ná meiri stöðugleika og komast á sigurbraut. Þessi sigur var sannarlega skref í rétta átt. 

Liverpool: Mignolet, Clyne, Lovren, Sakho, Moreno, Can, Henderson, Lallana (Allen 90. mín.), Coutinho (Leiva 90. mín.), Firmino og Origi (Benteke 38. mín.). Ónotaðir varamenn: Bogdan, Toure, Teixeira og Randall.

Mark Liverpool: Christian Benteke (63. mín.).

Gul spjöld: Adam Lallana og Emre Can.

Leicester City:
Schmeichel, Simpson, Huth, Morgan, Fuchs, Mahrez (Kramaric 80. mín.), Kanté, King, Albrighton, Okazaki (Dyer 69. mín.) og Vardy (Ulloa 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Schwarzer, De Laet, Wasilewski og Inler.

Gult spjald:
Robert Huth.

Áhorfendur á Anfield: 44.123.

Marður leiksins: Jordan Henderson var harðskeyttur á miðjunni. Það munar verulega um hann og hans var sárt saknað framan af leiktíðinni þegar hann var meiddur. 

Jürgen Klopp: Mér fannst þetta sanngjarn sigur. Það var gríðarlega mikilvægt að ná sigri í dag eftir fjóra leiki án sigurs. Allir vita hversu góðu liði Leicester hefur á að skipa og við urðum að einbeita okkur að því spila einfalda knattspyrnu. 

Fróðleikur

- Christian Benteke skoraði sitt sjötta mark á leiktíðinni.

- Liverpool vann loks eftir fjóra leiki í röð án sigurs. 

- Þetta var í fyrsta sinn sem Leicester tekst ekki að skora í deildarleik á leiktíðinni. 

Hér eru
myndir úr leiknum af Liverpoolfc.

Hér er viðtal við Jürgen Klopp af vefsíðu BBC.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan