| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin


Liverpool fær Swansea í heimsókn á Anfield á morgun og samkvæmt tölfræðinni eru litlar líkur á því að okkar menn fari með sigur af hólmi. 

Liverpool hefur enn ekki tekist að sigra deildarleik í kjölfar Evrópudeildarleiks, en vonandi verður breyting á því á morgun. Liverpool ætti altént að vera sterkara lið en Swansea, sérstaklega í ljósi ástandsins hjá Swansea þessa dagana og uppsveiflunnar sem er í gangi hjá okkar mönnum, eftir að Jürgen Klopp tók við liðinu. 
 
Það þarf ekkert að fjölyrða um það að liðið hefur tekið framförum eftir að Jürgen Klopp við stjórninni og það sést langar leiðir að sjálfstraust leikmanna er meira, leikskipulagið er betra og svo framvegis og svo framvegis. 

Það er í rauninni alveg ótrúlegt að Liverpool skuli hafa náð að ráða Klopp til starfa. Hann er klárlega einn allra heitasti stjórinn í bransanum og það veit sá sem allt veit að Liverpool er ansi langt frá því að vera eitt af heitustu liðunum í boltanum um þessar mundir. Því miður. Þessvegna er það hreint magnað að þessi frábæri stjóri skyldi ákveða að taka Liverpool að sér. Kannski er Klopp fyrsti alvöru stjórinn hjá Liverpool síðan Kenny Dalglish hætti árið 1991?

Þegar Bob Paisley tók við af Bill Shankly árið 1974 skapaðist hefð sem gjarnan var nefnd „The Liverpool Way". Þ.e. að einhver úr starfsliði félagsins tók við stjórninni þegar stjórinn steig til hliðar; Paisley tók við af Shankly, Fagan af Paisley og Dalglish af Fagan. Þegar Dalglish hætti störfum var vikið frá reglunni og Graeme Sounes var ráðinn til starfa. Vissulega fyrrum meðlimur Liverpool fjölskyldunnar, en á þessum tíma utanaðkomandi. Við vitum öll hvernig það fór. 

Eftir hörmungartímabilið með Souness var reynt að bakka aftur yfir í „The Liverpool Way" og ein dyggasti þjónn félagsins, Roy Evans, var gerður að stjóra. Það gekk ekki. Síðan kom Gérard Houllier, af því að Frakkar voru í tísku. Fyrst við hlið Evans og svo einn og óstuddur. Það gekk ekki heldur. Ráðning Houllier var samt alveg skiljanleg á sínum tíma. Hann var af sumum (í það minnsta eigendum Liverpool) talinn einhverskonar hugmyndasmiður franska fótboltans og hafði jú gert Paris SG að meisturum 1985 ef ég man rétt. 

Eftir á að hyggja var það ekki fyrr en Rafael Benitez kom til starfa sumarið 2004 að Liverpool fékk stjóra sem hafði einhverja vigt. Hann er í raun eini stjórinn frá því að gullaldartímabilinu lauk sem var eftirsóttur af öðrum stórliðum og hafði einhver alvöru afrek á ferilskránni þegar hann kom til starfa. Hann hafði gert Valencia tvisvar sinnum að Spánarmeisturum og unnið UEFA keppnina og þótti heitur biti á markaðnum. 

Undirritaður var reyndar aldrei í hópi dyggustu stuðningsmanna Benítez, en það verður ekki af honum tekið að það var ekki fyrr en hann kom til starfa að Liverpool gat aftur farið að teljast alvöru fótboltalið. Svo stýrði hann liðinu auðvitað í Istanbul og því munum við aldrei gleyma.  

Frá því að Benítez tók pokann sinn vorið 2010 höfum við farið í gegnum ótrúlega rússibanareið. Við höfum horft upp á Roy Hodgson gera okkur fráhverf fótbolta, okkar gömlu hetju Kenny Dalglish sanna fyrir okkur að það lifir ekkert endilega lengi í gömlum glæðum og svo höfum við séð Brendan Rodgers hverfa frá því að vera dýrlingur yfir í dæmalausan ónytjung. Og núna er Liverpool allt í einu komið með einn allra flottasta stjóra í heiminum í brúna. Það er í raun alveg ótrúleg staðreynd. 

Það er alveg morgunljóst að stuðningsmenn keppinauta okkar öfunda okkur hrikalega fyrir að hafa krækt í Klopp. Og við stuðningsmenn Liverpool erum að sama skapi flestir, ef ekki allir, alveg himinlifandi. Klopp hefur komið inn með ferskan andblæ, kraft og gleði. 

Á morgun getur Liverpool rekið af sér slyðruorðið sem hefur fylgt þátttöku liðsins í Evrópudeildinni. Liðið hefur ekki enn náð að sigra næsta deildarleik á eftir Evrópudeildarleik. Það hefur verið alveg sama hvernig liðinu hefur verið stillt upp. Brendan Rodgers hvíldi til að mynda svo til allt aðalliðið í fyrri leiknum gegn Bordeaux í haust, en það breytti því ekki að liðið náði ekki að sigra Norwich í næsta leik þar á eftir. Algjörlega hörmuleg staðreynd.

Swansea liðið er í mikilli krísu þessa dagana. Garry Monk, sem var fyrir nokkrum mánuðum einn ferskasti stjórinn í bransanum, situr í sjóðheitu sæti þessa dagana og flestir sparkspekingar eru á því að hann verði látinn fara ef liðið tapar leiknum á morgun. Samt sem áður er Swansea liðið hreint ekki auðveld bráð. Það er fullt af fínum fótboltamönnum í liðinu og það þýðir ekkert fyrir okkar menn að fara af hálfum hug í verkefni morgundagsins. 

Úr herbúðum Liverpool er það helst að frétta að Jordan Henderson er farinn að æfa á fullu og hann gæti jafnvel verið með á morgun. Þá er allt eins víst að Daniel Sturridge verði með, en Klopp hefur látið hafa það eftir sér að Sturridge verði að læra muninn á meiðslum og hnjaski! Philippe Coutinho, sem meiddist í leiknum gegn Manchester City um síðustu helgi, verður mögulega búinn að ná sér og Martin Skrtel, sem var á bekknum gegn Bordeaux vegna vírussýkingar, verður nánast örugglega í hjarta varnarinnar ásamt Dejan Lovren. 

Lucas Leiva verður í banni á morgun og þá er spurning hver tekur hans mikilvægu stöðu. Líklega verður það Joe Allen, en Henderson og Can koma einnig til greina. Christian Benteke verður að öllum líkindum í byrjunarliðinu eftir góða frammistöðu gegn Bordeaux og líklega verður Firmino látinn taka stöðu Coutinho. Firmino var reyndar frekar slappur gegn Frökkunum, eftir stjörnuleik gegn City um liðna helgi.

Mér er eiginlega nokk sama hvernig Klopp stillir upp liðinu á morgun. Ég veit að menn munu leggja sig alla fram - og vonandi uppskera laun erfiðisins. Ég sveiflast reyndar á milli þess að spá markalausu jafntefli og algjörum stórsigri okkar manna - sem undirstrikar líklega einungis hversu vonlaus spámaður ég er. Ég læt það auðvitað ekkert á mig fá og spái 1-0 sigri Liverpool. Svei mér þá ef Benteke skorar ekki markið - eða Skrtel. 

YNWA!


 

  

 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan