| Heimir Eyvindarson

Janúarglugginn nálgast


Jürgen Klopp og aðstoðarmenn hans hafa haft nóg að gera í landsleikjahléinu sem nú stendur yfir. Meðal þess sem þeir hafa örugglega rætt er hvaða leikmenn eru hugsanlega fáanlegir strax í janúar. 

Það hefur verið slúðrað endalaust um að þessi eða hinn leikmaðurinn sé á óskalista Klopp og jafnvel væntanlegur strax í janúar, en eins og venjulega er flest sem ratar á netmiðla í þeim efnum að mestu úr lausu lofti gripið. Klopp hefur sjálfur ekkert viljað tjá sig um hugsanleg leikmannakaup, nema það að hann tók það skýrt fram þegar hann var ráðinn að hann hefði síðasta orðið þegar kæmi að slíkum hlutum. 

Nú nálgast janúar óðfluga og því er ekki úr vegi að skoða aðeins hvað leikmenn gætu raunverulega verið undir smásjánni hjá Klopp og co.

Markverðir: Eina nafnið sem hefur verið nefnt reglulega sýnist mér vera Þjóðverjinn Marc Andre Ter Stegen, sem hefur verið varamarkvörður Barcelona síðan haustið 2014. Ter Stegen er 23 ára gamall og einn heitasti bitinn í markvarðaskúffunni í Evrópu þannig að það yrði örugglega styrkur af því að fá hann til Liverpool, en verður að teljast frekar ólíklegt að eitthvað verði af því. 

Varnarmenn: Varnarlína Liverpool er ansi þunnskipuð þessa dagana. Jon Flanagan, Jose Enrique, Joe Gomez og Mamadou Sakho eru allir meiddir. Maður er eiginlega hættur að telja Enrique og Flanagan með, þeir hafa verið svo lengi frá, og svo kemur Kolo Toure varla orðið inn á fótboltavöll án þess að meiðast þannig að það er lítið á hann að treysta. Varnarlína liðsins; Clyne, Skrtel, Lovren og Moreno hefur í rauninni ekkert backup af bekknum, fyrir utan Toure. Einhverjir varnarmenn eru í láni hér og þar, en þeir hafa litla lukku vakið þannig að Klopp hlýtur að reyna að krækja í einhverja varnarjaxla í janúar. 

Einn þeirra sem ótt og títt hefur verið nefndur er Serbinn Neven Subotic, sem er á mála hjá Borussia Dortmund (kemur á óvart).

Subotic var með Klopp hjá Mainz og fylgdi honum yfir til Dortmund. Hann hefur verið lykilmaður í liði Dortmund flest árin, en hefur lítið sem ekkert fengið að spila á þessari leiktíð. Subotic verður 27 ára í desember.


Hinn 27 ára gamli Þjóðverji Benedikt Höwedes hefur líka verið sterklega orðaður við Liverpool, en hann hefur látið hafa það eftir sér nýlega að hann sé spenntur fyrir því að prófa enska boltann. Þá hefur Höwedeis einnig farið fögrum orðum um Klopp og Liverpool í sömu setningunni, sem hefur ekki verið til þess að draga úr sögusögnunum. Höwedes er miðvörður Schalke og þýska landsliðsins, en getur líka leikið á miðjunni. 

Miðjan: Það er talið frekar ólíklegt að eiginlegir miðvallarleikmenn séu á janúarlistanum hjá Klopp, en sjálfsagt myndi hann ekki slá hendinni á móti góðum vængmönnum. Það er óskaplega lítið hægt að ráða í það slúður, flestir landsliðsmenn Evrópu sem hafa komið við á kantinum hafa jú verið orðaðir við Liverpool að undanförnu. 

Þeir sem hvað oftast eru nefndir og eru ekki alveg út úr kortinu eru Senegalinn Sadio Mane hjá Southampton og enski unglingalandsliðsmaðurinn Demarai Gray hjá Birmingham. Liverpool hefur reyndar afleita reynslu af Senegölum, en það verður ekki af Mane tekið að hann er öflugur. Í maí s.l. sló hann met sem við Púlarar héldum að yrði aldrei slegið, þegar hann skoraði þrennu á tæpum þremur mínútum og sló þar með rúmlega 20 ára gamalt met Robbie Fowler. Mane er búinn að skora 6 mörk fyrir Southampton það sem af er leiktíðar og er leikmaður sem myndi örugglega nýtast okkur vel. 

André Schürrle er líka reglulega orðaður við okkar menn, en hann hefur lítið fengið að spila með Wolfsburg frá því að hann yfirgaf Chelsea fyrir tveimur árum. Þar er á ferð sterkur leikmaður sem þekkir ensku deildina út og inn. 

Framherjar: Á pappírnum er Liverpool ekki á flæðiskeri statt hvað framherja varðar, en meiðslavandræði okkar manna eru þvílík að einu framherjarnir um þessar mundir eru eiginlega Belgarnir Benteke og Origi.

Danny Ings verður líklega ekki meira með á leiktíðinni og það er ekkert hægt að treysta á okkar besta framherja, Daniel Sturridge. Benteke hefur reyndar verið dálítið frá líka þannig að það er ekki um auðugan garð að gresja fram á við. Reyndar getur Roberto Firmino líka leikið frammi, en hann hefur svosem ekki verið alveg laus við meiðsli heldur. 


Marco Reus, Robert Lewandowski og Pierre-Emerick Aubameyang, sem allir hafa leikið undir stjórn Jürgen Klopp hjá Dortmund, hafa allir verið nefndir til sögunnar en það er ansi langsótt ef við eigum að vera alveg raunsæ. Við hugsum ekki um þá í bili a.m.k.

Brasilíumaðurinn Alexandre Pato hefur líka verið þráfaldlega orðaður við Liverpool. Hann er 26 ára og þótti á sínum tíma eitt mesta efnið í boltanum.

Pato fór ungur að árum til AC Milan og skoraði svo að segja mark í öðrum hverjum leik í Serie A alveg frá 2007-2011. Þá fór að halla undan fæti, hann átti í erfiðum meiðslum og svo fór á endanum að hann fór heim til Brasilíu í janúar 2013. Þar hefur hann spilað síðan og staðið sig vel. 


Pato er meiðslapési og hefur tapað töluverðum hraða frá því að hann var upp á sitt besta þannig að það er ekkert sérstaklega sennilegt að stærstu liðin muni slást um hann ef hann vill reyna fyrir sér í Evropu á nýjan leik. Það eitt og sér gerir samningsstöðu Liverpool ágæta, en ég sé einhvernveginn ekki fyrir mér að Klopp hafi mikinn áhuga á Pato. Maður skyldi þó aldrei segja aldrei. 

Sparkspekingar í Þýskalandi fylgjast náið með Jürgen Klopp og þar í landi er hávær orðrómur upp um að fyrsti maðurinn sem Klopp muni kaupa til Liverpool verði Senegalinn (!) Leroy Sane hjá Schalke. Sane er aðeins 19 ára gamall og er orðinn fastur maður í liði Schalke og U-21 árs landslið Þjóðverja.

     
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan