| Sf. Gutt

Vantar tiltrú!


Eitt af því fyrsta sem Jürgen Klopp talaði um var að stuðningsmenn Liverpool yrðu að breytast úr efasemdafólki og öðlast tiltrú. Það sama gildir greinilega um liðið sem hefur gert hvert jafnteflið á fætur öðru og oftar en ekki misst niður forystu! Jürgen telur að leikmennina skorti trú til að klára leikina og breyta jafnteflum í sigra. Hann ræddi þetta vandamál eftir leik Liverpool og Southampton.  

,,Þetta er vandamál. Við erum ekki nógu yfirvegaðir þegar við erum komnir í færi. Þá fer síðasta sendingin kannski forgörðum og svo framvegis. Ég skil ekki að þessu eigi að fylgja einhver pressa en það er greinilegt að strákarnir finna fyrir pressu. Þeir leggja hart að sér, eru einbeittir, fullir eldmóðs en svo kemur eitt mark og það er eins og það sé kominn heimsendir. Þetta er ekki neinn heimsendir. Bara eitt mark. Menn verða að skilja að það er alltaf hægt að koma til baka."

Sumir telja að það sé spenna í loftinu á Anfield sem trufli leikmenn Liverpool. Jürgen finnst gott andrúmsloft á Anfield.

,,Mér finnst allt í fínu. Andrúmsloftið hér er fullkomið til að spila knattspyrnu. En eftir því sem við þurfum að bíða lengur eftir velgengni þá verður kannski vart við óþolinmæði. En það er ekki út af andrúmsloftinu hérna. Allt er til staðar hérna núna þannig að vel geti gengið. En við verðum að sýna þolinmæði. Það þarf líka að leggja hart að sér."


Þjóðverjinn segist sjá framfarir hjá liðinu í þeim leikjum sem hann hefur stýrt. Hann var þó vonsvikinn yfir því að ekki skyldi nást að vinna sigur á Southampton.

,,Ég sá framþróun og margt gott en við erum auðvitað ekki ánægðir með að ekki skyldi nást sigur. En svona er knattspyrnan og allir verða að skilja það. Við höfum ekki ennþá tapað en samt spilað á móti liðum sem eru ekki þau verstu í deildinni eftir því sem mér sýnist."

Það er ljóst að hugarfar stuðningsmanna og leikmanna Liverpool verður að breytast og það strax!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan